Þegar friðurinn kom til Noregs

Hluti konungsfjölskyldunnnar sneri aftur úr útlegð í London 7. maí …
Hluti konungsfjölskyldunnnar sneri aftur úr útlegð í London 7. maí og veifar þjóð sinni hér af svölum konungshallarinnar. Hákon VII konungur, Märtha krónprinsessa og börn þeirra Ólafs krónprins, Astrid, Haraldur, nú Noregskonungur, og Ragnhild. Krónprinsinn sneri aftur til Noregs 13. maí. Ljósmynd/Wikipedia.org/Þjóðminjasafnið í Ósló

Í dag minnast Norðmenn þess með viðhöfn að liðin eru 75 ár síðan þýskur innrásarher lyfti járnhæl sínum af Noregi 8. maí 1945 og hernámi Þjóðverja, sem staðið hafði óslitið frá 9. apríl 1940, lauk.

Frelsisdagurinn, eða frigjøringsdagen, 8. maí 1945, bar með sér atburði sem lengi munu uppi verða í Noregssögunni. Þýskaland var fallið, Adolf Hitler hafði stytt sér aldur í vígi sínu í Berlín 30. apríl, nýskipaður ríkiskanslari, áróðursstjórinn fyrrverandi Josef Göbbels, gegndi hinu nýja embætti sínu í nákvæmlega einn dag áður en hann og öll fjölskylda hans styttu sér aldur 1. maí. Draumur foringjans um þriðja ríkið var kominn að fótum fram.

Er þarna var komið sögu hafði hernám Þjóðverja í Noregi staðið óslitið rúm fimm ár, frá 9. apríl 1940 þegar þýskur innrásarher réðst óvænt og af fullu afli á Noreg og kom íbúum landsins í fullkomlega opna skjöldu svo sem rifjað var upp þann sama dag nú í vor þegar 80 ár voru liðin.