Aldur og galdur eru af sama meiði sagði Baldur við Konna

Morgunblaðið/Eggert

Íslendingar fylgjast ekki endilega með bandarískum stjórnmálum af verulegum áhuga. Flestir þeirra láta sér nægja að kíkja létt undir yfirborðið. Enda er nálgunin við hana mjög ólík því sem við eigum að venjast. Íslenskir stjórnmálamenn þykjast góðir ef þeir geta ýtt sæmilega við íslenskum kjósendum, þegar aðeins eru 6-8 vikur til kosninga. Þegar tæp tvö ár eru til forsetakosninga vestra og annarra kosninga sem því fylgja dæsa þeir þar yfir því, að nú sé þetta allt að skella á. Reyndar hefur þátttaka í íslenskum kosningum farið minnkandi og hefur hún þó löngum verið mun betri en gerist og gengur í þeim bandarísku. Ekki er augljóst hvers vegna það hefur gerst. En ein líkleg skýring er sú, að fólkið í landinu hefur áttað sig á því, að valdið hefur verið fært í algjöru heimildarleysi til Brussel og Alþingi lætur eins og það sé sjálft á kafi við lagasetningu þegar það stimplar ólesna og vafasama texta frá þeim þar syðra. Alþingismenn gera allt slíkt í leyfisleysi.