Netgreinar

Bergur Hauksson

Þarf að fullreyna aldraða?

Yfirvöld virðast telja að fullreyna eigi öll úrræði áður en öldruðum er veitt heimild til að sækja um vistun á hjúkrunarheimili. Þetta er ekki í samræmi við vilja löggjafans.

Í dag (8/9/2017) birtist frétt í Morgunblaðinu um 99 ára gamla konu sem sótti um varanlegt pláss á hjúkrunarheimili í Reykjavík. Konan fékk höfnun á þeirri forsendum að önnur úrræði væru ekki fullreynd. Í fréttinni kemur fram að umrædd kona hafði ekki verið baggi á borg eða ríki þrátt fyrir háan aldur. Dóttir og dótturdóttir hennar höfðu aðstoðað hana en nú var svo komið að heilsu konunnar hafði hrakað svo að þær gátu ekki annast hana lengur heima.  

Undirritaður ásamt systkinum sínum sótti um fyrir föður okkar árið 2014 það sem nefnist færni og heilsumat. Til að komast inn á hjúkrunarheimili verður færni- og heilsumatsnefnd að úrskurða um hvort umsækjandi eigi rétt á að sækja um á hjúkrunarheimili eða ekki.

Umsagnir fagfólks, þriggja lækna, hjúkrunarfræðings og matsfulltrúa. sem höfðu hitt föður okkar voru öll á einn veg, þ.e. að faðir okkar væri ekki hæfur til að búa í eigin íbúð og öll úrræði þar að lútandi hafi verið fullreynd. Færni- og heilsumatsnefndin sem hafði aldrei hitt föður okkar, en og framangreindir sérfræðingar höfðu allir hitt hann og þess vegna séð hvernig ástand hans var, komst að þeirri niðurstöðu að úrræði sem bjóðast af hálfu heimahjúkrunar og eða félagslegrar heimaþjónustu til stuðnings áframhaldandi búsetu á eigin heimili voru ekki fullreynd.

Undirritaður skrifaði nefndinni í framhaldi af niðurstöðu hennar bréf sem er of langt til að hægt sé að fara yfir það allt hér. Bréfið var beiðni um að nefndin endurskoðaði ákvörðun sína vegna þess að undirritaður taldi ekki lagagrundvöll fyrir henni. Beiðnin var í stuttu máli byggð á því að niðurstaða nefndarinnar væri ekki í samræmi við vilja löggjafans, samanber lög nr. 125/1999 um málefni aldraða ásamt síðari breytingum, þ.e. að ekki ætti að fullreyna aldraða.

Framangreindum lögum um aldraða var breytt 2012. Texti upphaflegs frumvarps sem fram var lagt til breytinga á lögum um málefni aldraða hljóðaði svona: “Áður en kemur að vistun einstaklings í hjúkrunar- eða dvalarrými, samkvæmt umsókn hans, skulu öll önnur úrræði sem miða að því að fólk geti búið í heimahúsi vera fullreynd.” Velferðarnefnd Alþingis breytti þessum texta að einu mikilvægu leyti. Úrræði eiga ekki að vera fullreynd eins og ákvæðið hljóðaði um í upphafi heldur skulu raunhæf úrræði vera fullreynd. Á þessu tvennu er mikill munur. Í nefndaráliti segir eftirfarandi: "Samkvæmt 1. gr. frumvarpsins þurfa öll önnur úrræði til að fólk geti búið í heimahúsi að vera fullreynd áður en kemur að dvöl í hjúkrunar- eða dvalarrými. Nefndinni var bent á mikilvægi þess að í lagatextanum yrði sérstaklega tilgreint að raunhæf úrræði væru fullreynd. Nefndinni voru kynnt dæmi þess að gerðar hafi verið kröfur um að til þess að þetta skilyrði teldist uppfyllt þyrfti einstaklingur að hafa fullreynt úrræði sem frá upphafi var augljóst að hentaði ekki þörfum hans. Nefndin telur ljóst að það sé ekki tilgangur ákvæðisins að beina öldruðum eða öðrum sem þörf hafa fyrir dvalar- eða hjúkrunarrými í úrræði sem ekki hentar viðkomandi. Slíkt hefur í för með sér ríkt óhagræði fyrir einstaklinginn, tefur það að hann fái þá þjónustu sem hann hefur þörf fyrir og leiðir að auki til þess að fjármunum heilbrigðiskerfisins er ráðstafað á óhagkvæman hátt. Nefndin leggur því til breytingu á frumvarpinu á þann veg að raunhæf úrræði séu fullreynd til að tryggja réttan skilning og framkvæmd ákvæðisins.".

Nefndin taldi sem sagt að aldraðir ættu ekki að vera tilraunadýr þar sem mætti prófa hitt og þetta á þeim áður en þeim væri heimilað að dvelja á hjúkrunarheimilum.

Niðurstaðan er sem sagt að það þarf ekki að og má í raun og veru lögum samkvæmt ekki fullreyna aldraða. Þess vegna er það ekki í samræmi við lög um málefni aldraðra að það þurfi að fullreyna öll úrræði vegna framangreindar konu. Færni- og heilsumatsnefndin féllst á sjónarmið undirritaðs og endurskoðaði ákvörðun um föður minn og veitti honum heimild til að sækja um vist á hjúkrunarheimili.

Höfundur er lögmaður