Netgreinar

Hildur Helgadóttir

Mér finnst ég höfð að fífli!

Ég er ljósmóðir. Fyrir tæpum níu árum fór ég í ferðlag. Ég ákvað að eltast við æskudrauminn og verða ljósmóðir. Ég byrjaði í hjúkrun við HÍ og útskrifaðist þaðan fjórum árum seinna með BSc próf. Beint í framhaldinu fór ég í ljósmóðurfræði og lauk cand.obst. gráðu. Sex ára ótrúlega skemmtilegt og krefjandi nám, blóð, sviti, tár og gleði.
Eins og meðganga og fæðing getur verið dásamlegur tími og margar gleðistundir, þá getur þetta líka verið erfiður tími ólýsanlegrar sorgar. Ljósmóðir er viðstödd og gerir sitt besta til að styðja við fjölskylduna á þessum tímamótum. Draumurinn minn var að sinna mæðrum í mæðravernd og starfa í Heilsugæslu. Sú vinna er dagvinna. Síðastliðið haust var ég svo lánsöm að bjóðast staða við mæðravernd í Heilsugæslunni. Um var að ræða 50% stöðu, enda ekki meira starfshlutfall í boði.
Ég elska starfið mitt í mæðravernd, það er ótrúlega skemmtilegt. Ég er í þeirri forréttindastöðu að starfa sjálfstætt, vera aðal meðferðaraðili verðandi mæðra og fylgja þeim eftir alla meðgönguna. Ég heyri fyrst í verðandi mæðrum fljótlega eftir að þær hafa pissað á prikið og veiti þeim fræðslu og ráðgjöf fyrir fyrstu vikurnar, þar til þær koma í fyrsta viðtalið við 10.-12.viku. Starfið felur í sér mikil samskipti, fræðslu og greiningar. Ég tek viðtal við konur og maka þeirra, fræðist um heilsu og aðstæður, met ýmsa áhættuþátti sem geta komið upp á meðgöngunni. Alla meðgönguna er ég til staðar og fylgist með hvort verðandi móður og barn líði vel, að ekkert sé að bregða útaf hinu „eðlilega“. Ég hef frumkvæði af því að senda verðandi mæður í rannsóknir, veiti fræðslu og er reiðubúin að bregðast við ef eitthvað kemur uppá. Staðreyndin er nefnilega sú að í dag eru verðandi mæður í auknu mæli með ýmsa kvilla sem þarf að huga að, t.d.háþrýsting, meðgöngusykursýki, gigt, kvíða og þunglyndi, svo fátt eitt sé nefnt. Ef upp koma áhættutilvik þarf að meta hvort að flytja þurfi verðandi mæður í áhættumæðravernd inná Landspítala eða einhverjar frekari rannsóknir. Starf mitt er því gríðarlega mikilvægt, ekki bara fyrir hinar verðandi mæður heldur ekki síst fyrir hin ófæddu börn.
Meðalgrunnlaun hjá BHM er um 621 þús. miðað við dagvinnu. Ég vinn dagvinnu og væri með um 500 þús. fyrir fullt starf. Það er augljóst að þetta er ekki sanngjarnt. Samstarfskona mín hjá Heilsugæslunni er með 30 ára starfsreynslu í mæðravernd, með meistaragráðu ofaná ljósmóðurgráðuna, er brjóstagjafaráðgjafi og hefur sótt fleiri sérhæfð námskeið. Hún er með 567 þús. í grunnlaun. Mér féllust hendur þegar ég áttaði mig á því að ef ég vinn í 30 ár í viðbót, bæti við mig meistaragráðu og tek fjöldan allan af sérhæfðum námskeiðum þá næ ég að hækka um rúmar 60 þús. Þetta er hækkun um 2.000 kr. á ári eða, til einföldunar, ca. 0,004%. Mér finnst ég höfð að fífli. Hvað var ég að spá að eltast við æskudrauminn! Hvað á ég að gera? Á ég endalaust að vera þakklát fyrir að starfa við það sem ég elska? Ég skulda margar milljónir í námslán, þarf að greiða fyrir þakið yfir höfði fjölskyldunnar og leggja mat á borð þeirra en þakklæti borgar ekki reikningana. Mér líður eins og asna að hafa fjárfest í þessu námi og hljóta fyrir þessa vanvirðingu. Ég er reið og sár, er þetta þess virði?
Launakröfur ljósmæðra eru sanngjarnar. Ljósmæður eru ekki eingöngu að fara fram á hækkun launa til jafns við aðrar stéttir heldur eru þær samhliða að fara fram á leiðréttingu launa svo þær sitji á sama stað miða við menntun og reynslu og aðrar sambærilegar stéttir. Allt tal um að ljósmæður séu að fara fram á gríðarlegar % hækkanir er því rangt og úr samhengi tekið. Annars vegar er farið fram á eðlilega hækkun launa, hins vegar er farið fram á eðlilega leiðréttingu kjara miða við þá viðbótar menntun sem cand.obst. gráðan er.

Höfundur er ljósmóðir