Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Styrktaraðilar

 
Dagbók leiðangursmanna
31. mars
Við áttum hvíldardag í dag. Nú brá svo við að dagurinn var bjartur og fagur. Við erum komnir langt inn í Himalayafjöllin og fjallafegurðin með þvílíkum ólíkindum að því fá engin orð lýst. Leiðangursmenn bentu í allar áttir og rifjuðu upp eldri leiðangra og klifurleiðir. Einar og Björn gengu upp á 5.050 m háan tind hér fyrir ofan en Hörður og Hallgrímur heimsóttu vestræna lækna hér í næsta þorpi til að fá að ráðleggingar við niðurgangi Hallgríms. Eftir góð ráð (massífir skammtar af fúkkalyfjum í stuttan tíma) héldu þeir í humátt á eftir. Jón hafði það huggulegt í sherpaskálanum okkar og lét dekra við sig eftir svolitla flensu. Úsýnið af tindinum var fallegt, Makalu, fimmta hæsta fjall í heimi, bar við himinn í fjarska, Lhotsehlíðar í forgrunni og ótal 5-7.000 m tindar í allt um kring. Við fengum staðfestingu á því í gegn um gervihnattasímann okkar að búnaðurinn er kominn í flug til Lucla og verður settur á jakuxa á morgun og sendur á eftir okkur eins hratt og auðið er.

Efst

30. mars
Það snjóaði meðan við gengum upp dalinn hingað til Dingboche. Það fór því lítið fyrir rómuðu útsýninu upp að Ama Dablan einu fegursta fjalli í heimi. Snævi þakin trén og jakuxarnir gáfu landinu töfrablæ. Í 4.000 m gengum við upp fyrir trjálínuna gróðurinn verður æ fábreyttari. Hér í Dingboche eru um 30 hús og nokkrir sherpaskálar. Við höfum komið okkur fyrir í notalegu litlu húsi, The Himalayan Lodge. Setustofan er með kabyssu í miðjunni og litlum borðum meðfram veggjunum. Nepals mataræði og vatn er farið að segja til sín, hægðirnar eru á vökvaformi hjá sumum okkar og smá flensupest er erfið í þessari hæð. Á morgun verður hvíldardagur til að aðlagast betur hæðinni. Núna seinnipartinn hlöðum við rafhlöðurnar drekkum heitt sítrónuvatn eða sykrað te, tökum því rólega og borðum páskaegg að heiman. Við fengum þær fréttir í dag að leyfið væri fengið og því hægt að ná farangrinum úr tolli.

Efst

29. mars - Tengboche 3.770 m
Það var þoka í morgun þegar við lögðum af stað frá Namche nestaðir með ilmandi brauði úr bakaríi staðarins. Slóðin hlykkjast inn eftir Imja Dranka eftir brattri hlíð niður að enn einni hengibrúnni og svo upp 600 m brekku að Tengboche klaustrinu. Við sáum lítið því það var farið að snjóa og skyggnið heldur lítið. Við eyðum nóttinni í heldur óhrjálegu húsi. Aðstaðan er álíka og í stórum íslenskum fjallaskála nema hvað hér er allt mun skítugra. Enn er allt skógi vaxið en snjórinn minnir okkur á að nú erum við farnir að hækka verulega.

Efst

28. mars
Við áttum hvíldardag í dag. Sherpahúsið sem við gistum í er skemmtilegt tveggja hæð hús, nýlega byggt í klassískum stíl. Herbergin eru óhituð en það er huggulegt í matstofunni og það er meira að segja rafmagn hér - frá kl. 18- 24. Við eyddum deginum í rólegheitarölt um nágrennið. Það var bjart og fallegt í morgun en um 4 leytið var komin þoka.

Efst

27. mars í Namche Bazaar 3.450 m
Það tók okkur fimm tíma að ganga hingað til Namche í dag. Við vöknuðum um 6 leytið og lögðum af stað kl 7. Við gengum um stórkostlegt landslag í björtu og fallegu veðri. Dalbotninn er mjög þröngur og stígurinn hlykkjast eftir bröttum skógi vöxnum hlíðum. Ofan við gnæfa svo ótal tindar, flestir á milli 5.000 og 6.000m. Nokkrum sinnum þurfti að fara yfir ána sem rennur eftir dalbotninum á hengibrúm. Þær eru margar nýjar og mjög háar, byggðar með vestrænni aðstoð eftir að flóð ruddi burt mörgum brúm fyrir nokkrum árum. Það var talsverð umferð burðarmanna um stíginn, enda er þetta eina leiðin upp í Khumbu héraðið og Namche Bazaar. Við gengum með létta poka og vorum hálf niðurlútir þegar burðarmenn með hátt í 70 kíló af smíðatimbri og öðrum varningi, héldu sama hraða og við. Það er hinsvegar mikilvægt að aðlagast hæðinni rólega og fara ekki hratt þó maður treysti sér til. Við botn dalsins fórum við upp 600 m háa, skógi klædda brekku uppí höfuðborg Sherpana, Namche Bazaar. Hér munum við eiga hvíldardag á morgun til að venjast hæðinni.
Okkar biðu heldur slæmar fréttir hér í Namche. Þrátt fyrir að nýr maður sé sestur í stól ráðherra ferðamála ætlar hann ekki að hefja störf fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag. Eins og við höfðum áður greint frá er undiskrift ráðherra forsenda allra leyfisveitinga til leiðangra. Farangurinn með mestöllum okkar búnaði losnar því ekki úr tolli fyrr en í næstu viku. Þó það verði hafðar hraðar hendur (kannski réttara að tala um fætur) við að koma honum til okkar er ljóst að ekki má miklu muna að við gætum orðið fyrir óheppilegum töfum. Við vonum það besta og treystum á að það takist að kippa í rétta spotta þegar Nick aðstoðarleiðangursstjóri finnur þá.

Efst

Phakdingma 2.650 m - 26. mars.
Þá erum við lagðir af stað í gönguna í grunnbúðir. Við flugum frá Katmandu til Lukhla í morgun kl. 7.00. Það kom ekki í ljós fyrr en út á flugvelli þegar við stigum í vélina að þyrlan okkar var af gerðinni Twin Otter og alls ekki þyrla. Flugið var því meira spennandi en til stóð því Lukhla flugvöllur er 250m langur, hallar milli 15 og 20 gráður og endar í snarbrattri fjallshlíð sem gnæfir 1000 m yfir hann. Aðflugið er yfir jafn há fjöll hinumegin dalsins. Við flugum því á 35 mín upp í 4.500 m hæð og svo á 2 mín steypti flugvélin sér niður á flugvöllin í 2.800 m hæð. Rússibanar gerast varla betri. Við erum nú staddir í þriggja hæða kassafjala hóteli í örlitlu þorpi í Khumbu dal sem heitir Phakdingma og nú eru vegir, rafmagn og sími langt að baki. Við höfum hitt flesta leiðangursmenn og eru þeir allir í för með okkur nema aðstoðarleiðangursstjórinn sem er enn að berjast við lamað skrifræðið í Katmandu. Alls eru leiðangursmenn um 30 auk þess fjölda sem er að bera fyrir okkur búnað en við höfum ekki enn náð að slá tölu á þann fjölda. Nú rignir og hiti er um 10 gráður

Efst

Katmandu, 25 mars 1997, kl 17:00.

Við komum hingað kl 18:00 í gær eftir 31 tíma ferðalag í gegnum London, Frankfurt og Dubai og vorum fegnir að komast loksins á hótel. Mesti léttirinn var þó að komast loksins af stað og geta skilið eftir símboðana og gemsana og allt stressið við lokaundirbúninginn. Við vorum hálfstressaðir yfir því að vera stoppaðir í tolli með allar rafeindagræjurnar en við sluppum inn þrátt fyrir gegnumlýsingu og undrunarsvip á tollurum.
Fragtin sem við sendum fyrir mánuði er enn í tolli hér í Katmandu af tæknilegum ástæðum. Það eru í gangi stjórnarskipti eftir vantraust nýlega á ríkisstjórnina undir forystu Deuba. Gamall vinstriharðjaxl að nafni Chand sem hefur verið forsætisráðherra 3var sinnum áður er að taka við.
Undirskrift ráðherra þarf til að ná út leiðangursvarningi og hér segja þeir: Enginn ráðherra, engin undirskrift. Við vonum að þessi stjórnarskipti fari að taka enda.
Annars höfum við stundað túrisma af kappi í dag og horft stóreygir á gjörólíka menningu, trúarstaði og greftrunarsiði. Meira um það síðar. Við fljúgum til Lukla í fyrramálið kl. 6:00 og hefjum svo gönguna.

Efst

 

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn