Netgreinar

Jón Snorri Ásgeirsson

Illvirki í takt við tímann

Jón Snorri Ásgeirsson
Í haust lögðu þrettán baráttujaxlar á þingi fram frumvarp um að ÁTVR verði TVR og hætti að selja áfengi.

Þeir sem vilja óhefta sölu áfengis, trúbræður aðstandenda frumvarpsins, hafa lengi reynt að koma inn hjá okkur þeirri skoðun að við þjáumst mikið meðan núverandi kerfi er við líði og að við þráum aukna þjónustu. Þetta var orðað þannig í greinargerð með fyrra frumvarpi um sama efni: „Viðskiptavinirnir gera sífellt aukna kröfu um þjónustu“. Sumum viðskiptavinunum finnst þetta nokkuð orðum aukið, meðal annars þeim sem bögglar saman þessum texta. Gæti ekki átt sér stað að einhverjum mislíkaði hækkun verslunarálagningar, vöntun vöruþekkingar, fátæklegt úrval víðast hvar, að ekki sé talað um vaxandi unglingadrykkju sem bent hefur verið á með góðum rökum að verði staðreynd ef frumvarpið verður samþykkt? Er ekki líka hugsanlegt að viðskiptavinirnir verði ekkert sérstaklega hrifnir af því að álitlegur hluti arðsins af vínsölunni renni í vasa auðmanna sem lítt skattlagðar fjármagnstekjur?

Eitt af því sem stingur í augun þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin er eftirfarandi yfirlýsing: „Ekki er ólíklegt að aukið aðgengi að áfengi hafi aukin áfengiskaup í för með sér, a.m.k. til byrja með. Líklegt verður þó að telja að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju.“ Höfundarnir sætta sig ágætlega við að neyslan aukist og að það sé „líklegt“ (þ.e. ekki öruggt) að hún dragist að einhverju leyti saman aftur. Ekki er ljóst hvaðan þeir hafa þá speki sem felst í setningunni: „Ekki hefur verið sýnt fram á það að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu“. Við þurfum ekki að leita lengi á netinu til að finna dæmi um eðli þess samhengis. Hér er eitt: Í ritinu Alcohol and Temperance in Modern History: An International Encyclopedia, Vol. I-II, standa þessi orð á bls. 482 í fyrra bindinu: „A high tide of alcohol consumption followed… “, sem þýða mætti einhvern veginn svona: „Flóðbylgja áfengis æddi yfir landið… “. Þarna er fjallað um afnám hafta og einkavæðingu vínsölu í Póllandi eftir að járntaldið var tekið niður. Um þetta má lesa nánar til dæmis á http://www.aaaprevent.eu, undir Reports > National Profiles. Þar kemur fram, meðal annars, að söluaðferðirnar miðast ekki hvað síst við unga fólkið.

Samkvæmt upplýsingum SÁÁ er meira en helmingur allrar drykkju ofan hófdrykkjumarka, og eykst áfengisvandinn í hlutfalli við vaxandi heildarneyslu. Við getum því hvorki verið alveg viss um að Pólverjarnir séu búnir að jafna sig eftir veisluna, né að veislan sé yfirleitt búin, enda er ekki einu sinni aldarfjórðungur frá því hún hófst.

Í DV 3. mars birtist stutt og hnitmiðuð grein um þessi mál eftir Guðbjart Hannesson, „Hagsmunagæsla á kostnað almennings?“ Guðbjartur segir meðal annars: „Bent er á að fjöldi sölustaða gæti tífaldast og að eðli einkarekinna verslana sé að reyna að selja sem mest.“ Að fjöldinn margfaldist, jafnvel tífaldist, er alls ekki óhugsandi fyrst gert er ráð fyrir að áfengi megi selja miklu víðar en í matvörubúðum. Það að einkareknar verslanir reyna að selja sem mest er einmitt það sem gerir frumvarpið svo hættulegt.

Sú kenning að ekkert sé að því að neyslan aukist því hún hjaðni bara aftur virðist dálítið vafasöm svo ekki sé meira sagt. Enginn efast um að hún aukist, en það verður örugglega bið á að hún hjaðni (hinn tífaldi aðgangur verður þrándur í götu). Á þeim tíma fara feiknamörg mannslíf í súginn og kostnaður samfélagsins verður gífurlegur. Flytjendur frumvarpsins kunna ráð við þessu öllu saman: Við eflum bara forvarnirnar! Þá vaknar sú spurning hve miklar þær varnir þurfa að vera til að koma algerlega í veg fyrir að neyslan aukist. Það er ekki hægt að sætta sig við neitt minna en það, eða hvað? Jú, þeir eru til sem finnst það bara fínt, þingmennirnir þrettán eru alveg sáttir eins og þegar hefur komið fram. Hvað ef forvarnirnar verða skornar niður við trog þegar næst syrtir í álinn í efnahagsmálunum? Og hvað ef margfalt meira fé fer í auglýsingar en forvarnir? Hver segir að lagasetning um auglýsingar verði ekki rýmkuð á næsta löggjafarþingi til hagræðis fyrir sprúttsalana?

Hver einasti maður hlýtur að sjá að þetta er allt saman gjörsamlega út í loftið. Hvernig mætti það vera að salan ykist ekki nema lítið eitt og einungis rétt um stundarsakir við margföldun aðgengisins og með ísmeygilegri sölumennsku í einkareknum verslunum.

Með því að gúggla saman UK alcohol deregulation koma upp óteljandi tenglar þar sem lýst er þeim ógöngum sem Bretar hafa komið sér í með löggjöf sem er ennþá slakari en sú sem boðuð er í frumvarpinu sem hér er fjallað um. Ástandið er hrikalegt og engin merki sjást um „að jafnvægi náist og neyslan dragist saman eða jafnist út að nýju”, en hins vegar er margt sem bendir til „að varanlegt orsakasamhengi sé milli aukins aðgengis og aukinnar neyslu“. Samkvæmt tenglunum virðist eitt allra helsta úrræðið sem til greina kemur vera það að draga úr aðgenginu. Nú er eðlilegt að spurt sé hvort hinir þrettán kjörnu fulltrúar hafa haft hugmynd um hvernig komið er fyrir Bretum, eða hvort þeir létu það alveg vera að kynna sér hvernig tekið er á hlutunum í grannlöndunum áður en þeir settu saman kenninguna um samdrátt í neyslu án undangengins samdráttar í aðgengi.


VIÐ ERUM ALVEG Í MÍNUS EF EKKI ERU NEINAR HÖMLUR

Þekkingu á eðli áhættunnar sem fylgir neyslu áfengis og annarra nautnalyfja hefur fleygt fram á undanförnum árum, en ekki er víst að almenningur hafi frétt nógu mikið af því. Við þurfum að hafa fyrir því að nálgast raunhæfar upplýsingar. Hins vegar koma ranghugmyndirnar og innrætingin án þess að um sé beðið.

Hér verður nú fjallað lítillega um nokkur mikilvæg atriði sem fram hafa komið á seinni árum. Við skoðum fyrst grein eftir Sharon Begley sem er margverðlaunuð fréttakona, rithöfundur og fyrirlesari á sviði vísinda og heilbrigðismála í Bandaríkjunum. Greinin birtist fyrir rúmum fjórtán árum í Newsweek (12.2.2001, bls. 52). Þar er sagt frá heilaskönnun sem gerð var á eiturlyfjaneytendum með fMRI skanna í bandarískum háskóla. Hún fór þannig fram að mennirnir voru hver af öðrum lagðir á bekk sem rennt var inn í skannann. Þar var komið fyrir litlum spegli og sá sem á bekknum lá hverju sinni fylgdist með 10 mínútna myndskeiði á skjá fyrir utan skannann. Í fyrstu bar ekkert fyrir augu fíkilsins annað en fiðrildi og blóm. Skanninn fylgdist með hvaða svæði heilans voru virkust, og á meðan þessar hugljúfu myndir voru að líða yfir skjáinn gerðist ekkert markvert. Eftir 2 mínútur gerðist það svo allt í einu að skipt var um og farið að sýna menn sem voru að tilreiða krakk (kókaín til reykinga) eftir öllum kúnstarinnar reglum.

Næst sást dópisti greiða fyrir vænan skammt úr hendi skuggalegs náunga, og að lokum horfði fíkillinn á menn sem voru að reykja krakk. Þegar þessar myndir komu upp á skjáinn var eins og kveikt væri á rofa. Sterk löngun blossaði upp hjá manninum, og jafnframt komu fram verulegar breytingar í heilabúi hans. Ákveðin svæði sem tengjast hugarástandi og minni lýstust skyndilega upp og ljómuðu ákaflega á skjá sem tengdur var við skannann. Eftirtektarvert er að þegar þetta var reynt á mönnum sem ekki höfðu ánetjast urðu alls engar svona breytingar.

Sú tækni sem hér er lýst virðist staðfesta ákveðinn hlut sem menn telja sig hafa vitað afar lengi, sem sé það, að eitt smáatriði nægi til að fíkill á batavegi (til dæmis áfengissjúklingur) upptendrist af ómótstæðilegri löngun, gleymi í einu vetfangi fögrum fyrirheitum og detti aftur í það, eins og sagt er. Ekki þarf annað en að hann eigi leið framhjá einum af hinum fjölmörgu vínveitingastöðum í Reykjavík eða sjái álengdar gamlan drykkjubróður. Það kallar fram æsandi minningar og honum er voðinn vís.

Hætt er við að fram kæmu snarpar eldglæringar ef hægt væri að skanna og sjá á skjá umbrotin í kolli gamals alka sem stendur við svignandi áfengishillu í matvörubúð, rétt nýkominn úr enn einni meðferðinni, starandi agndofa á alla dýrðina.

Víkjum aftur að greininni í Newsweek. Í henni kemur fram að fíkniefni valda gríðarlegum breytingum í heilanum, leggja svokallað áhugahvatarkerfi í rúst og raska jafnvel starfsemi gena í honum. Rétt er að skjóta því inn hér að sumir ganga svo langt að kalla það heilaskemmdir þegar hófsemd víkur fyrir fíkn.

Það er sama hvert fíkniefnið er, þau hafa öll breytingar í för með sér. Þegar áhugahvatarkerfið verður fyrir örvun fylgir því vellíðan. Þegar við borðum eitthvað sem okkur þykir gott, vinnum í happdrætti, njótum ásta, hljótum hrós, og yfirleitt þegar lánið leikur við okkur, fara hjólin að snúast hraðar ef svo má að orði komast. Í heilanum er að finna boðefni sem nefnist dópamín. Þetta efni verkar á frumur í heilanum og stuðlar að því að okkur líði vel.

Fíkniefni örva myndun dópamíns. Engin önnur lífsreynsla jafnast á við nautnina sem því fylgir. En fíkillinn er ekki lengi í Paradís, jafnvel enn skemur en Adam forðum daga. Óhófleg neysla veldur langvarandi eða varanlegum breytingum í heilanum, einkum og sér í lagi fækkun svokallaðra móttakara fyrir dópamín. Tilraunir á dýrum benda til þess að því meira sem drukkið er, reykt, sprautað, tekið inn eða í nefið, því örar eyðist þessir móttakarar. Heilinn er þá að reyna að þagga niður í kerfinu af því það er orðið alltof hávært og uppivöðslusamt. Við það að móttakararnir týna tölunni stillist kerfið mikið. En þá bregður svo við að skammtar sem áður veittu unað og sælu duga ekki lengur. Viðbrögðin verða þau að maðurinn herðir sig við neysluna svo sem hann frekast má.

En sjaldan er ein báran stök. Önnur afleiðing þess að dópamín-móttökurum fækkar er sú að maðurinn hættir að hafa ánægju af ýmsu sem honum þótti áður gott. Þar við bætist að hann þolir ekki lengur áreiti sem fram að því hafa verið honum síst til ama; hann verður skapstyggur og önugur. Til að bægja frá margskonar vanlíðan, stöðugum áhyggjum og jafnvel svartasta þunglyndi kann hann aðeins eitt ráð, það sama og við nefndum áðan.

