Aðskildir tvíburar

Aðskildir tvíburar

Kaupa Í körfu

Vorum himinlifandi þegar tvíburasysturnar komu báðar öskrandi í heiminn, segja foreldrarnir ÆÐAKERFI tvíburasystranna Maríu og Söru Gunnarsdætra voru samtengd í gegnum fylgju fram að miðri meðgöngu þegar þau voru aðskilin með leysigeisla á belgísku háskólasjúkrahúsi. Er það í fyrsta sinn sem slík aðgerð er gerð á íslenskum tvíburum. Móðirin fékk sjúkdóm í fylgju, blóðtilfærslu milli tvíbura sem lýsir sér í því að annað barnið tekur þá næringu frá hinu sem getur leitt til dauða beggja. Móðirin, Lilja Dögg Schram Magnúsdóttir, segir að í 20. viku meðgöngunnar hafi komið í ljós að önnur stúlkan hafi verið komin út í horn með lítið legvatn en hin hafi haft mjög mikið af legvatni. Hildur Harðardóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítala - háskólasjúkrahúss, hafi sagt henni að um þennan sjúkdóm væri að ræða. "Þetta kom upp á mánudegi og við fórum út til Belgíu á föstudegi," segir Lilja. Hún hafi þurft að liggja fyrir nánast samfleytt í 15 vikur eftir aðgerðina í Belgíu. Systurnar fæddust eftir 35 vikna meðgöngu sem þykir mjög langur tími þegar tvíburar fá þennan sjúkdóm svo snemma á meðgöngu. "Við vissum alltaf af því að það væri möguleiki á því að önnur eða báðar myndu deyja á meðgöngunni," segir Lilja og því hafi hún og eiginmaður hennar, Gunnar W. Reginsson, verið himinlifandi þegar systurnar komu báðar öskrandi í heiminn. MYNDATEXTI: Tvíburasysturnar María og Sara Gunnarsdætur sváfu vært á vökudeild Landspítala - háskólasjúkrahúss í gær.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar