Skráðu þig inn til að horfa á þáttinn
Athugið að Dagmálsþættir eru aðeins fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.
Þjóðmálin
13. október 2025
Frumvarpsdrög til breytingar á Búvörulögum eru nú í samráðsgátt stjórnvalda. Þar eru gerðar veigamiklar breytingar, sem formaður Bændasamtaka Íslands segir að gangi ekki upp. Trausti Hjálmarsson er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og er einmitt umræddur formaður.
Það er einkum tvennt í frumvarpinu sem bændur gagnrýna. Það er niðurfelling á 71. grein núgildandi laga þar sem kveðið er á um að samvinnufélaginu Auðhumlu sé heimilt að annast mjólkursöfnun á öllu landinu og selja mjólk til framleiðenda. Með því að fella greinina á brott óttast Trausti að minni framleiðendur muni eiga undir högg að sækja og þurfi að koma sér upp eigin söfnunarkerfi og samningum við kúabændur um kaup á mjólk. Þessi breyting á lögunum segir Trausti að hafi komið bændum mjög spánskt fyrir sjónir. Eftir mikil fundahöld og samskipti við stjórnvöld hafi þessi breyting skotið upp kollinum öllum að óvörum. Hann segir jafnframt að orð ráðherra um að niðurfelling lagagreinarinnar skipti í raun ekki máli, gangi ekki upp í sínum huga því að einnig sé talað um aðlögunartíma fyrir bændur og það bendi til þess að breytingar verði. Hann hefur trú á að hægt verði að knýja fram breytingar hvað þetta varðar.
Í fyrra var lögum breytt til þess að gerlegt væri að fækka sláturhúsum og afurðastöðvum. Meta átti áhrif þessa árið 2028. Trausti segir að áhrif þessarar breytingar séu ekki komin fram og ýmsir tafaleikir hafi seinkað málinu. Hluti af breytingunni var að sameiningar kjötvinnslufyrirtækja voru undanþegnar samkeppnislögum. Málaferli gerðu það að verkum að þessi breyting gekki ekki fram nema í einni sameiningu þegar Kaupfélag Skagfirðinga keypti Kjarnafæði. Sú nauðsynlega hagræðing sem undanþágan átti að vera ávísun á hefur því ekki náð fram að ganga. Trausti telur frumvarpið ekki nægilega vel unnið og að sjá megi í því misvísandi ákvæði um sama hlutinn. Til að mynda þegar kemur að afurðastöðvum í kjöti. Hann segist að sama skapi ánægður með að stefna stjórnvalda sé að gera þátt bænda í virðiskeðjunni meiri, hins vegar fari það ekki saman við þær breytingar sem gera á með þessu frumvarpi.
Trausti segir tækifærin fyrir bændur, neytendur og ekki síst stjórnvöld þegar kemur að því að auka veg landbúnaðar mikil og að boltinn sé hjá stjórnvöldum. Formaður bændasamtakanna er hógvær í orðavali þegar rætt er um stöðuna en hann ítrekar að óbreytt frumvarp gangi ekki upp.
Fáðu meira með vikupassa!
Vikupassinn veitir þér fullan aðgang að Dagmálum ásamt öllu öðru efni fyrir áskrifendur Morgunblaðsins í viku fyrir aðeins 2.790 kr.
Fréttir - Ritstjórnargreinar - Menning - Umræðan - Minningargreinar - Viðtöl - Viðskipti - Daglegt líf - Aðsendar greinar - og umfram allt: fagleg fréttamennska