Gömul klukka

Til er klukka, sem átti fyr Ísleifur Einarsson etazráð á Brekku á Álftanesi, áður sýslumaður á Geita skarði í Húnavatnssýslu. Mun hún hafa verið fengin hingað til lands á öndverðum síðasta fjórðung 18. aldar. Klukka þessi hefir fylgt ætt Í.E. nú um hundrað ár, utan nokkur ár. - Mun brátt að því vikið.

Þess er víða getið, að Ísleifur Einarsson var hugmaður og dugnaðar. - Unni hann framförum þjóðarinnar á öllum sviðum. Fyrsti endurbætti vefstóllinn kom hingað fyrir útvegun hans, sendur systur hans frá útlöndum. Sú kona var amma ömmu þess, er þetta ritar - Guðný Einarsdóttir að nafni.

Klukka þessi er að sögn ein hin fyrsta, er til landsins fluttist. Margt hefir á daga hennar drifið og frá mörgu gæti hún sagt hefði hún mál. Hún gæti nákvæmlega skýrt frá ýmsum atburðum úr lífi hins vaska lögmanns, er var aðal-andvígismaður Hundadagakonungsins, mannsins, er sagði: »Skarphéðinn og postulinn Páll, það eru mínir menn«, þess manns, er mat að jöfnu bæði líkams- og sálaratgerfi.

Spegill stór og merkilegur í útskornum ramma var til á Brekku. Var hann þing mikið og gersemi.

Fyrsta klukkan, er amma þess, er þetta ritar, sá, var Brekkuklukkan víðfræga. Það var um 1841. Var þá Ísl. Einarsson látinn.

Nokkru síðar varð eldsvoði á Brekku. Fáu varð bjargað - en þó klukkunni. Líklegt er, að þar hafi farist spegillinn - meðal margra fémætra hluta. Sagt var, að í rústunum eftir Brekkubrennu hefðu verið storknaðir silfurlækir - því ríkidæmið var mikið.

Fyrri kona Páls Melsteðs - dóttir Ísleifs Einarssonar, Jórunn að nafni - fær nú meðal annars klukkuna í heimanmund.

Þá eru klukkur tíðkaðar víða. Gömlu klukkunni er fleygt í ruslið; þar samkynjast hún því. Frú Melsteð deyr. Páll hættir búskap og selur ýmsa muni úr búi sínu, þar á meðal klukkuna. Hún er þá ekki álitleg, sýnist í fljótu bragði einskis virði. Kassinn brotinn og myglaður, skífan spanskgræn, verkið þó furðanlegt, glerið yfir skífunni að líkindum brotið. Þó kaupir hana Skafti læknir Skaftason á 8 dali (eða 16 krónur).

Hann var maður prýðilega laghentur við smíðar - jafnt sem orðlagður læknir. Dubbar hann þá gömlu upp, kemur henni í gang og dyttar að henni þar sem bilað er. Er hún í eign hans nokkur ár. Síðan gefa þau hjón - Skafti og Þórdís kona hans - klukkuna Guðrúnu Klængsdóttur konu Magnúsar Einarssonar í Melkoti í Reykjavík. Guðrún var systir ömmu þess, er þetta ritar. Klukkan því komin í ættina aftur.

Guðrún Klængsdóttir dó 1914. Síðan er klukkan í eign manns hennar. Nú flutt að Laxnesi í Mos fellssveit; þar innan vébanda ættar innar.

Þetta er í stuttu máli saga hennar.

Það slær í augum manns einkennilegum helgiblæ á ýmsa forna hluti - hluti, sem hafa verið lengi við líði og eiga sér sögu. Komi maður inn á forngripasafn, fellur hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.

Klukkan er strengjaklukka; er á hæð 1,8 m. Rauðmálaður trékassi yzt. Smíðuð hjá James Cowan í Edinburgh. Ártalið, nær hún var smíðuð, finst eigi letrað á hana. Skífan í ferhyrndri umgerð úr látúni; rósir og myndir stungnar í hornin. Ganglóðin tvö hvort alt að 6 kg. að þyngd. Prýðilegur frágangur á verki - getur enst aðra eins æfi enn. Sýnir mánaðardaga og sekúndur, hefir sýnt tunglkomu; það verk nú bilað.

H. Guðjónsson
frá Laxnesi.


Grein þessi birtist í Morgunblaðinu 7. nóvember 1916

.



© Morgunblaðið 1998.