Mikið um kerti í desember
Samhent fjölskylda sem safnar álinu í sprittkertunum, Óskar Sigurbjörn, Inga, Kristín og Gói. Þau finna fyrir almennri vitundarvakningu í flokkun og endurvinnslu. Kristinn Ingvarsson.

Mikið um kerti í desember

„Það gengur alveg ótrúlega vel að safna álinu í sprittkertunum,“ segir Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir ljósmóðir, en eins og kunnugt er var endurvinnsluátaki á álinu í sprittkertum hleypt af stokkunum í byrjun desember og stendur það yfir fram í lok janúar.

Samhent fjölskylda sem safnar álinu í sprittkertunum, Óskar Sigurbjörn, Inga, …
Samhent fjölskylda sem safnar álinu í sprittkertunum, Óskar Sigurbjörn, Inga, Kristín og Gói. Þau finna fyrir almennri vitundarvakningu í flokkun og endurvinnslu. Kristinn Ingvarsson.

„Það gengur alveg ótrúlega vel að safna álinu í sprittkertunum,“ segir Ingibjörg Ýr Óskarsdóttir ljósmóðir, en eins og kunnugt er var endurvinnsluátaki á álinu í sprittkertum hleypt af stokkunum í byrjun desember og stendur það yfir fram í lok janúar.

„Jólahátíðin er auðvitað að klárast og svo er þetta myrkasti tími ársins, þannig að það er mikið um kerti í desember. Þar af leiðandi er dallurinn að fyllast sprittkertabikurum – ætli þetta sé ekki fimm lítra baukur!“

Inga segir að það hafi verið lítið mál að bæta við hirslu í eldhúsinu undir sprittkertin. „Við erum með útdraganlegan ruslaskáp og þar eru fjórar flokkunartunnur.Nú var álið í sprittkertunum að bætast í flokkunarflóruna, en áður flokkuðum við plast, pappír og svo almennt rusl. Ég er ekki byrjuð í þessu lífræna. Svo eru dósirnar í svörtum poka úti á palli – ég tel þær nú ekki einu sinni með.“

Mikil vitundarvakning

Hún segir fólk í kringum sig almennt vera duglegt að flokka. „Mér finnst hafa orðið mikil vitundarvakning í þessum efnum. Ég vinn til dæmis á stærsta vinnustað landsins, Landspítalanum, og þar er allt flokkað, pappi og annað. Ætli það séu ekki um tvö ár síðan það byrjaði.“

Inga er gift Góa, Guðjóni Karlssyni leikara, og segir hún þau samhent í endurvinnsluátakinu. Og krakkarnir eru líka meðvitaðir, Kristín 6 ára og Óskar Sigurbjörn 9 ára. „Þau spyrja gjarnan þegar þau fara út með ruslið: „Á þetta að fara í svörtu tunnuna eða bláu tunnuna?“  

Líf Lárusdóttir er himinlifandi yfir undirtektunum við endurvinnsluátak sprittkerta og …
Líf Lárusdóttir er himinlifandi yfir undirtektunum við endurvinnsluátak sprittkerta og segir fólk hafa allt til janúarloka til að skila inn álinu. Birgir Ísleifur.

Augu fólk að opnast

„Við finnum fyrir mikilli vakningu,“ segir Líf Lárusdóttir, verkefnisstjóri sölu- og markaðsmála hjá Gámaþjónustunni, en það fyrirtæki stendur að endurvinnsluátakinu ásamt Endurvinnslunni, Furu, Grænum skátum,  Íslenska gámafélaginu, Málmsteypunni Hellu, Plastiðjunni Bjargi – iðjuþjálfun, Sorpu, Samáli og Samtökum iðnaðarins.

„Eftir að endurvinnsluátaki á álinu í sprittkertum var ýtt úr vör höfum við fundið fyrir miklum áhuga, fólk ýmist hringir eða sendir skilaboð og hefur áhuga á að vita hvernig á að meðhöndla álbikarana,“ segir hún. „Það er eins og augu fólks séu að opnast fyrir þessu. Svona hefur þetta áreiðanlega verið með flöskurnar á sínum tíma. Hér man fólk eftir því þegar það þótti ekki tiltökumál að henda flöskum í ruslið, sem fæstir myndu gera í dag. Við erum himinlifandi yfir undirtektunum og fólk hefur allt til janúarloka til að skila inn álinu í sprittkertunum.“

Víða tekið á móti sprittkertum

Boðið er upp á að skila álinu í sprittkertunum á hátt í 90 móttöku- og endurvinnslustöðvar Endurvinnslunnar, Gámaþjónustunnar, Íslenska gámafélagsins og Sorpu um allt land. Þá býðst fólki að skila álbikurunum í söfnunargáma Grænna skáta á höfuðborgarsvæðinu og loks getur fólk sett álið í endurvinnslutunnu Gámaþjónustunnar og græna tunnu Íslenska gámafélagsins (ekki þó grænar tunnar Reykjavíkurborgar). Endurvinnslan tekur svo á móti vaxi úr sprittkertum og öðrum kertaleifum, en þaðan fer það Plastiðjunnar Bjargs sem endurnýtir það í útikerti.

Sjálf segist Líf vera mikil kertamanneskja og „sucker“ fyrir ilmkertum. „Ætli ég flokkist ekki í hæstu hæðum sem kertamanneskja,“ segir hún og hlær. Enda hefur hún verið ötul að safna álinu undan sprittkertunum yfir hátíðarnar. „Hverju og einu einasta,“ segir hún.

Tvær skúffur undir flokkunarílát

„Við erum með eyju í eldhúsinu heima og þar eru tvær skúffur sérstaklega útbúnar undir flokkunarílát. En það takmarkast svolítið af sveitarfélaginu, sem er með tvær tunnur, aðra undir endurvinnsluefni og hina undir almennt sorp. Nokkur sveitarfélög sem við þjónustum hafa tekið skrefið lengra og flokka einnig lífrænan úrgang og það verður að teljast alveg til fyrirmyndar.“

Ef fólk á höfuðborgarsvæðinu vill ganga lengra í þessum efnum, þá býður Gámaþjónustan uppá endurvinnslutunnuna og sem tekur við ólíkum tegundum úrgangs, þ.e. dagblöðum, tímaritum, pappír, pappa, fernum, málmum og plastumbúðum – og nú verður álið í sprittkertum flokkað sérstaklega frá. „Algengasta áskriftarleið Endurvinnslutunnunnar er losun á 4 vikna fresti, en vissulega getum við losað oftar og sjaldnar eftir þörfum viðskiptavinarins,“ segir Líf. 

„Fólk getur sett álið í sprittkertunum laust í endurvinnslutunnuna. Algengasta formið sem við sjáum er að það ýti hliðunum alveg niður, þá losnar um vaxið og bikararnir taka minnst pláss. Eins má nota heitt vatn til að losa vaxið. Það er líka æskilegt að losa plötuna með kveiknum frá álbikarnum, en hún má samt alveg fylgja álinu í endurvinnslutunnunni.“

Nánar um endurvinnsluátakið:

http://www.samal.is/is/endurvinnum-alid

Spurt & svarað:

http://www.samal.is/is/frettir/spurt-svarad-um-endurvinnsluatak-sprittkerta

Endurvinnum álið á facebook:

https://www.facebook.com/endurvinnumalid/

mbl.is