Þetta hefði ekki þurft að gerast

Morgunblaðið/Ásdís

Það var einn sólríkan júnímorgun árið 2020 að ódæðismaður réðst inn á heimili Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur og stakk hana ítrekað. Hún lifði af en þarf að lifa með afleiðingum árásarinnar. Herdís býr enn í húsinu því hún segir það valdeflandi að gefa þessu skelfilega atviki ekki meira vægi. Á tæpu ári hefur Herdís lært ýmislegt um réttarkerfið og segir víða brotalamir. Henni finnst að miðað við fyrri brot árásarmannsins hefði hann ekki átt að ganga laus.

Það er fallegt steinhúsið sem stendur við Langholtsveg, heimili Herdísar Önnu Þorvaldsdóttur, viðmælandans sem blaðamaður mælti sér mót við einn blíðviðrismorgun í vikunni. Það var einmitt á rólegum og fallegum mánudagsmorgni fyrir tæpu ári að hið ótrúlega, hryllilega og óvænta gerðist innan veggja hússins. Herdís var í óða önn að klára morgunverkin, á leið út í daginn, þegar nýi leigjandinn á neðri hæðinni stóð fyrir framan hana með hníf á lofti. Augnaráðið var tryllingslegt og hnífshöggin dundu á Herdísi...