Sparnaður er eins og megrunarkúr

Sparnaður þarf ekki að vera leiðinlegur.
Sparnaður þarf ekki að vera leiðinlegur. Arnaldur Halldórsson

Það sækjast kannski ekki allar konur eftir því að vera grannar með fullt veski af peningum, en staðreyndin er samt sú að það er draumur margra kvenna. Vefmiðillinn Forbes leitaði til tveggja fjármálasérfræðinga sem segja að vel sé hægt að setja megranir og sparnað í sama flokk. Þetta gangi í raun út á það sama, að spara hitaeiningar og það þurfi alls ekki að vera leiðinlegt að vera til þótt hitaeiningunum fækki.

Nancy L. Skeans hjá Schneider Downs Wealth Management Advisors í Pittsburgh, segir að fólk þurfi að hugsa um sparnað á svipaðan hátt og lífstílsbreytingu. Það sé mikilvægt að fylgjast með eyðslunni líkt og við værum að telja hitaeiningar. Með því að fylgjast vel með neyslunni sé auðveldara að koma fjármálunum í lag í eitt skipti fyrir öll, án þess að lífið verði hundleiðinlegt.

„Haltu bókhald yfir eyðsluna. Þegar fólk er í megrun sleppir það rauðvínsglösunum og súkkulaðikökunni á kaffihúsinu,“ segir Skeans. Hún segir að meðvitund sé lykillinn að því að fólk eyði ekki peningum í vitleysu. Hún nefnir að konur falli oft í þá gryfju að kaupa sér svipuð föt, sem þær þurfi ekkert á að halda, og minnir á að það þurfi engin kona að eiga þrjá beige-litaða rykfrakka. Skeans mælir með því að fólk sníði sér stakk eftir vexti. Þegar það skipuleggi frí þurfi það ekki að fara hinum megin á hnöttinn. Það sé oft nóg að fara í helgarferð í sveitina.

Ef einhver var að hugsa um að eyða jólunum í Las Vegas má minna á að það er miklu ódýrara að leigja sumarbústað í Munaðarnesi.

Michelle Matson, hjá Matson Money, segir að eyðsla og sparnaður sé ekki ósvipað því þegar fólk fer í átak. Það verður að setja sér markmið, hvað það ætlar að reyna að spara mikið á mánuði og sjá töluna fyrir sér á ársgrundvelli.

Útivinnandi kona sem borðar á kaffihúsi eða veitingastað í hverju hádegi gæti sparað mikla peninga ef hún myndi sleppa því. Ef hádegisverðurinn kostar 1.500 krónur eyðir konan 7.500 krónum á viku, sem eru 30.000 krónur á mánuði. Að spara 30.000 mánuði gera 360.000 á ári. Það er álíka mikið og kostar að fljúga með fjögurra manna fjölskyldu frá Keflavík til Kaliforníu.

Ef þú ætlar ekki að borða úti í hádeginu þarftu að skipuleggja þig því fólk tekur óskynsamlegar ákvarðanir þegar það er svangt. Þeir sem vilja í alvörunni spara ættu að venja sig á að taka með sér nesti að heiman. Oft er til afgangur af kvöldmatnum sem upplagt er að taka með sér í vinnuna. Auk þess eru líkur á að hollustan aukist ef þú tekur með þér nesti að heiman. Svo má ekki gleyma því að hádegishléið verður ekki síður ánægjulegt ef þú nýtur þess að borða í rólegheitum í stað þess að rjúka út úr húsi.

Bæði Matson og Skeans segja að líkt og megranir geti sparnaður verið ansi erfiður þegar fólk er að byrja að feta sig í nýja, eyðslugranna lífinu. Þær nefna að það sem sé erfitt sé að ávinningurinn sjáist ekki alltaf strax og þá eiga sumir það til að gefast upp. Máltækið „Dropinn holar steininn“ á kannski ágætlega við í þessu tilfelli og skiptir þolinmæði miklu máli.

Michelle Matson segir að þegar fólk fari að skrá eyðsluna niður, líkt og matardagbók, þá sjái það svart á hvítu í hvað peningarnir séu raunverulega að fara. Allir latte-bollarnir, glossin, teygjurnar, rauðvínsglösin og tyggjóið sem við kaupum telur. Margt smátt gerir eitt stórt.

Nærmynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál