Pútín stígi frá „bjargbrúninni“

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær að enn væri nægur tími fyrir Vladimír Pútín Rússlandsforseta til þess að stíga skref til baka frá „bjargbrúninni“, á sama tíma og Johnson varaði við að staðan væri mjög alvarleg í ljósi þess gríðarlega fjölda hermanna, sem Rússar hafa nú safnað saman við landamærin að Úkraínu.

Sagði Johnson að styrjöld gæti hafist innan tveggja sólarhringa og að merki væru um að Rússar væru farnir að undirbúa innrásina af fullri alvöru. Hvatti Johnson jafnframt ríki Evrópu til þess að læra af reynslunni frá innlimun Krímskagans og reyna að losa sig undan því að vera háð jarðgasi frá Rússum. Þá væri nú tíminn til þess að standa saman.

Þjóðaröryggisráð Breta, COBR, fundaði í gær um brottflutning Breta frá Úkraínu ef til innrásar kæmi, en Johnson ræddi einnig síðdegis við Joe Biden Bandaríkjaforseta um ástandið í deilunni.

Munu áfram sækjast eftir aðild

Volodymyr Zelenskí, forseti...