Vildi bara tala við ölvaðar stúlkur

Þó stundum sé brugðið á leik í unglingavinnunni þýðir það …
Þó stundum sé brugðið á leik í unglingavinnunni þýðir það ekki að leti svífi yfir vötnum. Má ekki vera gaman í vinnunni? Þessi mynd er tekin við Reykjavíkurtjörn í ágúst 1972. Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon

Það er gömul saga og ný að við, fullorðna fólkið, höfum misgóðan skilning á unglingum, þörfum þeirra og þrám. Það hefur ábyggilega ekkert breyst frá því að fyrirbrigðið unglingur kom fyrst fram á sjónarsviðið á síðustu öld, í þeirri merkingu sem við leggjum nú í orðið.

Ekki þurfti að segja söguhetju okkar í þessari Tímavél, Maríönnu sem var með nafnnúmerið 6464—9515, neitt um það sumarið 1982 en hún sá ástæðu til að stinga niður penna og rita Velvakanda í Morgunblaðinu bréf – af gefnu tilefni.

Eins og kurteisra ungmenna er siður, byrjaði Maríanna á því að gera grein fyrir sér; hún vann sum sé í unglingavinnunni og fékk þar á tímann 19,34 krónur. Höfundar aðsendra greina mættu gjarnan almennt fara að hennar fordæmi og láta upplýsingar um kaupið sitt fylgja með skrifunum. Það hjálpar alltaf upp á samhengið.

„Það sem ég vil segja,“ sagði Maríanna svo, „er að fyrir nokkru skrifaði kona nokkur í Velvakanda og sagði m.a. að...