Halldóri hafa hlotnast margvíslegar viðurkenningar á langri ævi:

Ef þér liggur lítið við

Halldóri Laxness var sýndur margs konar heiður heima og erlendis á löngum ferli. Þar ber Nóbelsverðlaunin árið 1955 hæst en meðal annarra viðurkenninga er honum hafa hlotnast má nefna bókmenntaheiðurspening Heimsfriðarráðsins árið 1953, viðurkenningu Þýsku listaakademíunnar í Berlín í mars árið 1955, Martin Andersen Nexö-verðlaunin dönsku í júní sama ár, Stórkross sænsku Norðurstjörnuorðunnar árið 1957 og Stórkross hinnar íslensku Fálkaorðu sama ár. Árið 1963 hlaut Halldór fyrstur Íslendinga bókmenntaviðurkenningu franska ríkisins og stórriddarakross henni tengdan. Hann hlaut Silfurhestinn, bókmenntaverðlaun dagblaðanna, fyrir Kristnihald undir Jökli 1968 og Sonning-verðlaunin árið 1969. Þá er Halldór heiðursborgari ýmissa borga Evrópu. og hefur verið sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við Åbo-háskóla í Finnlandi 1968, við heimspekideild Háskóla Íslands 1972, Edinborgarháskóla 1977 og Eberhard-Karls háskólann í Tübingen árið 1982.

Í ræðu sem Halldór flutti þegar hann hlaut heiðursdoktornafnbótina við Háskóla Íslands sagði skáldið: „Ég veit ekki hvort þessari heiðursnafnbót fylgir ius docendi, en hvað sem um það er þá veit háskólinn hvar mig er að finna og ég segi eins og gamla fólkið sagði stundum við mann: Nefndu nafn mitt, ef þér liggur lítið við.“





© Morgunblaðið 1998.