Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

Hlutleysið kvatt

Eftir ÞÓR WHITEHEAD

JÓSEF Stalín á grafhýsi Leníns í Moskvu. Honum á vinstri hönd er Molotov utanríkisráðherra.

Á KREPPU- og stríðsárunum 1931-1940 horfðu Íslendingar upp á, hvernig einræðisríki í útþensluham, Japan, Ítalía, Sovétríkin og Þýskaland, einangraðu hvert landið á fætur öðru og sölsuðu undir sig með hervaldi. Hlutleysi reyndist sem fyrr einskis virði, þegar herveldi vildu leggja undir sig veikari ríki til lengri eða skemmri tíma.

Íslendingar höfðu sjálfir lýst yfir „ævarandi hlutleysi“, þegar þeir fengu fullveldi frá Dönum 1918. Þeir treystu því, að fjarlægðir úthafsins og máttur breska flotans á Atlantshafi skýldu landinu fyrir áleitni ásælinna meginlandsríkja. Þegar Bretar hernámu Ísland 1940, sýndist ljóst, að lítið skjól væri eftir í fjarlægðinni og flotaverndin væri ótraust vegna nýrrar hernaðartækni, einkum flugsins. Ríkisstjórn Íslands mótmælti hernáminu, en vann með Bretum leynt og ljóst, vegna þess að henni var fyrir mestu að hindra innrás þýskra nasista og tryggja lífsnauðsynleg viðskipti við Bretland.

Ári síðar, 1941, tók ríkisstjórnin boði Bandaríkjastjórnar um hervernd að ósk Breta, sem þá áttu mjög undir högg að sækja í stríðinu. Með því að semja við Bandaríkjamenn viku Íslendingar opinberlega frá hlutleysi sínu bæði í eigin þágu og Bandamanna. Hlutleysi var ekki lengur í samræmi við öryggishagsmuni þeirra og lífsbjargarviðleitni og ráðamenn skildu, að frelsi þjóðarinnar og framtíð lýðræðis í Evrópu væru undir ósigri Hitlers komin. Örlög Íslendinga væru samofin örlögum nágrannaþjóðanna, sem áttu lífæðar sínar að verja á Atlantshafi.

Næstu ár stuðluðu flug- og flotabækistöðvar Bandamanna á Íslandi mjög að sigri þeirra á þýska kafbátaflotanum. Sá sigur gaf Vesturveldunum viðspyrnu til að ráðast á landveldi Hitlers, og í þeim átökum reyndust flugbækistöðvar á Íslandi einnig hafa ómetanlegt gagn fyrir birgða- og ferjuflug frá Vesturheimi.

Ný ógn í augsýn
Styrjöld lauk með falli nasismans, en við Íslendingum blasti álfa í sárum og langur tími virtist geta liðið þar til atvinnulíf blómgaðist að nýju. Menn óttuðust hrun utanríkisverslunarinnar, eins og hún hafði þróast í samstarfi við Vesturveldin; nýja kreppu með atvinnuleysi, fátækt og skorti.

EYSTEINN Jónsson var fulltrúi Framsóknarflokksins í þriggja manna ráðherranefnd sem fór til Washington í mars 1949, einkum til að fylgja eftir fyrirvörum Íslendinga á lokastigum stofnunar Atlantshafsbandalagsins.

Þegar litið var til meginlandsins, sýndist fæstum þar friðvænlegt, þótt stríðinu væri lokið. Sovétherinn hafði lagt undir sig mest alla Mið- og Austur-Evrópu og þaðan bárust ógnvænleg tíðindi: Kommúnistar seildust til valda, víðast í skjóli sovéskra hersveita, og beittu andstæðinga sína vaxandi harðræði í anda Stalíns. Frönskum sagnfræðingum telst nú svo til, að um ein milljón manna hafi látið lífið fyrir hendi kommúnista í stjórnartíð þeirra í þessum hluta álfunnar, en um tuttugu milljónir manna í Sovétríkjunum. Í stríðslok þræluðu auk þess milljónir manna í „vinnubúðum“ Stalíns við ólýsanlegar aðstæður. Glæpir nasista eru alræmdir og sífellt til umræðu, en færri vita, að ógnarverk kommúnista voru miklu mannskæðari, þótt ríki þeirra nytu hylli margra fremstu andans manna á Vesturlöndum. Ekki vantaði samt upplýsingar um raunveruleikann austan tjalds.

