Láttu mig um þetta

Það var líkast þrumufrétt úr skýjum, þegar tilkynnt var að Selenskí, forseti Úkraínu, væri á leið til Bretlands. Flugvél hans væri að lenda og hann myndi eiga fund með Sunak, forsætisráðherra, í Downingstræti 10, ganga fyrir Karl III. konung í Buckinghamhöll og vippa sér því næst í sali þingsins í Westminster og fylgjast þar með óundirbúnum fyrispurnum í því fræga návígi sem þar er, og ávarpa svo þingmenn í hinum stóra hliðarsal sem heyrir þinghúsinu til og þar sem menn úr báðum deildum og fleiri til geta komið saman. Eins og nærri má geta komu margir nærri þessum undirbúningi, þó eins fáir og fært var hafi vitað hvað stæði til, fyrr en Selenskí forseti hafði lent, heill á húfi á flugvellinum.

Ekki stafkrókur spurðist út fyrr en heimsóknin varð samtímis á allra vitorði. Það var vel af sér vikið, því kunn er sú lenska að margir eiga erfitt með að þegja yfir leyndarmáli eða jafnvel því sem þeir halda að sé leyndarmál. Og það kvisaðist heldur ekki út að Selenskí forseti yrði,...