Bónus veltir 60 milljörðum

Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss.
Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss. Morgunblaðið/Kristinn Magnússon

Það hefur ekki mikið farið fyrir Guðmundi Marteinssyni, framkvæmdastjóra Bónuss, í fjölmiðlum, ef undan er skilin umræða um starfslokasamning hans í fyrravor. Samt hefur Guðmundur verið einn helsti verslunarmaður landsins undanfarinn aldarfjórðung. Hann segist halda fast í grunngildin.

Við Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, mæltum okkur mót í höfuðstöðvum Bónuss í Skútuvogi í Reykjavík. Þær eru nú á hæðinni fyrir ofan fyrstu Bónus-verslunina sem þeir feðgar Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson opnuðu laugardaginn 8. apríl árið 1989 við góðar undirtektir.

Við blaðamanni tekur sterklegur maður í svörtum gallabuxum og svörtum bol. Klæðnaðurinn rímar við þá ímynd að Guðmundur sé harður í horn að taka. Hann reynist þó hlýr og hógvær í viðkynningu.

Guðmundur vísar blaðamanni inn á litla skrifstofu með útsýni út á bílaplanið. Hún er laus við íburð og rúmar í mesta lagi tvo gesti. Á gólfum virðast vera flísar en Guðmundur útskýrir að...