Í Vestur-Evrópu, þar á meðal á Íslandi, höfðu kommúnistar víða eflst mjög. Þeir sátu í ríkisstjórnum og þóttust allsstaðar eiga framtíðina fyrir sér. Í Moskvu var stjórnsetur kommúnistahreyfingar heimsins, sem dýrkaði leiðtoga sinn, Stalín, af trúarhita. Á Íslandi réðu kommúnistar fyrir Sósíalistaflokknum, fyrirrennara Alþýðubandalagsins. Í stefnuskrá flokksins var gert ráð fyrir því, að hann kynni að grípa völd í landinu með ofbeldi, þótt meirihluti kjósenda hans hafi eflaust verið frábitinn byltingu og krafa um samvinna allra þjóðfélagsstétta væri nú efst á dagskrá flokksins. Kommúnistar sögðu Sósíalistaflokkinn óháðan erlendu valdi, en gögn, sem fram hafa komið eftir fall Sovétríkjanna, sanna það, sem margir töldu augljóst, að flokksforingjarnir tóku bæði við stefnufyrirmælum og fjárhagsstuðningi frá Moskvu.

Í stríðslok höfðu Sovétríkin þanist út í Evrópu og Asíu, en gerðu samt frekari landakröfur á hendur sumum nágrannaríkjum sínum. Ekkert jafnvægi var lengur með stærri ríkjum Evrópu, svo feikiöflugt var sigursælt herveldi Stalíns þrátt fyrir gífurlegt tjón í ófriðnum. „Hlutverk mitt sem utanríkisráðherra“, sagði Molotoff utanríkisráðherra Stalíns síðar, „var að víkka út landamæri föðurlands okkar“: Sovétríkin „voru í sókn“.

Bandaríkjamenn virtust hafa afl til mótvægis, en þeir voru að mestu á förum heim frá Evrópu og leystu upp megnið af herafla sínum á örskömmum tíma. Bandaríkjamenn einir réðu yfir ógnarvopninu nýja, kjarnorkusprengjunni, en menn spurðu: Gat tvíeggjaður eyðingarmáttur hennar fælt sovétstjórnina frá frekari útþenslu vestur á bóginn?

Í lýðræðisflokkunum íslensku, sem svo nefndu sig til aðgreiningar frá Sósíalistaflokknum, virtist mörgum ráðamönnum allt stefna í harða baráttu og jafnvel nýja styrjöld á milli Vesturveldanna og Sovétríkjanna. Kalda stríðið var að hefjast og flestir forystumenn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks töldu reynsluna sýna, að Ísland fengi ekki staðið utan við komandi átök vegna hernaðarmikilvægis landsins. Þegar á haustdögum 1945 virtist meirihluti alþingismanna hlynntur því, að Vesturveldin héldu hér fámennu varnarliði, á meðan heimsmálin skýrðust, og tryggðu um leið óbreytt utanríkisviðskipti og rekstur Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvallar. Öryggismál og viðskiptamál voru nátengd á þessum tíma sem oftar. En þvert á vilja Ólafs Thors forsætisráðherra óskuðu Bandaríkjamenn nú eftir því að taka hér á leigu þrjár herstöðvar til langs tíma (99 ára). Þessi beiðni var með öllu óaðgengileg fyrir meirihluta þingmanna, en með henni var Sósíalistaflokknum og fylgismönnum hefðbundins hlutleysis gefið einstakt sóknarfæri. Þorri manna var augljóslega andvígur herstöðvasamningi til langs tíma, þegar hersetu styrjaldaráranna virtist loks að linna, og í huga margra Íslendinga tengdist hlutleysisstefnan enn sjálfstæði og fullveldi þjóðarinnar. Kommúnistar og hlutleysissinnar skírskotuðu líka óspart til þjóðerniskenndar og fullyrtu, að herstöðvasamningur við Bandaríkjamenn mundi eyðileggja sjálfstæði Íslendinga, þjóðerni þeirra og menningu á friðartímum, en leiða yfir þjóðina bráðan dauða í kjarnorkustyrjöld. Alþýðuflokkur, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur voru sjálfum sér sundurþykkir og hættu ekki á að andmæla þessum málflutningi, þar sem Bandaríkjastjórn hélt fast við fráleitar kröfur. Þegar kosið var til Alþingis sumarið 1946, hafði Sósíalistaflokknum tekist að knýja flokkana þrjá til að heita því, að hér yrðu engar herstöðvar leyfðar á „friðartímum“.

