Vertu góð fjármálafyrirmynd

ARND WIEGMANN

Breki Karlsson, Forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi, veit hvernig best er að efla fjármálalæsi fjölskyldunnar. Hér eru nokkur góð ráð sem allir ættu að geta tileinkað sér.

Hér eru nokkrar hugmyndir sem þú getur nýtt til að efla fjármálalæsi fjölskyldunnar. Þær eiga einkanlega vel við fjölskyldur með börn, einhleypa, barnlaus pör og pör með uppkomin börn.

Orð eru til alls fyrst

Hvað svo sem þú gerir þá er mjög gott að byrja að tala um fjármálin. Í fjármálum eins og svo mörgu öðru eru orð til alls fyrst.

Átak

Taktu þér tak. Farðu í eins árs fjármálaátak fjölskyldunnar. Skipuleggðu vikulega eða hálfsmánaðarlega auratal fjölskyldunnar og einsettu þér að læra eitthvað nýtt í hverri viku. Veldu atriði sem vekja áhuga sem flestra; athugaðu að börn á mismunandi aldri hafa mismunandi áhugasvið. Góð leið til að hefja átakið er að skoða www.fe.is.

Fjárhagslegt markmið

Hver fjölskyldumeðlimur gæti sett sér fjárhagslegt markmið. Börn gætu til dæmis lagt fyrir helming vasapeninganna í eitt ár. Ef þú ert einhleyp(ur) gætirðu ákveðið að leggja fyrir hluta launanna þinna mánaðarlega.

Notaðu peninga

Fjármál einstaklinga hafa á undanförnum árum verið gerð miklu einfaldari á margan hátt og gerð sjálfvirk. Þannig getum við farið í gegnum heilu mánuðina án þess að sjá eða handleika peninga. Hvernig væri að prófa að geyma greiðslukortin heima í einn mánuð og skammta sér alvörupeninga? Þannig neyðistu til að áætla eyðslu og fara í holla sjálfskoðun.

Spara saman

Opnið fjölskyldubankareikning og safnið saman fyrir einhverju sem öllum hugnast svo sem fríi eða flatskjá. Hvettu alla fjölskyldumeðlimi til að leggja sitt af mörkum í hlutfalli við getu.

Heilbrigði

Heilsusamlegt líferni þarf ekki að kosta. Reiknið kostnaðinn, bæði líkamlegan og fjárhagslegan, af óheilbrigðum háttum. Hvað kostar til dæmis að reykja? Hvað kostar að borða skyndibita? Er hægt að búa til hollari, ódýrari og hugsanlega betri mat heima? Hver er kostnaðurinn við að keyra í bíl miðað við að ganga (og spara þannig heilsuræktargjöld)?

Eignir og skuldir

Þegar þú leggur upp í ferð viltu vita hvar þú ert áður en þú leggur af stað. Sama á við um leiðina að betri fjármálum. Reiknaðu út hlutfall heildarskulda þinna af heildareignum, hversu erfitt eða sársaukafullt sem það kann að vera. Hversu mikið af ráðstöfunartekjum þínum fer í afborganir lána? Ef það er meira en helmingur ráðstöfunartekna gætirðu viljað vega og meta leiðir til að minnka það hlutfall. Besta leiðin til að minnka skuldir er að gera áætlun um það. Hagkvæmast er að greiða niður skuldir sem bera hæstu vexti, en stundum er ágætt að greiða upp lán með lægsta höfuðstólnum þar sem það veitir mikilvæga afrekstilfinningu þegar lánið hefur verið greitt upp.

Framtíðin

Ræddu framtíðina. Hvar sérðu þig eða börnin þín eftir 5 ár? Munu þau fara í skóla erlendis með háum skólagjöldum eða þar sem framfærslukostnaður er hár? Eru námslán LÍN nægjanleg? Þarf að brúa bil frá því skólinn byrjar og þar til námslán eru greidd út? Námslán eru eftirágreidd: Hjálpaðu börnunum þínum að setja á fót reglulegan sparnað svo þau þurfi ekki að taka dýr yfirdráttarlán.

Ef börnin þín eru of ung, of gömul eða ef þú átt engin börn, hugsaðu um eigin markmið hvort sem er í starfi, leik eða menntun. Hvernig geturðu byrjað í dag að huga að persónulegri framþróun þinni og ná þannig markmiðum þínum?

Mikilvægt

Láttu ekki lengd þessa lista hræða þig. Það er ekki meginmarkmið að umbylta öllu á einum degi. Veldu frekar eina eða fleiri tillögu sem vekja áhuga þinn og byrjaðu þar. Þú getur síðan bætt við fleiri atriðum þegar fram í sækir. Litlar breytingar geta skipt miklu máli. Mundu að taka aðeins eitt skref í einu. Það tekur tíma að breyta fjárhagsvenjum fjölskyldunnar. Örstutt spor í rétta átt er gæfuspor og smáar breytingar á hegðun geta skipt sköpum þegar kemur að því að gera upp heimilisbókhaldið í lok hvers mánaðar.

Mundu að peningar eru ekki allt. Fjárhagslegt öryggi er að sjálfsögðu mikilvægt, en mundu að allir peningar heimsins kaupa ekki það sem er mikilvægast í lífinu. Teldu upp fimm hluti á dag sem ekki kosta neitt. Gerðu þér að leik að því að nýta þér þá.

Að lokum: Hafðu í huga að hversu mikið sem þú talar við börnin þín um fjármál munu þau í langflestum tilfellum erfa fjármálahegðun þína. Leggðu þig því fram um að vera góð fyrirmynd í fjármálum. Leyfðu þeim að læra af mistökum þínum jafnt sem sigrum.

HÉR er hægt að fá mörg sparnaðarráð.

Ernir Eyjólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál