Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Bréf til
leiðangursins

Styrktaraðilar

 


Leiðangursmenn




Björn Ólafsson, Einar K. Stefánsson og Hallgrímur Magnússon ætla að gera tilraun til að klífa Everest, hæsta fjall heims. Með í för eru Jón Þór Víglundsson kvikmyndatökumaður á fréttastofu Sjónvarps og Hörður Magnússon.
Leiðangursmenn taka með sér fjarskiptabúnað, tölvu og myndavélar að verðmæti um tvær milljónir króna, en þeir ætla að vera í daglegu sambandi við Morgunblaðið meðan þeir klífa fjallið. Þremenningarnar munu verða í sambandi við umheiminn gegnum gervihnött. Meðan á ferð þeirra stendur ætla þeir að senda myndir og texta til Morgunblaðsins auk þess sem þeir verða í símasambandi við blaðið. Síminn verður í aðalbækistöðvum í 5.300 metra hæð, en þeir verða sjálfir með litla talstöð sem þeir ætla að nota til að tala heim til Íslands beint af tindinum.
Björn, Einar og Hallgrímur eru fyrstu Íslendingarnir sem ganga á Everest. Þeir eru meðal reyndustu fjalla- og björgunarmanna landsins og hafa gengið á mörg fjöll heima og erlendis. Árið 1995 klifu þeir Cho Oyu, sem er hæsta fjall sem Íslendingar hafa klifið, 8.201 metra hátt. Everest er 8.848 metrar.

Björn Ólafsson er þrítugur Reykvíkingur og félagi í Hjálparsveit skáta í Reykjavík (HSSR). Hann starfar við tölvuvinnslu, m.a. hjá Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur og er ókvæntur.

Björn hefur verið félagi í HSSR í 12 ár og setið í stjórn sveitarinnar, einnig verið í forystu í svonefndum undanfaraflokki sveitarinnar síðustu árin, en það er sá hópur sem sendur er fyrstur af stað til leitar. Undanfarin ár hefur hann kennt á fjölmörgum námskeiðum fyrir ýmsar björgunarsveitir á landinu og leiðbeint á fjallamennsku- og fjallabjörgunarnámskeiðum á vegum Björgunarskóla Landsbjargar og Slysavarnafélags Íslands.

Björn hefur sótt námskeið og ráðstefnur um fjallamennsku og fjallabjörgun víða um heim og hefur fyrir milligöngu Landsbjargar starfað á neyðarsjúkrabílum í New York.

Einar K. Stefánsson
er 31 árs Reykvíkingur og félagi í Hjálparsveit skáta í Kópavogi (HSSK). Hann er umhverfisverkfræðingur og starfar hjá Verkfræðistofu Stefáns Ólafssonar. Sambýliskona hans er Sigurlaug Þórðardóttir og eiga þau 8 mánaða gamla dóttur.

Einar hefur verið virkur félagið í HSSK í 14 ár og setið þar í stjórn í eitt ár auk þess að gegna fjölmörgum öðrum störfum fyrir sveitina. Hann tók þátt í að byggja upp undanfarahóp sveitarinnar og hefur lengst af verið stjórnandi hans.

Hallgrímur Magnússon
er þrítugur Reykvíkingur og félagi í Hjálparsveit skáta í Reykjavík. Hann hefur stundað fjallamennsku í Íslenska Alpaklúbbnum frá 15 ára aldri. Hallgrímur er byggingatæknifræðingur og starfar hjá verktakafyrirtækinu Klæðningu hf. Sambýliskona hans er Elín Sigurveig Sigurðardóttir.

Hallgrímur hefur verið í undanfaraflokki hjá HSSR síðastliðin fimm ár auk þess að vera leiðbeinandi á námskeiðum um fjallamennsku.

Jón Þór Víglundsson er 32 ára kvikmyndatökumaður á fréttastofu Sjónvarps. Hann lærði kvikmyndatöku í Los Angeles og hefur starfað hjá Sjónvarpinu síðan 1990. Auk þess að stunda vinnu sína á Íslandi, hefur hann verið sendur víða um heim, m.a. til Sarajevo 1994 og Belgrad nú í vetur. Sambýliskona Jóns Þórs er Birna Ósk Björnsdóttir, dagskrárgerðarkona á Sjónvarpinu. Hann er nú kominn í hæstu hæðir sem hann hefur náð gangandi.

Hörður Magnússon er 31 ára Reykvíkingur. Hann starfar sem sölustjóri í Skátabúðinni. Hann hefur líkt og Hallgrímur bróðir hans stundað ferðalög til fjalla og fjallamennsku frá unga aldri þótt aldrei hafi hann sokkið jafn djúpt í delluna og Hallgrímur. Hörður er meðlimur í Hjálparsveit skáta í Reykjavík og hefur starfað í undanförum þeirrar sveitar mörg undanfarin ár. Hann er nú aðstoðarsveitarforingi HSSR. Hörður er í sambúð með Lindu Björk Þórðardóttur meinatækni.

Efst

Aðrir leiðangursmenn
Klifrarar eru 11 að öllum meðtöldum. Sherpar eru 17, þar af 12 klifursherpar sem bera birgðir hátt á fjallið, 5 eru kokkar.
Leiðangurstjóri: Jonathan Tinker, Breti, 38 ára atvinnufjallamaður, kvæntur. Hann er einn fremsti háfjallaklifrari Breta og hefur stundað háfjallamennsku árum saman. Hann hefur tekið þátt í yfir 30 himalayaleiðöngrum og meðal annars klifið Everest, og reynt við það og önnur 8000m. fjöll að vetri til.

Chris Watts, Breti, 39 ára heildsali, kvæntur. Hefur stundað fjallamennsku frá árinu 1978 og á að baki fjölda leiðangra til Nepal, Pakistan og annarra landa, bæði að sumri og vetri. Hann gerði tilraun til að klífa Everest árið 1985 en varð frá að hverfa.

Mark Warham, Breti, 35 ára bankamaður,ókvæntur. Hefur 15 ára reynslu í fjallamennsku úr Ölpunum og hefur að baki 6 leiðangra til Himalaya, m.a. til Everest þar sem hann náði 8.200m. árið 1993.

Chris Brown, breskur, 50 ára bóndi, kvæntur. Chris hefur stundað fjallamennsku frá 40 ára aldri. Hann hóf hana til að safna peningum fyrir börn með geðklofa og lítur svo á að eftir því sem fjöllunum fjölgi, því betur leggi fólk eyrun við og betur gangi að safna. Hann stefnir að því að komast á hæsta tind allra heimsálfanna og á aðeins Asíu og Norður-Ameríku eftir og hyggst ljúka verkefninu í ár. Chris hlaut á síðasta ári heiðursnafnbótina Member of the British Empire fyrir störf sín að mannúðarmálum og var það Elísabet II. Englandsdrottning sem veitti hana.

Hugo Rodriguez, Mexíkómaður, 35 ára opinber starfsmaður, ókvæntur. Hugo er ákafur sundmaður og hóf að klífa fjöll til að byggja sig upp fyrir sundið. Hann hefur tvisvar synt yfir Ermarsundið og á opinbert heimsmet í flugsundi í hafi, 70km á 13 1/2 klst. Hann hefur hlaupið á tvö hæstu fjöll Mexikó (5.500m) allt að 100 sinnum hvort.

Chris Jones, breskur, 40 ára stórnandi í kjarnorkuveri, ókvæntur. Hann á 10 ára klifurferill. Reyndi m.a. við Cho Oyu með strákunum 1995 en varð frá að hverfa.

Eric Blakeley, Jerseybúi, 31 árs sjónvarpsfréttamaður, ókvæntur. Á að baki stuttan feril sem fjallamaður en hefur þó farið á fjöll í Afríku og Alaska.

Efst

 

 

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn