„Það bjó í mér ævintýralöngun“

Billó sést hér á Andvara árið 1977, þá yfirvélstjóri.
Billó sést hér á Andvara árið 1977, þá yfirvélstjóri.

Líklega eru fáir menn sem hafa stigið ölduna í fimmtíu ár. Brynjólfur Oddsson, alþjóðlegur skipstjóri hjá Samherja, er einn af þeim en hann hóf ferilinn sem strákpjakkur árið 1970. Hann er nýlega hættur sem fastráðinn skipstjóri en segist þó ekki hættur á sjó. Hann sér nú fram á fleiri gæðastundir með fjölskyldunni en barnabörnin eru orðin þrjú og verða fimm innan skamms.

Á kaffihúsi í Kópavogi kynnir Brynjólfur sig fyrir blaðamanni og segist kallaður því sérkennilega gælunafni Billó.

„Systur mínar fundu upp á þessu ónefni þegar ég var lítill. Ég kann ljómandi vel við það því ef ég er kallaður Brynjólfur finnst mér eins og verið sé að skamma mig,“ segir hann og brosir út í annað.

Billó er með djúpa, hrjúfa rödd og talar hratt. Úr andliti hans má lesa einurð og festu skipstjórans sem unnið hefur hörðum höndum alla ævi og aldrei kvartað yfir vinnu. Billó hefur lifað tímanna tvenna og rifjar upp lífið á sjó í hálfa öld en...