Kynfræðsla þyrfti að byrja fyrr og vera oftar

Indíana Rós Ægisdóttir skrifaði BS-ritgerð um sjálfsfróun kvenna.
Indíana Rós Ægisdóttir skrifaði BS-ritgerð um sjálfsfróun kvenna. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Indíana Rós Ægisdóttir heldur reglulega fyrirlestra fyrir unglinga þar sem hún fjallar um kynlíf, sjálfsfróun og sitthvað fleira. Að hennar mati má gera betur þegar kemur að kynfræðslu ungmenna, enda lítið fjallað um samskipti og almenna vellíðan í kynlífi. 

„Þetta er í rauninni kynfræðsla, en útgangspunkturinn er sjálfsfróun. Mér finnst mjög mikilvægt að halda þessa fyrirlestra því þegar ég var í kynfræðslu var mest fjallað um samfarir einstaklinga með typpi og píkur og hvernig maður getur orðið óléttur. Svo var maður hvattur til að nota smokka til þess að fá ekki kynsjúkdóm. Það vantaði alla umfjöllun um hvernig maður átti að láta sér líða vel í kynlífi, og eins var ekkert fjallað um fullnægingar kvenna,“ segir Indíana Rós og bætir við að í staðinn hafi gjarnan verið einblínt á að stelpur færu á blæðingar og myndu eignast börn.

„Mér fannst því vanta fræðslu um vellíðan kvenna í kynlífi. Að kynlíf sé ekki bara til að eignast börn. BS-ritgerðin mín í sálfræði fjallaði um sjálfsfróun kvenna, en ég komst að því fáir höfðu fengið fræðslu um málefnið. Þetta er eitthvað sem allir eru að gera, en enginn talar um,“ bætir Indíana við, sem segist hafa fengið góð viðbrögð við fyrirlestrunum. En hvernig skyldi fræðslan fara fram?

„Ég byrja alltaf á því að ræða kynfærin og minni krakkana á að það eru ekki bara strákar sem eru með typpi, og það eru ekki bara stelpur sem eru með píku. Kynfæri eru ekki öll eins, en þau geta verið jafn mismunandi og þau eru mörg,“ segir Indíana og bendir á að kynfræðsla í skólum sé gjarnan miðuð við gagnkynhneigða einstaklinga. Þar af leiðandi fái ekki allir fræðslu við sitt hæfi.

„Ég er gjarnan spurð um snípinn, enda er ekki mikið fjallað um hann í kynfræðslu. Sumar stelpur í 10. bekk hafa jafnvel aldrei heyrt á hann minnst. Hann er bara gerður fyrir kynferðislega ánægju, sem er oft skautað fram hjá í kynfræðslu. Ég fjalla einnig um það hvers vegna við stundum sjálfsfróun og hvernig. Að þetta sé eitthvað sem einstaklingar geta gert út af fyrir sig, en líka með öðrum. Ég tala um að sjálfsfróun í sambandi sé eðlileg og að kynlíf þurfi að vera með samþykki beggja aðila. Þá segi ég einnig frá því að báðir aðilar eigi rétt á fullnægingu í samþykku kynlífi, en þeir sem stunda sjálfsfróun eru líklegri til að gera kröfu um það og stunda þar af leiðandi betra kynlíf,“ segir Indíana Rós.

Þetta gerir maður í einrúmi

Indíana Róssegir að börn séu almennt ung þegar þau byrja að stunda sjálfsfróun.

„Það er enginn réttur aldur til að byrja að stunda sjálfsfróun en rannsóknir hafa sýnt að við byrjum jafnvel að stunda hana í móðurkviði. Það er því fullkomlega eðlilegt að börn stundi sjálfsfróun, þetta er þó ekki orðin kynferðisleg hegðun fyrr en á unglingsárunum. Börn gera þetta einfaldlega vegna þess að þetta er þægilegt. Alveg eins og þeim finnst þægilegt að láta klóra sér á bakinu. Það verður því að passa að skamma þau ekki svo þau upplifi ekki að þau séu að gera eitthvað rangt. Ef lítil börn eru að fikta í kynfærunum á sér á almannafæri, og foreldrunum finnst það óþægilegt, er gott að beina athygli þeirra að einhverju öðru. Upp úr tveggja ára aldri fara þau svo að læra á félagslegar aðstæður, en þá er hægt að kenna þeim að sjálfsfróun er eitthvað sem maður gerir bara í einrúmi. Ef búið er að kenna barninu að þetta er eitthvað sem maður gerir einn, og gengið er inn á það þegar það er að fikta við kynfærin á sér, skal virða það. Þá er best að fara bara fram og koma aftur seinna. Ef þetta er orðið vandamál, og það gengur ekki að kenna barninu að þetta gerir maður í einrúmi, þarf kannski að fara að vinna frekar í þessu. Þetta vex þó af flestum börnum,“ segir Indíana Rós.

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Læra um kynlíf á netinu

Ungmenni í dag hafa greiðan aðgang að internetinu og eru dugleg að sækja sér fræðslu þangað. Oft er það þó þannig að efnið sem ungmenni leita í sýnir ekki raunsanna mynd af kynlífi.

„Í dag sækja krakkar sér kynfræðslu á netið. Ef þau spyrja um eitthvað sem þau hafa séð á netinu er betra að ræða málin í stað þess að reiðast og skamma. Ef krakkar sjá hins vegar eitthvað ofsalega gróft, sem þeir halda að sé venjan, þarf að greina þeim frá því að þótt þetta sé svona á netinu eigi það sér ekki endilega stoð í raunveruleikanum,“ segir Indíana Rós, en að hennar mati er kynfræðslu í skólum ábótavant.

„Kynfræðsla þyrfti í rauninni að byrja fyrr og vera oftar. Jafnvel upp úr leikskólaaldri. Þá er ég ekki að tala um að við ættum að fræða þriggja ára börn um alla heimsins kynsjúkdóma, en við ættum þó að byrja að fræða krakka fyrr um líkamann og hvernig hann virkar. Einn líffræðitími í 10. bekk er bara ekki nóg. Til að mynda eru alltof margar stelpur á mínum aldri sem vita ekki hvernig tíðahringurinn virkar. Það vantar einnig meiri fræðslu um samskipti og að krökkum sé kennt að kynlíf snúist líka um vellíðan. Auk þess er kynfræðsla að mestu sniðin að þörfum gagnkynhneigðra þótt krakkarnir séu það auðvitað ekki allir.“

Lífið er oft vandræðalegt

Indíana Rós segir að foreldrar ættu að vera óhræddir við að ræða um kynlíf við börnin, jafnvel þótt sumum kunni að þykja umræðan vandræðaleg.

„Sigga Dögg kynfræðingur gaf til dæmis út rosalega góða bók sem heitir Kjaftað um kynlíf en þar er fjallað um hvenær ætti að ræða hvað við börnin. Ég myndi mæla með að foreldrar lesi þá bók. Það er hins vegar aldrei of seint að byrja að ræða kynlíf. Ég og Sigga Dögg höfum til dæmis verð með kynfræðslu á elliheimilum, foreldrar ættu því alls ekki að sleppa því að ræða við börnin þótt þau séu orðin stálpuð. Einnig ættu foreldrar að segja börnum sínum að kynlíf er eitthvað til að láta sér líða vel. Ekki bara brýna fyrir þeim að nota smokkinn, passa sig að fá ekki kynsjúkdóm og ekki verða ólétt,“ segir Indíana Rós, en lumar hún á ráðum fyrir foreldra sem vita ekki hvernig best sé að brydda upp á umræðum af þessu tagi?

„Foreldrar gætu til dæmis lesið þetta viðtal og notað það sem afsökun til að brydda upp á umræðuefninu. Þeir gætu sagt að þeir hafi verið að lesa áhugavert viðtal um sjálfsfróun, og notað það sem útgangspunkt. Lífið er rosalega oft vandræðalegt og maður þarf bara að díla við það,“ segir Indíana og bætir við að sjálfsfróun sé heilbrigðasta kynlífshegðunin.

„Það er enginn að fara að fá kynsjúkdóm og það er enginn að fara að verða óléttur. Krakkinn er bara að gera eitthvað þar sem hann lætur sér líða vel, og það er frábært. Ef foreldri skyldi labba inn á krakkann sinn að stunda sjálfsfróun ætti einfaldlega að yfirgefa herbergið. Seinna meir er síðan hægt að segja að það sé frábært að krakkinn skuli láta sér líða vel, þá fær hann þau skilaboð að hann hafi ekki verið að gera neitt rangt. Þetta þarf ekkert að vera flóknara,“ segir Indíana Rós, en hún hvetur foreldra til að kaupa kynlífsleikfang fyrir unglingana sína.“

„Þetta er gjöf sem stuðlar að heilbrigðri kynlífshegðun og þó að krakkinn stundi sjálfsfróun þýðir það ekki að hann sé byrjaður að stunda kynlíf með öðrum. Það er mikill misskilningur að aukin kynfræðsla leiði til þess að unglingar byrji fyrr að stunda kynlíf. Þvert á móti hafa rannsóknir sýnt að kynfræðsla seinkar því að unglingar byrji að stunda kynlíf. Þeir eru öruggari þegar þeir byrja, nota frekar getnaðarvarnir og gera síður hluti sem þeir vilja ekki gera,“ segir Indíana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál