Sviðsljós

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Fyrr á þessu ári lauk verkefninu Pappírsslóð rakin en tilgangur þess var að komast að uppruna þess pappírs sem notaður var í skjölum, handritum og bókum á Íslandi á 16. og 17. öld með greiningu á vatnsmerkjum í pappír. Silvia Hufnagel, fræðimaður hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, var ein þeirra sem starfaði að verkefninu sem tók ríflega þrjú ár.

Verkefni þetta var umfangsmikið og voru rannsökuð rúmlega 140 skjöl og 350 handrit ásamt 36 prentuðum bókum. Vatnsmerki í þeim voru greind og skráð í gagnagrunn. Auk þess voru 480 vatnsmerki í 98 skjölum, 61 handriti og einni bók mynduð með sérstökum búnaði sem leigður var frá Þýskalandi.

...