Netgreinar

Rafn Benediktsson

Alþjóðlegur dagur sykursýki er 14. nóvember

Erfðaþættir skipta miklu máli þegar kemur að orsökum sykursýki en umhverfisþættir eins og lífsstíll eru öflugustu þættirnir sem geta haft áhrif á sýnd sjúkdómsins
Rafn Benediktsson
Alþjóðleg samtök sem hafa helgað sig baráttunni gegn sykursýki hafa um árabil notað þennan dag til sérstakrar vitundarvakningar um sykursýki. Í ár er dagurinn sérstaklega helgaður konum með sykursýki.
Sykursýki er vá sem steðjar að jarðarbúum með vaxandi þunga. Fylgikvillar sjúkdómsins eru meðal annars blinda, nýrnabilun og aflimanir en helstu dánarorsakir eru hjartaáföll, slag og aðrir æðasjúkdómar. Nú er svo komið að sykursýki er í sjötta sæti yfir dánarorsakir í heiminum. Sem stendur er áætlað að 422 milljónir manna hafi sykursýki í heiminum en að þessi tala verði orðin 642 milljónir árið 2040. Um helmingur þeirra eru konur og tvær af hverjum fimm konum með sykursýki eru á besta aldri. Konur verða sérstaklega illa úti þegar kemur að hjartafylgikvillum en hlutfallsleg áhættuaukning hvað hjartasjúkdóma varðar er tíföld hjá konum sem greinast með sykursýki. Sykursýki sem kemur fram á meðgöngu er sérstakt afbrigði af sykursýki, sem eykur líkur á sykursýki af tegund 2 síðar á lífsleiðinni. Þessi tegund sykursýki er sérstaklega hættuleg fóstrum og nýburum og er veruleg byrði fyrir þungaðar konur sem og þjóðfélagið. Algengi meðgöngusykursýki á Íslandi hefur aukist gríðarlega á síðari árum. Íslenskar tölur benda til þess að algengi þessa sjúkdóms á Landspítalanum hafi tvöfaldast á átta ára tímabili til ársins 2010.   
Erfðaþættir skipta miklu máli þegar kemur að orsökum sykursýki en umhverfisþættir eins og lífsstíll eru öflugustu þættirnir sem geta haft áhrif á sýnd sjúkdómsins – þ.e. hvort hann kemur upp á yfirborðið eða ekki. Það má meðal annars með viðeigandi lífsstílsaðgerðum koma í veg fyrir allt að 70% tilfella hjá fólki sem er í áhættuhópum. Offitufaraldurinn er þannig stærsti einstaki áhrifavaldurinn sem drífur aukningu tilfella í heiminum. Íslendingar eru mögulega feitasta þjóð í Evrópu og nú erum við að sigla upp fyrir margar Evrópuþjóðir í algengi sykursýki ef marka má nýlegar tölur úr úrtaksrannsókn Hjartverndar. Algengið er að nálgast 15% hjá körlum á besta aldri. Enn eru íslensku konurnar sem betur fer ekki komnar á þennan stað þó þar sé einnig veruleg aukning.
Alþjóðlegu góðgerðarsamtökin Lions eru ein þeirra samtaka sem hafa áttað sig á stærð vandamálsins og því hve mikilvægt er að bregðast við. Lions eru auðvitað þekkt fyrir að leggja lið, sérstaklega í þágu sjónskertra en samtökin eru gríðarstór og öflug á heimsvísu, með um 1,4 milljónir félaga. Þessi samtök eru nú að hefja annað árhundrað þjónustu sinnar og hafa af því tilefni skilgreint fimm svið sem þau hyggjast starfa á. Eitt þeirra er sykursýki og sem stendur er í smíðum metnaðarfull áætlun sem snýst um vitundarvakningu, fræðslu, aðstoð við eflingu innviða en einnig að tryggja aðgang að úrræðum eins og lyfjum og þjónustu. Við hér á landi þekkjum vel hið óeigingjarna starf Lionsfólks undanfarna áratugi, sem meðal annars á þessum degi hefur snúist um vitundarvakningu, gjarnan í samstarfi við Samtök sykursjúkra.
Ég hvet ykkur til að líta við hjá Lions og öðrum þeim sem eru úti meðal almennings þessa dagana í þeim tilgangi að vekja fólk til vitundar um þennan vágest. Og við getum öll reyndar hjálpast að við að gera sykursýki sýnilegri og það er með að taka og deila sjálfu með Bláa-hrings appinu sem Alþjóða sykursýkissamtökin hafa látið búa til. Appið (World Diabetes Day) má finna fyrir bæði android- og apple-tæki en blái hringurinn er jú tákn sykursýki. Svo er bara að muna eftir að brosa hringinn!

Höfundur er yfirlæknir innkirtlalækninga á Landspítala og prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands