Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Mótmælafundur hernámsandstæðinga á Lækjartorgi haustið 1961. Hannes Sigfússon rithöfundur hafði þegar talað og flutt ræðu sína úr jeppanum sem sést á myndinni. Eftir það var hátalarakerfið rifið úr sambandi og brá seinni ræðumaðurinn, Ragnar Arnalds, á það ráð að klifra upp á þak jeppans og tala þaðan.

Hernaðarbandalög eiga sér enga framtíð

Hann fékk áhuga á stjórnmálum fjórtán ára og gerðist Þjóðvarnarmaður, varð ritstjóri Frjálsrar þjóðar liðlega tvítugur og síðan framkvæmdastjóri Samtaka hernámsandstæðinga. Björn Ingi Hrafnsson ræddi við Ragnar Arnalds, sem settist á þing 1963 sem andstæðingur Atlantshafsbandalagsins og herstöðva hér á landi og kveður nú þingheim með sömu hugsjónir að leiðarljósi.

EFTIR ríflega þriggja áratuga þingsetu hverfur Ragnar Arnalds nú af Alþingi. Hann var kjörinn á þing fyrir Alþýðubandalagið árið 1963, 24 ára að aldri, og þá þegar hafði hann getið sér orð sem einarður andstæðingur erlendra herstöðva hér á landi, fyrst sem ritstjóri Frjálsrar þjóðar og síðar sem framkvæmdastjóri Samtaka hernámsandstæðinga.

„Í framhaldi af því fór ég svo í framboð til Alþingiskosninga árið 1963 og hef verið í stjórnmálum síðan,“ segir Ragnar, sem kvaddi Alþingi einmitt á dögunum.

Megn andstaða í landinu
Ragnar minnir á að lýðveldið var aðeins átta ára gamalt árið 1952 þegar áhugi hans og margra annarra á þessum málum vaknaði.

„Okkur fannst að ekki væri sæmandi sjálfstæðri þjóð að hafa erlendan her í landinu og Ísland ætti að standa utan við hvers konar hernaðarbrölt. Hér hefur löngum verið mikil andúð á hermennsku og stríðsrekstri. Íslendingar hafa aldrei borið vopn á aðra þjóð og aldrei lotið heraga. Staða okkar Íslendinga, fortíð og hefð er öll önnur en flestra nálægra þjóða,“ segir Ragnar.

Þótt þjóðin hafi síðar skipst í tvær andstæðar fylkingar varðandi aðildina að NATO og veru herliðs hér á landi segir Ragnar að ekki hafi verið umdeilt að menn vildu herlaust land á friðartímum. Það hafi gilt um stjórnmálamenn úr öllum flokkum.

„Bandaríkjamenn höfðu hins vegar hug á því að koma hér upp varanlegum herstöðvum. Þeir báðu um leyfi til þess að setja upp stöðvar hér á landi til 99 ára. Þeirri kröfu mótmælti þjóðin og allir flokkar mjög kröftuglega.

Bandaríkjamenn létu framkvæma hér skoðanakönnun árið 1955 um afstöðu þjóðarinnar til hersetu hér á landi. Þá kom í ljós að 63% af þeim sem afstöðu tóku voru á móti herstöðvum, en 37% voru meðmælt. Þetta var fólk úr öllum stjórnmálaflokkum og það er t.d. hollt að minnast þess að jafnvel ungir sjálfstæðismenn gerðu samþykkt í október 1955 um að varnarsamningnum skyldi sagt upp. Það lýsir ástandinu vel.“

Mesta hitamálið
Ragnar segir þetta hafa verið langmesta hitamál síns tíma og fyrir því hafi einkum verið tvær ástæður. „Almenningur var undrandi og hneykslaður á því að það skyldu vera örlög okkar svo skömmu eftir stofnun sjálfstæðs lýðveldis að erlendur her settist hér að til frambúðar. Jafnframt var orðin slík umbylting í hernaðartækni að algjörlega ný viðhorf höfðu skapast. Vetnissprengjan kom til sögunnar með öllum sínum eyðingarmætti og síðan eldflaugin langdræga sem borið gat kjarnavopn hvert á land sem var.“

Ragnar segir að þá hafi menn allt í einu staðið frammi fyrir þeim ógnarveruleika að heimsbyggðin gæti hreinlega eyðst í kjarnorkubáli.

„Mönnum fannst að allt tal um varnir hefði breytt um merkingu. Varnir væru orðnar úreltar, stríð gætu jafnvel brotist út fyrir misskilning og þjóðir og lönd orðið að ösku einni fyrir slysni. Mönnum fannst að Íslendingar hefðu léð land sitt til að verða eitt helsta skotmarkið ef til hernaðar kæmi. Ísland var mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn, sem útpóstur hernaðarkerfis þeirra og þeim til varnar. En menn sáu ekki að Íslendingum væri mikil vörn í herstöðinni heldur kallaði hún árás yfir landið.“

Frá fyrstu Keflavíkurgöngunni í júní 1960. Ragnar sést ganga vinstra megin við hlið fánaberans.

Fyrsta Keflavíkurgangan
Skáld og listamenn voru áberandi í baráttunni á þessum fyrstu árum og höfðu oft forystu, að sögn Ragnars. „Þeir löðuðu ungt og kraftmikið fólk að baráttunni og ég kom t.d. fyrst að málum árið 1958 á vegum þverpólitískra samtaka rithöfunda og listamanna sem nefndust Friðlýst land.“

Samtökin Friðlýst land fóru nýstárlegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og skipulögðu m.a. fyrstu Keflavíkurgönguna 1960.

„Sú ganga þótti óvenjuleg,“ segir Ragnar og bendir á að menn hafi þá aðeins þekkt stuttar göngur sem farnar voru 1. maí hvert ár. „Hitt var óþekkt að menn tækju sig til og gengju heilan dag máli sínu til stuðnings. Andstæðingar okkar gerðu miklar tilraunir til að gera þessa göngu hlægilega, vonuðu auðvitað að þetta yrði fámennur hópur manna. Sannleikurinn varð hins vegar sá að strax í fyrstu göngunni varð feiknamikil þátttaka. Á þriðja hundrað manns gengu alla leiðina og á endasprettinum skipti fjöldinn mörgum þúsundum. Fundirnir í lokin voru með þeim stærstu sem hér voru haldnir á þessum tíma.“

Eftir Keflavíkurgöngur og aðrar útisamkomur herstöðvaandstæðinga mátti jafnan ganga að því vísu að í brýnu slægi milli þeirra og stuðningsmanna hersins. Ragnar segir að þetta hafi verið orðin hefð. „Ungir stuðningsmenn hersetunnar mættu á staðinn til að hleypa upp samkomunni og gera einhvern óskunda. Oft urðu einhver átök, aðallega eftir að fundahöldum lauk.“

Ragnar kannast hins vegar aðspurður ekki við að andstæðingar hersetunnar hafi goldið í sömu mynt. „Nei, enda voru engir stórir fundir, hvorki útifundir né fjöldaaðgerðir.“

Ekki byltingarsinnar

Eftir útifundi hernámsandstæðinga hentu stuðningsmenn varnarsáttmálans oft grjóti að húsnæði Sósíalistaflokksins í Tjarnargötu 20. Hér er lögreglan að glíma við nokkra þeirra.

Stuðningsmenn herliðs hér á landi og einkum aðildar Íslands að NATO voru einnig fjölmargir og oft laust þessum fylkingum saman. Ragnar viðurkennir að oft hafi hann verið sakaður um að vera hendbendi kommúnista og byltingarsinni.

„Slíkar upphrópanir voru auðvitað áróður. En það er rétt, þeir sem vildu hafa her í landinu afgreiddu andstæðinga sína sem kommúnista eða byltingarseggi. Því fór auðvitað víðsfjarri og andstaðan var í öllum flokkum, ekki síst í Framsóknarflokknum. Hann var þverklofinn í málinu og hið sama gilti t.d. um Alþýðuflokkinn. Mjög margir sjálfstæðismenn voru einnig í samtökum gegn herstöðvum.“

Þannig að hugmyndin hefur ekki verið að koma að sovéskum her í stað þess bandaríska?

„Nei, vitaskuld ekki. Við fengum hins vegar oft að heyra kenningar sem þessa, sem auðvitað var og er ekkert annað en ódýr og ómerkileg áróðursklisja. Við höfðum ekki í hyggju að rýma til fyrir öðrum.“

Ragnar telur að áhrif þeirra aðgerða sem fylgdu í kjölfar stofnunar Samtaka hernámsandstæðinga og Þingvallafundar hafi varað mjög lengi.

„Samtökin höfðu mikil áhrif inn í Framsóknarflokkinn. Andstæðingar hersetunnar komust í meirihluta í Sambandi ungra framsóknarmanna og þar voru á ferðinni ungir menn sem mikið kvað að, m.a. Ólafur Ragnar Grímsson og Baldur Óskarsson, sem síðar stofnuðu Möðruvallahópinn. Þessi kynslóð kom fersk að baráttunni og naut mikils fylgis innan flokksins. Eftir kosningarnar 1971 tók flokkurinn svo þátt í að mynda stjórn undir forystu Ólafs Jóhannessonar með Alþýðubandalagi og Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna þar sem brottför hersins var á stefnuskránni.“

Landhelgismálið fær forgang
Annað stórt mál átti þó eftir að fanga athygli Íslendinga, því þeir máttu berjast fyrir útvíkkun landhelginnar og lentu í miklu karpi við Bretaveldi, eitt af forysturíkjum Atlantshafsbandalagsins. „Mörgum Íslendingum fannst undarlegt að veran í NATO kæmi ekki að meiri notum en raun bar vitni,“ segir Ragnar aðspurður um þorskastríðið við Breta og baráttuna um landhelgina. „En ríkisstjórnin treysti sér ekki til að hafa tvö erfið utanríkismál á oddinum samtímis og herstöðvamálið vék því fyrir landhelgismálinu. Málið var þó ekki tekið af dagskrá og veturinn 1974 náðist loks samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um að leggja til við Bandaríkjamenn að brottflutningur hersins yrði hafinn í áföngum og seinustu hermennirnir færu fyrir árslok 1975.“

Málið var því komið á úrslitastig, segir Ragnar, en atvikin höguðu því þannig að ágreiningur um stjórn efnahagsmála sprengdi stjórnina vorið 1974, ári fyrr en átti að kjósa. Við tók ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks og herstöðvamálið var tekið út af dagskrá.

„Samkomulagið kom því aldrei til framkvæmda. Þarna lá þó ansi nærri að herinn hyrfi á brott, en að vísu áttu Bandaríkjamenn að hafa áfram lendingaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli.“

Persónuleg vonbrigði
Sú spurning hlýtur að vakna hvort ekki séu persónuleg vonbrigði fyrir mann sem settist á þing 1963 með andstöðuna við NATO og herstöðina að leiðarljósi að kveðja sömu stofnun árið 1999 þegar Íslendingar eru enn aðilar að bandalaginu og hermenn eru ekki á förum af Miðnesheiðinni, það vitað er?

Ragnar brosir að spurningunni, kannski hefur hann átt von á henni. „Jú,“ svarar hann svo. „Auðvitað hefði ég kosið að Ísland væri fyrir löngu orðið herlaust land. En málið hefur horfið í skuggann af öðrum málum með tíð og tíma og fólki finnst það ekki skipta eins miklu máli og áður. Baráttan gegn herstöðvunum hefur þó alltaf gengið í bylgjum, risið og hnigið og risið á ný. Svo verður áfram.“

Eftir öll þessi ár. Er þingmaðurinn enn jafn sannfærður í afstöðu sinni?

„Upphaflega kom herinn hingað til hjálpar Englendingum í baráttunni við nasista og seinna fékk hann að sitja með þeim rökum að nýtt stríð væri hafið: kalda stríðið. Því stríði er nú löngu lokið og því er hersetan fáránleg tímaskekkja sem hlýtur senn að verða leiðrétt. Ég er einnig sannfærður um að hernaðarbandalög eiga enga framtíð fyrir sér.“

Ragnar bætir þó við að aðild Íslands að NATO og herseta hér á landi á friðartímum sé ekki sama málið og þeir hafi alltaf verið miklu fleiri sem stutt hafi aðildina að NATO en veru Bandaríkjamanna á Miðnesheiði.

„Þetta voru tveir samningar, tvö aðskilin mál frá upphafi.“

En er ástæða til að sjá eftir einhverju?

„Nei, það held ég ekki. Ég er stoltur af framlagi mínu til þessarar baráttu og vildi svo sannarlega ekki hafa það á annan veg.“

En öll þessi barátta og andstaða við herinn. Skilaði hún einhverju?

„Hún skilaði miklum árangri. Það er t.d. þekkt og viðurkennd staðreynd að Bandaríkjamenn höfðu hug á því að reisa hér varaflugvöll á Rangárvöllum, því þeir óttuðust að Keflavíkurflugvöllur yrði sprengdur í loft upp kæmi til kjarnorkustríðs og vildu því reisa hér varaflugvöll. Eins höfðu þeir hug á því að koma upp skotheldum byrgjum fyrir kjarnorkukafbáta í Hvalfirði. Þessi áform urðu að engu vegna þess að andstaðan við þau var svo mögnuð og almenn í landinu. Bandaríkjamenn gerðu sér grein fyrir því að Íslendingar væru ótryggir bandamenn og lögðu þess vegna ekki út í gríðarlegan kostnað sem þessu hefði fylgt.

Andstaðan gegn hersetunni gegnum tíðina varð því til þess að hér voru ekki byggðar þær voldugu herstöðvar sem til stóð. Þær voru þess í stað settar upp t.d. í Bretlandi og á Grænlandi, samanber kjarnorkuherstöðina í Thule.“

Ragnar hverfur nú af Alþingi sem fulltrúi hinnar nýju Samfylkingar. Þar virðist ekki sem utanríkismálin séu sett á oddinn og margir fulltrúar hennar eru taldir stuðningsmenn herstöðvarinnar og NATO fremur en hitt.

„Þótt Samfylkingin hafi ekki brottför hersins á stefnuskrá sinni þýðir það ekki að Alþýðubandalagsmenn innan Samfylkingarinnar hafi skipt um skoðun. Það er einfaldlega viðurkennd staðreynd að innan Samfylkingarinnar er ágreiningur um málið, eins og raunar í mörgum öðrum stjórnmálaflokkum hér á landi. Samfylkingin setur ekki brottför hersins á oddinn á næsta kjörtímabili þar sem sú stefna er fjarri því að njóta þingmeirihluta í svipinn. Samfylkingin hefur þó lýst þeim vilja sínum að þetta mál verði tekið upp til ítarlegrar skoðunar í ljósi gerbreyttra aðstæðna.“

Hernaðarmáttur NATO ekki lykillinn
Því verður ekki á móti mælt að margt, ef ekki flest, hefur breyst síðan Ragnar flutti jómfrúræðu sína. Kalda stríðið er afstaðið, Þýskaland sameinað á ný, Varsjárbandalagið og Sovétríkin úr sögunni og úausturblokkin“, sem kölluð er, hefur tekið algjörum stakkaskiptum.

„Við hrun Berlínarmúrsins og sigur lýðræðishreyfingarinnar í Austur-Evrópu var algengt að heyra því fleygt af ýmsum frammámönnum Atlantshafsbandalagsins og stuðningsmönnum hersetunnar að hernaðarmáttur NATO hefði valdið þessum breytingum. Þetta held ég að sé mikill misskilningur. Ástæðan var miklu fremur þíðan í samskiptum austurs og vesturs. Skriður komst ekki á breytingar til hins betra í A-Evrópu fyrr en slaknaði á samskiptum risaveldanna. Það var einmitt kalda stríðið sem hindraði framgang lýðræðisins í A-Evrópu.

Sú þróun hefði orðið miklu fyrr ef hernaðarbandalög austurs og vesturs hefðu verið lögð niður og samtök Sameinuðu þjóðanna hefðu verið endurskipulögð til að tryggja frið og öryggi. Enn í dag stendur NATO í vegi fyrir því að Sameinuðu þjóðirnar fái gegnt því hlutverki sem þeim var ætlað í upphafi. Atlantshafsbandalagið er á háskalegum villigötum um þessar mundir. Þegar kalda stríðinu lauk gafst einstakt tækifæri til að treysta samstarf ríkja í austri og vestri á sviði öryggismála. Þess í stað var áhersla lögð á útþenslu NATO til austurs. Aðgerðir NATO, ekki síst nú síðast með loftárásum á fullvalda ríki á Balkanskaga, espa upp Rússa og bandamenn þeirra gegn vestrænum ríkjum. Auðvitað er ofbeldi Serba í Kosovo óafsakanlegt. En ég óttast að loftárásirnar geri aðeins illt verra og eitri út frá sér. Heiminum verður ekki stjórnað af viti með loftárásum og morðhótunum sjálfskipaðrar heimslögreglu. Að mínu mati er nú brýnast í heimsmálunum að byggja upp svæðisbundin öryggisbandalög á vegum Sameinuðu þjóðanna sem tryggi frið í hverjum heimshluta. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, ÖSE, er vísir að slíku bandalagi hér á norðurhveli jarðar,“ segir Ragnar Arnalds.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO