Stefnir í harðan slag og mikla samkeppni

Þess er beðið með mikilli óþreyju að bólusetning gegn kórónuveirunni tryggi nægilegt ónæmi í samfélaginu til þess að hægt verði að opna fyrir ferðalög fólks milli landa. Þegar það markmið næst mun fluggeirinn vakna af þeim „dvala“ sem hann var neyddur í fyrir rúmu ári. Þegar það gerist verður margt með öðru sniði en var og verkefni rótgróinna flugfélaga verður að fóta sig í nýjum veruleika og nýrra félaga að sækja fram og vinna nýja markaði.

Í nóvember næstkomandi verður áratugur liðinn frá því að Skúli Mogensen boðaði til blaðamannafundar og svipti hulunni af flugfélaginu WOW air. Það er eins og að ár og öld sé liðin síðan enda hefur fluggeirinn á Íslandi gengið gegnum meiri sviptingar á þessum áratug en oftast áður. Hvern hefði grunað þegar áformin voru kynnt að félagið myndi sjö árum síðar flytja nærri því jafn marga farþega og Icelandair og hafi einhver rennt grun í að það gæti gerst, hefði enginn getað séð fyrir darraðardansinn og...