Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Okkur ber að leggja okkar skerf af mörkum til að friður haldist

Ræða Bjarna Benediktssonar við setningu ráðherrafundar NATO í Reykjavík

Heiðursforseti, framkvæmdastjóri, hæstvirtu ráðherrar, konur og karlar.

Ég býð okkar erlendu gesti alla innilega velkomna hingað til lands, þar sem við Íslendingar höfum nú búið í nær ellefu hundruð ár. Á þessum öldum hefur okkur vegnað misjafnlega vel, og lengi vorum við háðir yfirráðum annarra. En þrátt fyrir fámenni þjóðarinnar og lítil efni lengst af, hélt hún ætíð vitund um sitt sérstaka þjóðerni og bar ríka frelsisþrá í brjósti. Nú hefur þeirri þrá fengizt fullnægt og þótt okkur Íslendinga greini á um margt erum við allir sammála um, að sjálfstæði okkar megum við ekki glata á ný.

Þá er ekki nema að vonum, að ýmsir spyrji, hvort svo fámennur hópur, einungis 200 þúsund menn geti raunverulega haldið uppi sjálfstæðu þjóðfélagi og ríki og þá einkum í jafn víðlendu og að ýmsu leyti erfiðu landi og Íslandi. Þeirri spurningu er bezt svarað með því, að sjón er sögu ríkari. Þess vegna er okkur mikill fengur að því, að svo margir áhrifamiklir menn og hér eru saman komnir skuli heimsækja okkur og kynnast því að þrátt fyrir marga vankanta, þá hefur okkur tekizt að skapa og halda uppi þjóðfélagi, sem þolir samanburð við aðrar vestrænar þjóðir.

Játa verður, að ein af orsökunum til þess, að við getum hér haldið uppi sambærilegum lífskjörum við aðra í Vestur-Evrópu, er, að við höfum aldrei lagt fé til hernaðarþarfa, ekki einu sinni til varnar sjálfu landi okkar. Til þessa liggja ýmsar skýringar, ekki sízt, sú, að áður fyrri var lega landsins, fjarlægð þess úti í reginhafi langt úr alfaraleið, þess bezta vörn. Nú eru þau viðhorf breytt, en þá kemur hitt til, að mannfæð okkar er svo mikil, að varnarkraftur okkar sjálfra mundi harla lítils verður, ef ráðizt væri á landið. Atburðir síðustu heimsstyrjaldar skáru hins vegar úr um hernaðarþýðingu landsins og síðan hefur ekkert gerzt, sem úr henni hafi dregið.

Við Íslendingar komumst því ekki fremur en aðrir hjá því að tryggja öryggi og varnir lands okkar svo sem öllum fullvalda ríkjum ber skylda til.

Fyrst eftir styrjöldina vonuðum við, að þá tryggingu væri hægt að fá með aðild að Sameinuðu þjóðunum. Reynslan skar skjótlega úr, að svo varð ekki. Þess vegna gerðumst við stofnaðilar að Atlantshafsbandalaginu, og sjálfur tel ég mér það mikinn heiður að hafa undirritað stofnsamning þess fyrir hönd lands míns.

Auðvitað hefur margt breytzt í heiminum á þeim tæpu tuttugu árum, sem liðin eru frá því, að Atlantshafsbandalagið var stofnað og sjálfsagt er, að aðilar endurskoði afstöðu sína til þess þegar tuttugu ára samningstíminn er liðinn, eins og stofnsamningurinn sjálfur heimilar. En um það verður ekki deilt, að Atlantshafsbandalagið hefur náð þeim megintilgangi, sem því var ætlaður, að tryggja friðinn í þessum hluta heimsins. Því markmiði hefur ekki einungis tekizt að ná, heldur einnig að draga verulega úr þeirri spennu, sem áður ríkti á þessum slóðum. Þó að á ýmsu hafi gengið, þá hefur einkum hin síðari misseri verulega miðað í þá átt að draga úr hindrunum gegn samgangi þjóða í Evrópu jafnt í samskiptum manna á milli og í menningu, enda fer gagnkvæmur skilningur smámsaman vaxandi. Vissulega hörmum við allir þær vegatálmanir, sem nýlega hafa verið settar milli Berlínar og annarra hluta Sambandslýðveldisins þýzka, en þær eru enn eftirtakanlegri vegna þess, að þær brjóta algerlega í bága við allsherjarstefnu. Einkanlega ber að fagna aukinni samvinnu og nú beinni samningsgerð milli Bandaríkjanna og Sovét-Samveldisins, því að undir samstarfsmöguleikum þessara meginvelda er velferð okkar allra komin. Hinar betri horfur eru því eftirtektarverðari sem þriðji fjórðungur 20. aldar hefur réttilega verið nefndur tími áður óþekkts og nær stöðugs ofbeldis og endurtekinn ófriður hefur átt sér stað í öðrum hlutum heims. Enginn efi er á, að öryggið og jafnvægið, sem Atlantshafsbandalagið hefur skapað, á verulegan þátt í, að betur hefur til tekizt hér.

Með þessu er ekki sagt, að Atlantshafsbandalagið eigi að standa að eilífu og enn síður, að engar breytingar á því komi til greina. En fráleitt væri að leggja það niður eða hverfa úr því nema önnur jafntrygg skipan komi í staðinn. Og enn fráleitara væri, ef einhverjum kemur til hugar, eftir reynslu tveggja heimsstyrjalda, sem báðar hófust vegna sundrungar Evrópu og afskiptaleysis Bandaríkjanna í fyrstu, að unnt sé að leysa öryggismál Evrópu í fyrirsjáanlegri framtíð án atbeina og þátttöku þeirra.

Varðandi land mitt er það að vísu svo, að við höfum sérstakan varnarsamning innan Atlantshafsbandalagsins við Bandaríkin en það fer alveg eftir mati okkar sjálfra á heimsástandinu þegar þar að kemur, hversu lengi bandarískt lið dvelur á Íslandi. Því að ég vil, að það komi alveg skýrt fram, að í öllum þeim skiptum, sem Íslendingar hafa nú í rúman aldarfjórðung átt við Bandaríkjamenn út af vörnum lands okkar, þá hafa þeir aldrei látið okkur kenna aflsmunar, þótt þeir séu voldugasta stórveldi heims en við hinir fámennustu og alls ómegnandi að verja okkur sjálfir. Þrátt fyrir sinn mikla mátt hafa Bandaríkjamenn jafnt í orði sem verki stöðugt virt jafnrétti og fullveldi Íslands.

Þótt fáir séum, vitum við ofur vel, að okkur jafnt sem öðrum ber að leggja okkar skerf af mörkum til að friður haldizt í heiminum. Við, sem lifað höfum tvær heimsstyrjaldir, höfum því miður enga ástæðu til slíkrar bjartsýni að ætla að friður haldist fyrirhafnar- og samtakalaust. Einmitt reynsla fyrstu þriggja fjórðunga 20. aldar hlýtur að sannfæra okkur um, að friðurinn sé þess virði, að mikið sé leggjandi í sölur til að hann haldist.

Megi störf þessa fundar verða til að auka samheldni og styrk samtaka okkar og þar með efla friðarhorfur í heiminum.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO