Fritz Hendrik - Draumareglan

Fritz Hendrik - Draumareglan

Kaupa Í körfu

Kling & bang í Marshall húsinu: af sýningu Fritz Hendrik, Draumareglan Fátt hefur eins mikil áhrif á daglega líðan okkar og svefninn, en mikilvægi stöðugrar svefnrútínu er viðfangsefni sýningarinnar Draumareglan sem nú stendur yfir í fremri sýningarsal Kling & Bang í Marshall-húsinu. Listamaðurinn Fritz Hendrik hlaut á síðasta ári styrk úr minningarsjóði Ástu Eiríksdóttur og Svavars Guðnasonar, en hann útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2016. Á sýningunni eru bæði nýleg málverk og verk unnin með blandaðri tækni auk texta Fræðimannsins, sem er skálduð persóna listamannsins. Fræðimaðurinn er sérfræðingur í að skoða heiminn í gegnum það sem hann kallar „Gráu slæðuna“, sem sýnir lífið á gráan og ljóðrænan hátt eins og segir í sýningartexta. Sýningarrýmið hefur verið málað í grádröppuðum lit og gardínur settar fyrir glugga til að dempa birtu. Málverkin á sýningunni eru máluð með sömu daufu litapallettunni í anda gráu slæðunnar. Reglulegur og góður svefn er lykill að líkamlegu og andlegu heilbrigði mannsins. Við verjum um það bil þriðjungi ævi okkar sofandi og of lítill svefn eða truflun á svefnrútínu hefur fljótt áhrif á ýmsa þætti líkamsstarfseminnar, svo sem úthald og einbeitingu. Á hverri nóttu förum við í gegnum mismunandi stig svefns, frá léttum svefni yfir í djúpsvefn, sem hefur áhrif á hvíld okkar og draumfarir. Í samtímanum er enginn hörgull á „sérfræðingum“ á hinum ýmsu sviðum sem greina og benda á leiðir til úrbóta ef á þarf að halda, hvort sem það er á sviði sjálfshjálpar, mataræðis, hreyfingar eða svefns. Hægt er að hlaða niður appi í símann eða ganga með sérstakt snjallúr til að fylgjast t.d. með hreyfingu okkar, hjartslætti og svefntíma og ekki síst gæðum svefns. Að morgni liggur svo niðurstaðan fyrir í formi línurits þar sem við getum metið hvort svefninn hafi verið fullnægjandi eða ekki. Þessar áþreifanlegu og mælanlegu niðurstöður koma fram í formi línurits í neðsta hluta nokkurra málverka sem bera titla eins og „Góður svefn“ og „Mjög góður svefn“, þar sem Fritz myndgerir línuritin í verkunum, skapar ímyndaðan heim sem er ekki til í raunveruleikanum ... eða hvað? Meðan áhorfandinn gaumgæfir niðurstöðurnar verður hann um leið meðvitaður um einhvers konar tímalega framvindu í málverkunum en samtímis einnig um tímaleysi þeirra, eins þversagnakennt og það hljómar. Með reglulegu millibili er áhorfandinn hins vegar truflaður með lágværu suði sem flestir þekkja og minnir á hringingu úr útvarpsvekjaraklukku. Suðið kemur úr verkinu „Áminning“ sem hangir í lofti sýningarsalarins og er járnbjalla með stórum kólfi í miðjunni, sem er auðvitað í hrópandi andstæðu við þá ímynd sem hljóðið framkallar. Sviðsetningin hefur verið meginviðfangsefni listamannsins og í verkinu „Sviðsett rúm“ er svefnrútínan sem rannsóknarefni bókstaflega sett á svið, autt rúm á sviði, tómir áhorfendapallar og leikhúsljós ýta undir íróníuna sem felst í því að „rannsaka“ eigin svefn og skoða niðurstöðuna sem birtist í símanum eða með einhverjum öðrum hætti. Texti Fræðimannsins rammar inn sýninguna á skemmtilegan hátt og þar segir meðal annars: „Skáldskap þarf ekki endilega að rökstyðja og því getur hann verið afar furðulegur. Þetta á þó einnig við raunveruleikann, en við tökum ekki eftir því þar sem við erum hluti af vitleysunni. Líf okkar byggist á henni. Við það að vera meðvitaður um fáranleika hversdagsleikans verða mörk þess að vaka og sofa óskýrari.“ Fritz veltir upp spurningunni hvað sé góður svefn og um leið hvað sé góður draumur og eins og titill sýningarinnar ber með sér, hvort hægt sé að setja einhverjar draumareglur og mælikvarða á þann furðulega skáldskap sem draumar eru.

Frekari upplýsingar

Ljósmyndarar

Teiknarar