Segja má að maðurinn hafi til að byrja með notað vímuefni til að láta sér líða vel. Þegar fíknin hefur tekið völdin horfa málin öðruvísi við. Þá snýst neyslan um það eitt að komast hjá sárri kvöl og örvæntingu.

Sá vítiseldur sem maðurinn lendir í ef hann fær ekki lengur fíkniefnið er bein afleiðing þess að það hefur mölbrotið hjá honum kerfið. Heilinn er sviptur þeirri einu uppsprettu dópamíns sem tryggt getur bærilega líðan. Ekkert blasir við nema dauði og pína.

Þótt hinar líffræðilegu orsakir fíknar, fíkniefnaþols og fráhvarfseinkenna séu smátt og smátt að koma í ljós, hefur enn ekki tekist að útskýra nógu vel hvers vegna menn missa fótanna eftir margra mánaða eða jafnvel áralangt bindindi. Dýratilraunir benda til þess að dópamín-móttökurum fjölgi aftur um síðir, enda dregur smám saman úr þjáningunum sem fylgja bindindinu. En samt er hættan ekki liðin hjá. Sagt hefur verið að fíkn sé fullkomnasta skólabókardæmi sem til er um sjúkdóm sem tekur sig upp aftur og aftur. Ef til vill skýrist þetta að nokkru af viðbrögðum manns sem lagður er inn í skanna eins og lýst var hér á undan. Minningarnar um neysluna eru svo áleitnar og lífseigar að þær blossa upp af minnsta tilefni og verða manninum hæglega að falli. Allt minnir þetta á hunda Pavlovs sem fóru að slefa þegar bjallan hringdi. Þá vissu þeir að von var á mat. Eins er með fíkilinn. Berist eitthvað til skilningarvitanna sem minnir á horfna sælutíð, þótt ekki sé nema svipmynd, daufur ilmur eða eitt orð, er hann í bráðri hættu.

Þegar menn falla aftur fyrir freistingunni kann það einnig að stafa af genabreytingum í heilanum. Í ljós hefur komið að í heila tilraunadýra sem fá mikið af kókaíni hættir að virka gen sem myndar dópamín-móttakara. Það sem gerist er að fíkniefnið verkar sem DNA rofi, nokkurskonar Á/AF rofi fyrir gen. Ef svona gen í heila manns er óvirkt langtímum saman, er viðbúið að hann hrasi aftur og aftur.

Eftir þennan lestur skiljum við betur ástand mannsins sem stendur við áfengishilluna því við vitum að hann er ekki heill á geði. Áfengisfíkn er þrálátur og illvígur heilasjúkdómur.

Reyndar má bæta við fleiri atriðum sem snerta heilann. Niðurstöður stórrar rannsóknar á geðrænum afdrifum næstum hálfrar milljónar Svía sem hófu herskyldu á áttunda áratug síðustu aldar (birtar 2013) sýna að vitglöp sem hefjast snemma, þ.e. fyrir 65 ára aldur (Young-Onset Dementia, YOD), eru mun líklegri hjá þeim sem eru farnir að neyta áfengis 18 ára en hjá þeim sem láta það vera (dæmi: sex sinnum meiri líkur hjá þeim sem drekka bjór daglega en hjá þeim sem gera það ekki).

Á seinni árum hafa hlaðist upp sterkar vísbendingar um að áfengi sé miklu hættulegra ungmennum en áður var talið. Ef allt er með felldu heldur heilinn áfram að þroskast þar til 21-22 ára aldri er náð. Vínandi stöðvar þroskaferlið eða dregur úr því. Greindarvísitalan kann að verða lægri en efni standa til. Rannsóknir benda ennfremur til þess að unglingadrykkja kunni að eyðileggi einmitt þá möguleika sem taugakerfið hefur til að verjast fíkninni. Menn eru byrjaðir að átta sig á hvað veldur því að þeir sem hefja drykkju á unglingsárum eru í gífurlegri hættu á að verða áfengissjúklingar.
Á netinu er miklar upplýsingar um þessi efni. Til að finna eitthvað af því þarf ekki annað en að gúggla saman, til dæmis, teenagers brain alcohol.

Í þessum síðustu málsgreinum er sagt frá hlutum sem bókstaflega kalla á harða fordæmingu á því háttalagi þrettánmenninganna að mæla með ævintýramennsku í áfengismálum sem er vís til þess að leggja framtíð ungmenna í rúst.

En það er fleira en heilinn sem kiknar undan álaginu. Kunningi minn í læknastétt sem nam sína sérgrein í Danmörku hafði stundum orð á því hve mikill munur væri á íslenskum ölkum og dönskum; þeir dönsku eyðilegðu í sér lifrina en þeir íslensku miklu, miklu síður. Eftirtektarvert er að þetta var fyrir daga bjórfrelsisins hér á landi og áður en drykkjuskapur aldraðra fór að aukast verulega.

Nú lesum við í blöðunum að þeim fjölgi mikið sem fá skorpulifur. Sá sem kominn er á það stig eftir áralanga ofdrykkju er í afar slæmum málum.

Við blasir að ofangreindar upplýsingar styðja ekki þá skoðun að það sé tímaskekkja að spyrna við fótum og vinna gegn því að flæði áfengis aukist frá því sem nú er.

Detti einhverjum í hug að halda því fram að áfengissjúklingar séu ekki svo margir að ástæða sé til að amast við ótakmörkuðu framboði guðaveiga, skal á það bent að hér á landi eru þúsundir og aftur þúsundir drykkjusjúklinga, með heilaskemmdir og margskonar heilsubrest á mismunandi háu stigi, sumir meira að segja með banvænar lifrarskemmdir.

Örlög þessara karla og kvenna koma okkur öllum við því ofdrykkja er ekki aðeins persónulegur vandi og einkamál svo og svo margra ógæfusamra einstaklinga: hún hvílir eins og mara á fjölskyldum þeirra, og jafnframt er hún þrúgandi lýðheilsulegt og samfélagslegt vandamál, geigvænlegt og margslungið, sem engin leið er að taka á ef ekki eru neinar hömlur.


LOKAORÐ

Því verður varla haldið fram að frumvarpið auki hróður höfunda sinna, og það vekur undrun að önnur eins hrákasmíð skuli lögð fram á Alþingi. Texti í þessum gæðaflokki, svona einhæfur, þunnur í roðinu, fullur af rökleysum og fráleitur í alla staði, þætti áreiðanlega hvergi brúklegur þar sem málefnaleg umfjöllun og fagleg framsetning skiptir einhverju máli. Hann færi beint í ruslið. Hinir galvösku þingmenn láta sem áfengisvandinn sé nánast ekki til þótt þúsundir Íslendingar glími við hann daglega, hafa kannski lítið lagt sig eftir að kynna sér hann. Þeir hafa bókstaflega ekkert fram að færa annað en þær einfeldningslegu staðhæfingar að stjórnvöld níðist á þjóðinni með áfengistakmörkunum, og að ástandið verði aldrei gott fyrr en sala áfengis verður tekin af ÁTVR og henni komið í hendur fjáraflamanna. Með þessu forkastanlega frumvarpi er ætlunin að stíga skrefið til fulls og tryggja að allar tegundir áfengra drykkja megi vera á boðstólum svo að segja allsstaðar þar sem einhver viðskipti fara fram. „Það er oft talað um að það sé verið að gera þetta til að setja þetta í matvöruverslanir, en svo er ekki. Þetta má vera í sérvöruverslunum og má vera til dæmis í ostabúðum eða þess vegna blómabúðum, þannig að þetta er ekkert bundið við matvöruverslanirnar“, sagði aðalforsprakkinn í morgunviðtali í RÚV 10. mars.

Mergurinn málsins er sá að frumvarpinu var klambrað saman í þjónkunarskyni við fjármagnseigendur, án minnsta tillits til velferðar fólksins í landinu. Það er hugsað sem drjúgur áfangi í einkavæðingarferlinu.Höfundur er löggiltur skjalaþýðandi.