Netgreinar

Jósep Ó. Blöndal

Guðjón Brjánsson og „baksýnisspegillinn“ - ásökunum um rógburð svarað

Svar við umsögnum Guðjóns Brjánssonar í Mbl. 10/1 um skrif, sem ég birti á Facebook – síðu minni þ. 4. janúar sl. ... Skýrt um hvað deilan snýst.
Guðjón Brjánsson og „baksýnisspegillinn“ - ásökunum um rógburð svarað
Í Morgunblaðinu þ.10. janúar sl. eru birtar ýmsar umsagnir háttvirts alþingismanns og fv. forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Guðjóns Brjánssonar (GB), við skrifum, sem ég birti á Facebook–síðu minni þ. 4. janúar sl.
Nokkrar tilvitnanir: „ Þarna er víða hallað réttu máli og farið á svig við sannleikann“. „Jósep velur að rógbera samstarfsfólk sitt...“. „“Hann má níðast á mér sem hann vill“, ... “veit ekki af hverju hann beinir spjótum sínum að mér...“, „leyfi mér að halda því fram að háls- og bakdeildin væri ekki starfandi í dag í þeirri mynd sem hún er...“, „Hann kann ekki að eiga samstarf við annað fólk“ , „Samstarf... Það tókst okkur aldrei með þessum einstaklingi. Hann hefði getað valið að bera klæði á vopnin og ná sáttum...“, „Hann er ekki við alþýðuskap“. Og: „Hann hefði getað gert þetta með meiri sóma“...
Satt að segja hafði ég ekki hugsað mér að halda áfram skrifum um stjórn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, en við lestur eftirfarandi setningar fann ég mig knúinn til þess: „Jósep velur að rógbera samstarfsfólk sitt með þessum hætti, fólk, sem ég þekki að góðu einu“. Þetta er alvarleg ásökun, enda getur rógburður varðað við lög. Því legg ég enn einu sinni á þá Sysifosarbrekku, sem allar tilraunir til að ná sáttum við GB og stjórn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands (HVE) hafa verið allt frá því við - starfsfólk St. Franciskusspítala(SFS) - áttuðum okkur á að öll loforð og allar yfirlýsingar í tengslum við sameiningu stofnana í HVE voru markleysa ein og stóð aldrei til að standa við neitt þeirra. Bréfaskriftir, tölvupóstar, fundir og tilraunir til að ná samkomulagi við GB og stjórnina reyndust árangurslaus og var jafnan mætt með þögn, hroka, auðmýkjandi ráðstöfunum og svo standardsvari GB um „ekki að horfa í baksýnisspegilinn“. Greinum í svæðisblaðinu Skessuhorni ( sjá Skessuhorn 12. júlí, 19. júlí, 26. júlí, 23. ágúst og 30. ágúst) var í engu svarað.
„ Þarna er víða hallað réttu máli og farið á svig við sannleikann“ . Ætti ekki virðulegur alþingismaður að leggja metnað sinn í málefnalega umfjöllun í stað sleggjudóma um mina persónu?
Eins og fram kemur hér að neðan hefur starfsfólk St. Franciskusspítala (SFS) gagnrýnt vinnubrögð og neikvætt viðhorf stjórnar HVE allt frá því ljóst var að ekki stóð til af hálfu stjórnarinnar að standa við nein af þeim fyrirheitum, sem gefin voru í kjölfar sameiningar þ. 1. janúar, 2010.
„Jósep velur að rógbera samstarfsfólk sitt...“. Ekkert - endurtek EKKERT - af því fólki, sem setið hefur í stjórn HVE get ég með nokkru móti kallað „samstarfsfólk“ af þeirri einföldu ástæðu að aldrei var um neitt „samstarf“að ræða af hálfu stjórnarinnar - það stóð aldrei til. Hver einasta ákvörðun, sem tekin var í 7 ½ ár varðandi starfsemi SFS var tekin einhliða - án samstarfs, án samráðs - reyndar án samtals. Í því sambandi má geta þess, að Þórir Bergmundsson, „framkvæmdastjóri lækninga og rekstrar“ talaði aldrei við mig - „yfirlækni sjúkrasviðs Heilbrigðisstofnunar Vesturlands í Stykkishólmi“ um starfsemi SFS í 7 ½ ár! Hafði hann þó sjálfur skrifað undir skipunarbréf mitt. Að tala um „samstarfsfólk“ er því hreinasta öfugmæli.
GB er fullkunnugt um að allt starfsfólk og allir stjórnendur SFS gengu til sameiningarinnar með opnum huga og bjartsýni, tóku þátt í öllum undirbúningi af kostgæfni og vandvirkni, og lýstu sig reiðubúin að taka þátt m.a. í sparnaðarráðstöfunum í kjölfar hrunsins 2008. Að halda því fram - eins og GB virðist gera í ummælum sínum - að stjórnhættir hans og stjórnarinnar hafi haft eitthvað með hrun og sparnaðarráðstafanir að gera er hugarburður og máttvana afsökun. Við vorum frá upphafi meðvituð um að herða þyrfti ólina, og lýstum okkur reiðubúin að taka þátt í því. Að það yrði síðan notað sem afsökun til að draga tennurnar úr stoltri stofnun án nokkurs samráðs var hins vegar nokkuð, sem við sættum okkur ekki við og mótmæltum ítrekað. Svarið var jafnan að ekki ætti að horfa í baksýnisspegilinn eða ámóta flóttaskýringar.
St. Franciskusspítalinn (SFS) í Stykkishólmi hefur starfað síðan um miðjan fjórða áratug síðustu aldar. Sérfræðingur hefur verið starfandi við spítalann síðan uppúr 1950 og síðustu áratugina tveir heilsugæzlulæknar, sem jafnframt hafa gegnt hlutastarfi við spítalann sem deildarlæknar. Sjálfur var ég ráðinn að SFS 1990 sem almennur skurðlæknir og sjúkrahúslæknir. Spítalinn hefur rekið umfangsmikla starfsemi sem almennt sjúkrahús gegnum árin - ýmiss konar skurðaðgerðir, svæfingar, deyfingar, lyflækningar, magaspeglanir, blöðruspeglanir, endaþarmsspeglanir, fæðingar, meðferð kvensjúkdóma, greiningu og meðferð bráðatilfella, auk hjúkrunar- og langlegutilfella. Þjónustusvæðið hefur verið, skv. ráðuneyti, Snæfellsnes og Dalir. Árið 1992 var stofnuð Háls- og bakdeild, sem varð fljótlega þekkt og virt vegna öflugrar þverfaglegrar teymisvinnu, en deildin er hin fyrsta sinnar tegundar í Evrópu. Fljótlega tók sú deild að þjóna öllu landinu - er reyndar eina stofnunin innan HVE,sem það gerir - og gerir enn, en tilvísanir berast frá heilsugæzlulæknum og sérfræðingum á stofnunum um allt land. Við brotthvarf mitt frá stofnuninni í júní sl. var samanlagður biðlisti til mats og til innlagnar um 700 manns.
Það var því eðlilegt, að starfsfólki SFS væri umhugað um áframhaldandi starfsemi spítalans innan nýrrar stofnunar, og var borin fram fyrirspurn til stjórnar um verkaskiptingu og læknisfræðilega starfsemi sjúkrahúsa stofnunarinnar almennt. Spurt var, hvort nefnd um starfsemi sjúkrahúsanna, sem starfaði í aðdraganda sameiningar, ætti ekki að halda áfram störfum í kjölfar hennar. Í tölvupósti kom þetta svar frá GB: „Heill og sæll Jósef og þakka þér fyrir skeytið. Nei, það er aldeilis ekki búið að slá nefndina af, þetta er merk nefnd með þungavigtarfólki innanborðs! Við ákváðum að leggja ekki sérstaka pressu á þetta núna í samrunafasanum, við teljum að þetta sé viðfangsefni sem þurfi að fá ítarlega umfjöllun þegar við höfum fengið fulla yfirsýn yfir nýja stofnun. Ég hef rætt þetta við Björn (Gunnarsson, svæfingalækni SHA; innskot mitt) núna í dag og sömuleiðis Þóri (Bergmundsson, háls- nef- og eyrnalækni, framkvæmdastjóra lækninga og rekstrar; innskot mitt) og hann mun einnig setja sig í samband við þig. Þetta eru mikilvæg mál sem við þurfum að setjast yfir og móta okkur sýn til einhverrar framtíðar og ég held að það sé betra að gefa sér góðan tíma og umfjöllun til þess, það gerist ekkert á augabragði í þessum efnum en umræðan verður þó að eiga sér stað“.

Þessi umræða átti sér aldrei stað, og - svo ótrúlega, sem það kann að hljóma - Þórir Bergmundsson, „framkvæmdastjóri lækninga og rekstrar“, yrti sem fyrr segir aldrei á mig í 7 ½ ár og talaði jafnan á fundum eins og enginn sérfræðingur væri til staðar á SFS, hvað þá að þar væru unnin einhver almennileg læknisverk. Þvert á móti birtust þeir félagarnir á SFS þ.4. nóvember, 2010, héldu fund með starfsfólki spítalans og gáfu þar munnlega tilskipun um að hætt skyldi innlögnum á SFS nema hjúkrunarsjúklinga - allt annað skyldi sent á Sjúkrahús Akraness (SHA) „til að styrkja stöðu þess sem bráðasjúkrahúss“, þannig að það gæti verið “varasjúkrahús fyrir Reykjavík”. Um leið voru teknar af vaktir á rannsóknarstofu og lögð af röntgenþjónusta, sem tveir sjúkraliðar höfðu séð um. Þá breytti Þórir sérfræðiheiti mínu í rafrænu upplýsingakerfi stofnunarinnar, þannig að nú hét ég „Sérfræðingur í orthopaediskri medicin“ (stoðkerfisfræði) í stað „Sérfræðingur í almennum skurðlækningum“! Fyrrnefnda sérgreinin er ekki til hér á landi, og seint myndi ég telja mig „sérfræðing“ í henni. Væntanlega var Þórir hér að undirstrika, að eiginlega væri enginn almennilegur sérfræðingur á SFS!

Bréf, undirritað af fagfólki SFS og stutt af skriflegum umsögnum allra heilsugæzlulækna á Snæfellsnesi og í Búðardal, var sent stjórninni, og var þessum fyrirmælum mótmælt ákveðið. Svar barst seint og síðar meir - eftir nokkra mánuði - frá GB. Þar var aðeins talað um “faglegt mat”, en enginn rökstuðningur. Þetta er í raun kjarni þeirrar deilu, sem starfsfólk SFS með mig sem talsmann átti í við stjórn HVE , allt frá því ljóst var, að fagrar yfirlýsingar GB í upphafi sameiningar um “samráð”,”samræður”, “skoðanaskipti”, gagnkvæma virðingu” reyndust hjóm eitt og fals. Einnig hafði GB tekið skýrt fram á fundi með starfsfólki SFS vorið 2010 “…….það er ekki meiningin að sópa öllu niður á Akranes”. Það kom þó ekki í veg fyrir að hann réði 13 aðra stjórnendur - alla á Akranesi! - reyndar einnig tvo áheyrnarfulltrúa í stjórn HVE - báða staðsetta í Borgarnesi , þar sem aðeins er rekin heilsugæzla! Allar voru þessar ráðningar án auglýsinga. Seint og síðarmeir tókst okkur á SFS að fá áheyrnarfulltrúa á fundum stjórnar, en SFS er stærsta stofnunin utan Akraness. Sjálfur þurfti GB ekki að hafa fyrir því að sækja um sitt starf, því það var heldur aldrei auglýst - gagnstætt því, sem gert var við stofnun annarra sameinaðra heilbrigðisstofnana. Haldnir voru fundir síðar, bæði með stafsfólki SFS og mér einum - að okkar frumkvæði - til að „bera klæði á vopnin“, en einstefnu stjórnar varð ekki breytt og allt tal um samráð, samvinnu, að maður nefni ekki virðingu, reyndist orðin tóm.
Vorið 2011 var af ráðuneytinu settur á fót samstarfshópur um “Endurskoðun starfsemi HVE í Stykkishólmi”, og áttu þar sæti m.a. tveir stjórnarmenn HVE, Þórir Bergmundsson og Steinunn Sigurðardóttir. Í niðurstöðum hópsins er m.a. lagt til að “að efla almenna sjúkrahúsþjónustu í Stykkishólmi með því að beina þangað innlögnum af þessu tagi af öllu Snæfellsnesi... Upptökusvæði yrði þá með um 4.000 íbúa sem þyrftu samkvæmt landsviðmiði sex almenn sjúkrarými. Það gæfi tilefni til að ráða lækni, væntanlega almennan lyflækni eða reyndan heimilislækni í 60% starf við sjúkradeild og 40% gætu komið á móti heimilislækninum sem í fullu starfi annast heilsugæslu.” Í sömu skýrslu: „ Rekstrargrundvöllur háls- og bakdeildar SFS verði endurskoðaður með eflingu starfseminnar að markmiði. Starfsemi deildarinnar verði að hluta til fjármögnuð með sérstökum lið á fjárlögum þar sem starfsemi hennar nær yfir allt landið og er ekki fyrir hendi á öðrum stofnunum.“
Undir þetta skrifuðu þau bæði, Steinunn og Þórir, en stjórnin sýndi enga tilburði, hvorki fyrr né síðar, til að einu sinni ræða þessa möguleika, hvað þá að fylgja þeim eftir.
Í bréfi til Framkvæmdasýslu ríkisins þ. 11. marz, 2013 skrifar GB eftirfarandi:
1. Að loknum breytingum sem fyrir dyrum standa í húsnæðinu að Austurgötu 7 (SFS. Innskot mitt) verður starfrækt hjúkrunarheimili á tveimur hæðum sem ætlað er fyrir 15 heimilismenn.
2. Dvalar- og hjúkrunarheimili að Skólastíg 14a verði lokað frá sama tíma.
3. Sjúkradeild verður samhliða lögð af.
Þar höfum við það, svart á hvítu, hver ætlunin var allt frá upphafi!
Það yrði allt of langt mál að rekja frekar samskipti starfsfólks SFS við stjórn HVE - það er liggur við efni í heila bók og líklega einnig í kæru vegna eineltis.
Ég ætla hins vegar að víkja að nokkrum ummælum GB um mína persónu:
…”að aldrei hafi gengið að eiga samstarf við Jósep“. “Hann kann ekki að eiga samstarf við annað fólk”.
„Hann er ekki við alþýðuskap“. „Samstarf... Það tókst okkur aldrei með þessum einstaklingi. Hann hefði getað valið að bera klæði á vopnin og ná sáttum...“. 
Ég byrjaði að vinna 9 ára gamall í síldinni á Siglufirði og vann upp í gegnum alla mína skólagöngu ýmis störf, aðallega verkamannavinnu. Frá því ég lauk námi í læknisfræði, hef ég starfað í fjórum löndum sem skurðlæknir, svæfingalæknir, heilsugæzlulæknir, yfirlæknir á áfengisklínik, sérfræðingur og deildarlæknir á tveimur sænskum sjúkrahúsum, sjúkrahúsyfirlæknir og heilsugæzlulæknir á Patreksfirði í 6 ár, sjúkrahúslæknir í 27 ár á SFS, verið í fagteymi Háls- og bakdeildar - sem vann brautryðjendastarf hér á landi í greiningu og meðferð háls- og bakverkja - í 25 ár, starfað í fjölmörgum fagfélögum, innlendum og erlendum, og verið í stjórn og nefndum sumra þeirra, kennt á námskeiðum og í Háskóla Íslands, og alltaf staðið í þeirri meiningu að ég ætti auðvelt með að starfa með öðru fólki, væri bara sæmilega þægilegur í umgengni og þokkalegur faglegur stjórnandi og kennari. Það hefur ýtt undir þá trú mína, að það fólk, sem ég hef átt samstarf við, hefur látið vel af samvinnu við mig, og mínir skjólstæðingar hafa iðulega þakkað mér lipurð í samskiptum. En það þarf auðvitað stjórnvitring og mannvin af kaliber Guðjóns Brjánssonar til að leiða mér fyrir sjónir, að þetta er auðvitað mikill misskilningur af minni hálfu og annarra. Og sú staðreynd að ég er “ekki við alþýðuskap” , skýrir auðvitað erfiðleikana í “samstarfi” við þá Guðjón og Þóri, því þeir eru alþýðan holdi klædd.
Nokkrir punktar úr afrekaskrá stjórnar HVE:
1) Sagt var upp reyndasta verkjahjúkrunarfræðingi landsins strax í upphafi - á stofnun, sem hefur rekið verkjadeild, sem þjónar öllu landinu, síðan 1992.
2) Staða sérfræðings hefur verið aflögð.
3) Aðeins einn heilsugæzlulæknir er og verður starfandi, og sem stendur er sú starfsemi rekin af verktökum, sem hafa starfað viku og viku í senn undanfarin ár.
4) Starfsemi mjög vel útbúinnar rannsóknarstofu verður endanlega hætt og starf lífeindafræðings lagt af.
5) Verulega hefur dregið úr hlutverki SFS í heilbrigðisþjónustu og stofnunin stefnir í að verða hjúkrunardeild með lágmarks læknisfræðilegri starfsemi, rekin af heilsugæzlulækni í hjáverkum.
6) Röntgenþjónusta er í lausu lofti.
7) Dregið hefur úr allri stoðþjónustu og stöðugildum fækkað eða þau rýrð.
8) Allar ákvarðanir varðandi starfsemi SFS hafa verið teknar einhliða, án samráðs”, ”samvinnu”, ”samræðna”, ”gagnkvæmrar virðingar” - sem lofað var í upphafi. Öllum athugasemdum og gagnrýni hefur verið mætt með ráðinu að  “horfa ekki í baksýnisspegilinn”, með hroka eða þögn. Það hefur ekkert breytzt gegnum árin.
9) Þá hefur verið ráðinn “yfirlæknir Háls- og bakdeildar” - í hlutastarfi. Ég lét Þóri ítrekað vita af því, að ég væri ofhlaðinn verkefnum, ekki hvað sízt í ljósi þess, að framundan væri vísindaleg rannsókn á árangri deildarinnar, - sú fjórða - samstarf við Evrópusambandið (Chrodis og ICARE4EU), rannsóknarsamvinna við Íslenska erfðagreiningu, samvinna við Fairview Health Center í Minneapolis, auk fjölda annarra verkefna, tengdum greiningu, meðferð og fræðslu, en allt þetta hefði lyft standard deildarinnar enn hærra. Þórir svaraði með því að semja við þá verktaka sem séð hafa um Heilsugæslu Stykkishólms, að þeir þyrftu ekki að koma nálægt starfsemi Háls- og bakdeildar! Útilokað er að yfirlæknir í hlutastarfi ráði við þau verkefni, sem bíða deildarinnar.
10) Ég bauð stjórninni að starfa áfram við SFS þar til fundinn væri eftirmaður sem réði við öll þau verkefni sem hvíla og munu hvíla á “yfirlækni sjúkrasviðs”. Mér var þá gert tilboð, sem stjórnin mátti vita, að ég gæti ekki gengið að. Árið 2011 var vaktafyrirkomulagi mínu breytt með einu pennastriki - án samráðs og án þess að úttekt væri gerð á þörf fyrir mínar vaktir og annarra sérfræðinga innan HVE - og m.a. lækkuðu við það laun mín um 27%. Sá samningur, sem mér var nú boðinn, hefði lækkað það, sem eftir var um 1/3, og því neitaði ég - það er kappnóg að vera auðmýktur einu sinni. Enginn vilji var til samninga af hálfu stjórnar.
Meðalmennskunni verður flest að vopni.
Hér er aðeins fátt eitt upptalið.
GB klykkir út með: „ Honum er þó margt til lista lagt. Sem dæmi er hann afbragðsgóður píanóleikari...”!!!! Ef dómbærni Guðjóns Brjánssonar á þessu sviði er á svipuðu gæðastigi og dómbærni hans á eigið ágæti, afþakka ég hrósið. “Hefði getað gert þetta með meiri sóma”. Ég held að orðið „sómi“ eigi Guðjón og aðrir í stjórn HVE að umgangast af mikilli varkárni.
Að endingu skora ég á Guðjón Brjánsson og stjórn Heilbrigðisstofnunar Vesturlands að lögsækja mig fyrir „rógburðinn“. Það gæti þá orðið til þess að farið yrði væri ofan í dæmalaus vinnubrögð stjórnarinnar í garð SFS og starfsfólks þeirrar góðu stofnunar.
Stykkishólmi, 19. febrúar 2018.

Höfundur er læknir.