Eftir kosningar lánaðist Ólafi Thors að gera svonefndan Keflavíkursamning við Bandaríkjastjórn, sem lofaði að flytja héðan allan herafla sinn, en láta bandarískt flugfélag reka Keflavíkurflugvöll með íslenskum stjórnvöldum. Áhrifamenn í flokkunum þremur, sem kenndu sig við lýðræði, litu á þennan samning sem málamiðlun við Bandaríkjastjórn. Þeir töldu, að aðild Bandaríkjamanna að flugvallarrekstrinum og umferð herflugvéla um Keflavíkurvöll mundi veita landinu lágmarksvernd á hættutímum og viðskiptavild Vesturveldanna á erfiðu skeiði. Hlutleysi hefði sannað gagnsleysi sitt, til þess yrði ekki aftur snúið. Miðað við stjórnmálaaðstæður í landinu, yrði utanríkisstefnan samt að þræða eins konar meðalveg á milli hlutleysis og bandalags við Vesturveldin. Sósíalistaflokkurinn og hlutleysissinnar fordæmdu Keflavíkursamninginn hins vegar sem landráða- og landsölusamning og fullyrtu með nokkrum sanni, að Bandaríkjamenn héldu dulbúinni herstöð á flugvellinum.

EMIL Jónsson, þáverandi utanríkisráðherra, fer í gegnum öryggishlið á NATO-fundi í Brussel árið 1966. Til vinstri er Henrik Sv. Björnsson þáverandi fastafulltrúi Íslands hjá bandalaginu.

Vonir manna um, að Keflavíkursamningur tryggði öryggi Íslands dofnuðu mjög innan tíðar. Í ársbyrjun 1948 hrifsuðu kommúnistar völdin í Tékkóslóvakíu og um vorið lagði Stalín samgöngubann á Vestur-Berlín á landi. Mikill stríðsótti greip um sig á Vesturlöndum og ráðamenn uggði, að sovétherinn hygði á bráða framsókn vestur á bóginn með tilstyrk kommúnistaflokkanna. Í raun vann Stalín að því að færa út veldi sitt og sinna manna eftir því sem viðstaða leyfði, en vildi forðast nýja heimsstyrjöld, sem hann taldi næsta óhjákvæmilega, þar til Sovétríkin næðu sér eftir síðasta ófrið.

„Hugmyndafræði okkar“, sagði Molotoff, „miðast við að sækja fram, þegar þess er kostur, en ella bíðum við“ færis.

Stórveldin stóðu nú engu að síður andspænis hvort öðru í Þýskalandi og hætta var á átökum. Hér sáust ókunnar flugvélar á lofti yfir Keflavík, mikill sovéskur síldveiðifloti birtist fyrir Norðurlandi og grunsemdir voru um, að sovéskir erindrekar könnuðu landið, hugsanlega í því skyni að ætla að hremma það. Víst er, að nú sagði varnarleysi landsins aftur til sín líkt og fyrir hernám Breta 1940. Sjálfstæðismaðurinn Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra ráðfærði sig við bandaríska sendiherrann, sem taldi strjála umferð bandarískra herflugvéla um landið enga vörn gegn skyndiárás eða valdaráni og varaði við því, að kapphlaup gæti hafist hingað á stríðstímum að óvörðum flugvöllum. Ríkisstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks undir forsæti jafnaðarmannsins Stefáns Jóhanns Stefánssonar hóf að ræða, hvort leita bæri eftir hervernd Bandaríkjamanna.

Í leit að vörn
Sjö vestræn ríki hófu um svipað leyti að ræða stofnun varnarbandalags og í desember 1948 föluðust þau eftir þátttöku Íslendinga. Ríkisstjórnin eygði hér lausn á öryggisvanda Íslands: Gagnkvæm heit vestrænna lýðræðisríkja um hjálp gætu afstýrt því að einræðisöfl reyndu aftur að ráðast á fórnarlömb sín eitt af öðru. En ríkisstjórnin vildi vita, hvaða skyldur fælust í bandalagssáttmálanum og tvennt yrði að liggja ljóst fyrir, áður en Íslandi yrði formlega boðin aðild: 1) Að frændþjóðirnar, Norðmenn og Danir yrðu í bandalaginu. 2) Að engar kvaðir yrðu lagðar á Íslendinga um að hervæðast eða leyfa herstöðvar í landinu á friðartímum.

Viðskiptamál komu hér ekki við sögu, því að Bandaríkjastjórn hafði áður boðið Evrópuríkjunum efnahagsaðstoð (Marshall-hjálp). Íslendingar voru að búast til þátttöku í viðskipta- og endurreisnarsamstarfi þeirra gegn mótmælum og landráðabrigslum Sósíalistaflokksins, sem einkum vildi byggja á „kreppulausum“ mörkuðum austantjaldsríkja.

Það dróst fram á árið 1949, að sjöveldin tækju hér upp þráðinn, en á meðan geisuðu í landinu einhver hatrömmustu stjórnmálaátök Íslandssögunnar. Sósíalistaflokkurinn og Þjóðvarnarhreyfingin (hlutleysissinnar) höfðu blásið til sóknar gegn inngöngu í væntanlegt bandalag með svipuðum málflutningi og 1945-1946, en stjórnarliðar höfðu snúist til varnar af miklum móð.

Í mars 1949 komst stofnun Atlantshafsbandalagsins á lokastig og víst var, að Norðmenn og Danir yrðu þátttakendur. Nefnd skipuð þremur ráðherrum, Bjarna Benediktssyni, Emil Jónssyni, Alþýðuflokki, og Eysteini Jónssyni, Framsóknarflokki, flaug í skyndi til Washington, einkum til að fylgja eftir fyrirvörum um, að Íslendingar þyrftu hvorki að hervæðast né leyfa herstöðvar á friðartímum.

STEFÁN Jóhann Stefánsson fór fyrir ríkisstjórn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks sem hóf árið 1947 að ræða hvort leita bæri eftir hervernd Bandaríkjamanna. Á myndinni sem tekin var árið 1949 er Stefán Jóhann Stefánsson ásamt þremur öðrum forsætisráðherrum Norðurlanda sem einnig voru jafnaðarmenn. Frá vinstri Stefán Jóhann Stefánsson, Einar Gerhardtsen Noregi, Hans Hedtoft Danmörku og Tage Erlander frá Svíþjóð.

Í ljós kom, að bandalagsríkin samþykktu fyrirvara Íslendinga, en bandarískir herforingjar gerðu ráðherrum grein fyrir því, að sovétherinn væri líklegur til að reyna að hremma óvarða flugvelli í Keflavík og Reykjavík í upphafi stríðs eða valda á þeim spjöllum með skemmdarverkum. Þannig yrði reynt að hindra, að Bandaríkjamenn gætu notað flugvellina á fyrstu styrjaldardögum, sem kunnu að skipta sköpum um, hvort sovéthernum tækist að leggja undir sig meginlandið í leiftursókn, áður en bandaríkjaher gat sent liðsauka á vettvang og hafið loftárásir á Sovétríkin. Bandaríkjamenn sögðust þó aldrei geta þolað sovésku árásarliði að sitja hér til lengdar og mundu beita öllu afli til að vinna bug á því.

Þetta hættumat, sem herforingjar veittu svikalaust, benti til þess, að þéttbýlasti hluti Íslands gæti hæglega orðið vettvangur grimmilegustu hermdarverka og styrjaldarátaka, nema landsmenn sjálfir reyndu að afstýra því. Leiðin til þess, sögðu herforingjar, væri sú, að Íslendingar gættu flugvallanna og tækju þátt í varnaráætlunum Atlantshafsbandalagsins. Þannig yrði unnt að senda hingað tafarlaust herafla til varnar, ef þörf krefði. Með þessar upplýsingar í farteskinu flugu ráðherrarnir þrír heim og 30. mars samþykkti Alþingi með miklum meirihluta atkvæða, að Ísland tæki þátt í stofnun Atlantshafsbandalagsins. Með því vonuðust þingmenn í senn til að treysta öryggi landsins og leggja sitt af mörkum til að reisa öflugan varnarvegg, sem heft gæti frekari ásókn sovétveldisins í álfunni og komið í veg fyrir þriðju heimsstyrjöldina í bráð og lengd. Íslendingar höfðu endanlega skilið við hlutleysi í ljósi biturrar reynslu.

Í hönd fóru hörð átök kalda stríðsins og hrun sovétveldisins, en í Evrópu vestanverðri nutu menn lengsta friðar- og hagsældarskeiðs sögunnar. Þetta hálfrar aldarskeið mun ævinlega verða tengt nafni Atlantshafsbandalagsins, sem stóð vörð um frið og frelsi Vesturlandamanna í veröld, þar sem ófriður og ófrelsi hefur lengst af verið hlutskipti þorra jarðarbúa. Þess skyldu menn minnast, þegar þeir fagna tímamótum í sögu bandalagsins við hlið nýfrjálsra þjóða Austur- og Mið-Evrópu.


Grein þessi er einkum byggð á eftirtöldum ritsmíðum höfundar: „Lýðveldi og herstöðvar“, Skírnir CL (1976). „Leiðin frá hlutleysi“, Saga XXIX (1991).
„Raunsæi og þjóðernishyggja“, Uppreisn frjálshyggjunnar (1979). The Ally Who Came in from the Cold. A Survey of Icelandic Foreign Policy 1946-1956 (1998).
Sjá einnig: Molotov Remembers: Inside Kremlin Politics: Conversations with Felix Chuev, Albert Resis sá um útgáfuna (1993).


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO