Hætt við tilfærslu en ekki heildaraukningu stuðnings

Tillögur starfshópsins eru sagðar rekast á markmið fjármálaáætlunar stjórnvalda.
Tillögur starfshópsins eru sagðar rekast á markmið fjármálaáætlunar stjórnvalda. mbl.is/Sigurður Bogi

Tillögur starfshóps Þjóðhagsráðs um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði eru skrýddar jákvæðum markmiðum en eru engu að síður ófullnægjandi vegna skorts á beinum viðmiðum um þörf fyrir fjármögnun stofnframlaga og annars stuðnings.

Þá rekast tillögurnar á markmið fjármálaáætlunar stjórnvalda 2022 til 2026 sem gerir ráð fyrir lækkun útgjalda til húsnæðisstuðnings á næstu árum. Þetta kemur fram í Kjarafréttum Eflingar.

Stuðningur fluttur frá tekjulægri til hærri

Bent er á að húsnæðiskostnaður sé nú sá allra hæsti í Evrópu, bæði fyrir eigendur og leigjendur. Húsaleigubætur og vaxtabætur séu ófullnægjandi og hafi ekki fylgt verðhækkunum á húsnæði.

„Hætta er á að stjórnvöld færi einungis sum form húsnæðisstuðnings yfir í önnur, án heildaraukningar stuðnings við heimilin, líkt og gert hefur verið á síðustu árum. Þannig voru vaxtabætur látnar fjara út um leið og stofnframlög til ódýrra leiguíbúða voru hækkuð og boðið var uppá skattalækkun vegna nýtingar séreignasparnaðar til íbúðakaupa, sem mest nýtist hærri tekjuhópum,“ segir meðal annars.

Húsnæðisstuðningur stjórnvalda hafi í reynd verið fluttur frá lágtekjuhópum til tekjuhærri hópa. Þessu þurfi að snúa kröftulega til baka ef markmið hópsins eiga að nást.

Innleiða þurfi þök á leyfilega upphæð 

Einnig er bent á að loforð frá Lífskjarasamningnum árið 2019 um sterkari stöðu leigjenda og aukna leiguvernd hafi ekki verið efnd.

„Tillögur nefndarinnar um þetta ganga í rétta átt en eru of almennt orðaðar og sýna ekki hvernig böndum verði komið á taumlausar verðhækkanir, bæði á leigu og kaupverði íbúðarhúsnæðis.“

Meðal annars þurfi að innleiða viðmið eða þök á leyfilega upphæð leigu fyrir almennar sem setji skýr viðmið um hámörk sem halda beri í og að ákvæði fylgi um viðurlög vegna frávika eða brota.

Loforð um vaxtabætur svikin 

Þá sé ekki bara mikilvægt að bæta stöðu leigjenda heldur sé einnig æskilegt að lágtekjufólk geti eignast íbúð eins og verkamannabústaðakerfið og félagslega húsnæðiskerfið stefndi að í áratugi. Þegar það hafi verið lagt niður hafi því verið lofað að vaxtabótakerfið myndi áfram niðurgreiða húsnæðiskostnað lægri og millitekjuhópa og létta þeim íbúðakaupin.

„Þessi loforð hafa verið svikin með því að vaxtabótakerfið hefur verið stórlega skorið niður á síðustu árum, þannig að það er nú einungis um 20% af því sem það var árið 2013 og um 10% af því sem það var mest eftir hrun (árið 2011). Þetta hefur gerst á sama tíma og íbúðaverð hefur hækkað sem aldrei fyrr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert