Netgreinar

Jóhann Örn Sigurjónsson

Um molnað menntakerfi

Ég hef brennandi áhuga á að kenna stærðfræði. Þó starfa ég ekki sem kennari þrátt fyrir að hafa varið 5 árum af ævi minni í að hljóta leyfisbréf í þeirri stétt. Ég hef einfaldlega ekki efni á því.
Í góða veðrinu í vikunni átti ég leið um Víðistaðatún í Hafnarfirði. Þar tók ég myndina sem fylgir þessari grein sem sýnir Víðistaðaskóla hægra megin og Víðistaðakirkju vinstra megin. Að bera saman útlitið á þessum tveimur ágætu stofnunum gerði mig hugsi. Það var eitthvað svo svakalega lýsandi við þessa sýn. Kirkjan vel til höfð en veggir skólans lúnir og graffaðir. Körfuboltakarfan netalaus.

Það uppskar mikil hughrif að skynja þennan samanburð akkurat á þessum tímapunkti í lífi mínu. Ég er ungur nýútskrifaður stærðfræðikennari sem er sannarlega sjaldgæf tegund. Í þokkabót er ég karlkyns grunnskólakennari - geirfugl, eins og Ragnar Þór kennari hefur kallað okkur.

Ég hef brennandi áhuga á að kenna stærðfræði. Þó starfa ég ekki sem kennari þrátt fyrir að hafa varið 5 árum af ævi minni í að hljóta leyfisbréf í þeirri stétt. Ég hef einfaldlega ekki efni á því.

Ég er ekki einn um þá skoðun. Menntakerfið þarf 5000 starfandi kennara til að það virki en 10.000 eru með leyfisbréf. Í dag er alvarlegur kennaraskortur í grunnskólunum þrátt fyrir þetta. Með hækkandi meðalaldri stéttarinnar og lítilli aðsókn í kennaranám (30% aukning af litlu er samt lítið) verður vandinn að snjóbolta sem mun einn daginn verða risavaxinn. Kerfið er ekki sjálfbært.

Byrjunarlaun grunnskólakennara eru u.þ.b. 450.000 kr. á mánuði. Það er um 280.000 kr. eftir skatt. Ef ég ætlaði að búa á höfuðborgarsvæðinu þá myndi ég borga a.m.k. 50% af laununum mínum í þak yfir höfuðið.

Grunnskólakennara vantar um 100-200 þúsund krónur á mánuði til að ná meðallaunum í landinu. Ef launin yrðu hækkuð um 150 þúsund krónur að jafnaði til að ná því myndi það kosta u.þ.b. 10 milljarða á ári, gróflega reiknað. Er einhver sem þorir að lofa því til að passa að börn fædd eftir 2010 verði læsir og skrifandi þjóðfélagsþegnar?

Í haust verður að öllum líkindum kennaraverkfall eina ferðina enn eftir vopnahlé síðasta hausts. Þessi stanslausa barátta fyrir sanngjörnum kjörum er einn af þeim þáttum sem gerði mig afhuga störfum í stéttinni þrátt fyrir mikinn áhuga. Ég ákvað að byrja í námi í hugbúnaðarverkfræði sem ég fékk smám saman áhuga á eftir að ég hætti sem kennari. Fyrstu tveir dagarnir í náminu hafa verið algjörlega frábærir. Svo þarf ekki mastersgráðu í stærðfræðimenntun til þess að reikna út að þrátt fyrir að hafa verið í 5 ár í háskóla að fá kennsluréttindi þá borgar það sig samt fyrir mig að vera 2-3 ár í viðbót ef ég fæ allt að tvöfalt hærri laun í staðinn.

Mér finnst ekki til of mikils mælst að kennarar verði hækkaðir í meðallaun. Þá gæti ég meira að segja mögulega hugsað mér að starfa við draumastarfið, svona eftir að ég hef unnið í almennilega launuðu starfi í nokkur ár fyrst til að koma undir mig fótunum í lífinu.

Það þarf að gera menntakerfið aðlaðandi starfsvettvang með sanngjörn laun miðað við menntun og ábyrgð. Það kostar peninga og það þarf pólitískt hugrekki til að láta það gerast. Það sést meira að segja utan á sumum skólum hve hrunið menntakerfið er orðið. En það er ekki körfuboltanet, málning eða steypa sem skipta öllu máli. Mestu skiptir hvað er inn í skólunum. Ef fram fer sem horfir stefnir í að þar verði að minnsta kosti ekki menntaðir kennarar fyrir nærri því alla nemendur í náinni framtíð.

Höfundur er 26 ára fyrrverandi kennari