Andvaka yfir prófílmynd

Egill Fannar Halldórsson
Egill Fannar Halldórsson Morgunblaðið/Rósa Braga

Ég var að þjóna tvöhundruð og þrjátíu Kínverjum um daginn. Þeir sungu, dönsuðu og mér til undrunar, borðuðu þeir  íslenska matinn sem við buðum þeim uppá. Reyndar kláruðust allar sterku sósurnar auk þess sem margir voru með harðsoðin egg og/eða hrísgrjón í nesti. Mér finnst það mjög fyndið, þriggja rétta veisla auk lystauka og þú kemur með harðsoðið egg í nesti. Allan tímann voru Kínverjarnir óstöðvandi í myndavélunum, símunum eða spjaldtölvunum sem ég var farinn að halda að væru límdar við hendurnar á þeim.

Eftir að hafa klárað menntaskóla á Íslandi hélt ég að ég hefði séð alla þá snjallsímafíkn sem til er í heiminum. Þegar 3G net var komið í hendur hvers nemenda hugsaði ég að þetta hlyti að vera hápunktur geðveikinnar. Blessaður stressaður hvað ég hafði rangt fyrir mér. Tvö hundruð og þrjátíu Kínverjar og nánast hver einn og einasti í símanum eða myndavélinni. Það sem mér fannst frábærast var að þetta var svo ólíkt notkuninni sem ég þekki. Í skólanum voru allir á feisbúkk eða að „snappa” tólinu á sér yfir á næsta borð en það var ekki alveg staðan á Kínverjunum. Þeir voru allir í myndavélinni eða albúminu í símanum að skoða myndir. Ég held að þeim finnist ekkert skemmtilegra en að fletta í gegnum sömu myndirnar aftur og aftur.

Kveikjan að þessum pistli er ein kínversk vinkona mín sem vakti sérstaklega athygli mína. Í tæpa þrjá klukkutíma æfði hún einhverja þá andfélagslegustu hegðun sem ég hef nokkurn tíman orðið vitni að. Ég þjónaði henni til borðs og færði henni fjóra rétti án þess að sjá framan í hana og aldrei leit hún af kámugum snertiskjánum. Það sem gerir þetta svo fyndið er að hún var allan tímann að skoða sömu tvær myndirnar. Í þrjá klukkutíma. Báðar voru af henni sjálfri með fallega íslenska náttúru í bakgrunn. En ef ég má setja sjálfan mig í dómarastól þá voru þetta engar fimm stjörnu myndir. Með vindinn í hárinu og hárið í augunum. Birtan neyddi hana til að gretta sig og bláa fjallgönguúlpan var ekki að fara að skila neinum extra „like-um“. Já þið hljótið að vera að hugsa það sama og ég, hún var að velja prófælmynd. Hvað annað gat hún verið að gera? Í þrjá tíma flakkaði hún á milli tveggja mynda og „zoom-aði“ fram og til baka á andlitið á sér eins og það myndi breyta myndinni ef hún gerði það nógu oft. 

Þarna stöndum við frammi fyrir glænýju nútíma lúxusvandamáli. Það að vera með heita og ferska prófælmynd er ekkert djók. Mynd þar sem þú ert einn, með hárið í lagi og ekki undir áhrifum áfengis vaxa nefnilega ekkert á trjánum.  Í alheimsþorpi tuttugustu og fyrstu aldarinnar vegur internetprófíllinn þyngra en margir vilja trúa. Atvinnurekendur, menntastofnanir, heitar gellur, fjölskylda, opinberar stofnanir og tilvonandi viðskiptafélagar, það skiptir ekki máli. Sama frá hvaða sjónarhorni við lítum á málið þá notar fólk internetið til þess að athuga bakgrunn fólks.

Lífið á tuttugustu og fyrstu öldinni er kannski stimplað lúxuslíf en það er líka ansi flókið. Í dag er mikilvægt að koma vel fram, ekki bara í persónu heldur líka í heimi samskiptamiðla á internetinu. Fyrir nokkrum árum hefði það engu máli skipt þó maður væri ekki til í nokkurri tölvu en í dag held ég að það hefði hamlandi áhrif. Sérstaklega fyrir ungt fólk. Ef þú ert komin á Grund er þetta kannski ekki alveg jafn mikið grundvallaratriði en ef þú hefur samt sem áður tök á því að halda veggnum þínum heitum þá er það alveg stórkostlegt.

Við þurfum öll að vera meðvituð og standa vörð um ímynd okkar á internetinu. Auk upplýsinganna sem við gefum um okkur þá er forsíðumyndin líka mikilvæg. Forsíðumyndaval skal samt ávallt gert í rólegheitum og með varkárni. Þannig er hægt að forðast að feta í fótspor kínversku vinkonu minnar sem eyddi örugglega restinni af kvöldinu andvaka uppi í rúmi með harðsoðið egg í annarri og símann í hinni að bíða eftir að fyrstu like-in dyttu í hús.

-Egill Fannar Halldórsson

monitor@monitor.is

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant