Dick Cheney
Dick Cheney

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna í forsetatíð George W. Bush, er látinn, 84 ára að aldri. Var hann varaforseti árin 2001 til 2009 og er af mörgum sagður hafa stóreflt embættið í varaforsetatíð sinni.

Cheney-fjölskyldan segir hann hafa látist af völdum lungnabólgu og hjarta- og æðasjúkdóma, en Cheney hafði stærstan hluta ævi sinnar glímt við þessa kvilla og fengið nokkur hjartaáföll. Hið fyrsta árið 1978 þegar hann var einungis 37 ára gamall.

Cheney var varaforseti þegar hryðjuverkin miklu voru framin í Bandaríkjunum 11. september 2001. Sagði hann þau hafa breytt sér til lífstíðar.

Cheney var bæði áhrifavaldur og umdeildur í stjórnmálum vestanhafs og gagnrýndi lengi Donald Trump og MAGA-hreyfinguna.