Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins ætlar að njóta páskanna með fjölskyldunni áður en fjórða barnið kemur í heiminn. Fjölskyldulífið drífur Hildi áfram í leik og starfi en hún er þakklát fyrir að eiga stóra og góða fjölskyldu.
Síðustu ár höfum við varið páskunum á Akureyri, þar finnst mér ég eiga sterkar rætur enda móðurfjölskyldan mín að norðan. Nú eigum við hins vegar fermingarbarn í fyrsta skipti svo páskarnir munu að einhverju leyti litast af þeim hátíðarhöldum. Mjög líklega brunum við hins vegar til Akureyrar þegar veisluhöldin eru yfirstaðin og náum góðri hvíld og skíðamennsku fyrir norðan,“ segir Hildur þegar hún spurð hvernig páskarnir verði í ár.
Hefur þú haldið í einhverjar páskahefðir úr þinni æsku?
„Páskamorgunverðurinn var alltaf hápunkturinn í minni æsku. Þá voru bakaðar bollur og fjölskyldan settist saman við morgunverðarhlaðborð. Þegar allir höfðu borðað nægju sína mátti opna páskaeggið og í kjölfarið voru málshættirnir lesnir upphátt. Það sem eftir lifði páskadags voru almennt rólegheit og afslöppun. Það má í raun segja að við höfum haldið í þessa hefð, en síðustu ár höfum við einmitt varið páskunum fyrir norðan með foreldrum mínum. Ég hef hins vegar bætt við fremur metnaðarfullum ratleik fyrir krakkana, þar sem þau eru send um víðan völl að leita að páskaeggjunum. Þau koma því yfirleitt inn þreytt og útitekin, áður en þau mega loks gæða sér á eggjunum.“
Eruð þið með einhverjar matarhefðir um páskana?
„Við erum með voðalega litlar matarhefðir á páskum og jólum. Ég ólst upp við lambalæri í páskamatinn, en fyrir nokkrum árum hættum við hjónin að borða kjöt. Við reynum því almennt að hafa bara góðan mat á boðstólum sem öll fjölskyldan kann að meta. Það getur verið mjög breytilegt milli ára.“
Hvað með páskaskreytingar?
„Ég er ekki mikil skreytingakona, hvorki um jól né páska. Ég held mig almennt við falleg blóm í litum sem hæfa tilefninu. Ég set líka alltaf upp páskagreinar, en á þær hengjum við alls kyns páskaskaut, sumt hvað sem hefur verið föndrað af krökkunum. Það er auðvitað alltaf fallegasta skrautið.“
Hvaða þýðingu hafa páskarnir fyrir þig sem fjölskyldukonu?
„Páskarnir hafa í seinni tíð verið í sérstöku uppáhaldi. Ég er mikið jólabarn en jólunum fylgir alltaf miklu meira stress og mun fleiri verkefni en páskum. Það er alltaf hægt að treysta á góða afslöppun í páskafríinu – og svo er alltaf hægt að vera temmilega bjartsýnn fyrir því að sumarið sé á næsta leiti.“
Á einu ári hefur lífið breyst töluvert. Um síðustu páska varstu að sigla inn í kosningar og nú ertu að undirbúa komu fjórða barnsins. Hefðir þú getað ímyndað þér þessar breytingar?
„Ég hefði sannarlega ekki getað ímyndað mér þessar breytingar. Ég hef lært það á síðustu árum að það er ómögulegt að skipuleggja lífið mörg ár fram í tímann, enda líf okkar hjóna þess eðlis að við fáum reglulega mjög óvænt, stór en skemmtileg verkefni í fangið. Þannig er bara okkar líf og verður eflaust alltaf. Síðustu páskar voru einungis örfáum vikum fyrir borgarstjórnarkosningar, og því erfitt að taka mikið frí. Ég ætla því að njóta þessara páska alveg sérstaklega vel, en að loknum páskum þarf ég að fara að huga almennilega að komu dóttur okkar, en það þarf nú víst að skipuleggja ýmislegt þegar fjölgar í fjölskyldunni.“
Hvernig hefur meðgangan gengið?
„Ég hef almennt verið nokkuð heppin að vera heilsuhraust á mínum meðgöngum. Mér finnst þessi meðganga líða sérstaklega hratt enda mikið að gera í hversdeginum. Það sem er helst frábrugðið í þetta skiptið er sá veruleiki að við erum nú með stórt heimili og heilmörg handtök sem fylgja því. Ég hef almennt lagt áherslu á að börnin okkar megi alltaf koma heim með vini og því ekki óalgengt að maður mæti heim úr vinnu og á móti manni taki tíu svöng börn eftir langan skóladag. Það gefst því ekki beint mikill tími til að leggjast í læsta hliðarlegu og barma sér yfir þreytu á þessari meðgöngu. En nákvæmlega svona vil ég hafa heimilislífið, enda sjálf úr stórum systkinahópi. Líf og fjör og læti.“
Hvað leggur þú áherslu á í móðurhlutverkinu?
„Einhvern tímann las ég viðtal við móður sem sagði, svolítið hæðnislega, að hæfileg vanræksla væri besta veganestið fyrir börn. Ég er svolítið sammála þótt ég myndi kannski orða þetta á annan hátt. Við leggjum mikla áherslu á að börnin okkar verði sjálfstæð og sjálfbjarga og reynum að skapa umhverfi og umgjörð þar sem þau eru hvött til að bjarga sér sjálf. Dóttir mín var til dæmis farin að taka strætó í tómstundir sjö ára gömul, og sonur minn var tíu ára þegar hann treysti sér til að ferðast um allt höfuðborgarsvæðið með almenningssamgöngum. Það gefur þeim mikið sjálfstraust að finna að þau geti bjargað sér sjálf. Maður er þó auðvitað alltaf til staðar til að grípa og aðstoða. Ég legg líka áherslu á að börnin mín geti rætt alla hluti við mig, hversu erfiðir eða óþægilegir sem þeir kunna að vera. Ég á oft mjög opinská samtöl við þau um ýmis feimnismál, samtöl sem manninum mínum þykja svo óþægileg að hann getur helst ekki verið viðstaddur. Ég vil að þau viti að sama hvað kemur upp í þeirra lífi, þá verði ég alltaf til staðar, og alltaf í þeirra liði.“
Ertu með einhverjar góðar aðferðir til þess að halda öllu á floti á stóru heimili?
„Ég þrífst illa í óskipulögðu umhverfi og alla óreiðu upplifi ég sem mikið áreiti. Ég reyni því að hafa gott skipulag í kringum heimilislífið. Ég fer ekki að sofa á kvöldin nema allt sé nokkurn veginn á sínum stað, en mér finnst best að hefja nýjan dag án þess að hafa ótal ókláruð heimilisverk fyrir augunum. Sex ára dóttir mín reynist vera nákvæmlega eins, en hún getur ekki sofnað ef herbergið hennar er ekki snyrtilegt. Það getur auðvitað verið svolítið erfitt að vera þessi manngerð, en maður lifandi hvað ég er þakklát fyrir að hafa að minnsta kosti einn annan svona snyrtipinna á heimilinu.
Annars eru tvö lykilatriði sem mér þykja létta mjög undir á stóru og erilsömu heimili. Annars vegar pöntum við mestallan mat heimilisins á netinu og fáum sendan heim vikulega, en þá list lærðum við þegar við bjuggum í London. Það finnst mér einfalda hversdaginn töluvert. Hins vegar fáum við aðstoð við heimilisþrifin tvisvar í mánuði, en ég myndi gjarnan vilja hafa það vikulega. Maður er auðvitað ekki laus undan öllum þrifum en þetta léttir mikið undir. Svo erum við reyndar svo lánsöm að vera umkringd stórri fjölskyldu sem hefur hjálpað okkur töluvert á sérstökum álagspunktum, sem hefur verið ómetanlegt.“
Hvað drífur þig áfram í lífinu?
„Ég er mjög mikil fjölskyldukona og finnst ekkert mikilvægara eða skemmtilegra en að verja tíma með fjölskyldunni minni. Það verður sannarlega mikil vinna að vera með stórt heimili, fjögur börn og hund, en ég gæti ekki ímyndað mér lífið neitt öðruvísi – og er mjög meðvituð um hversu lánsöm við erum. Maður getur aldrei séð eftir því að byggja upp stóra fjölskyldu. Allt þetta hefur auðvitað mikil áhrif á áherslur mínar í stjórnmálum. Mér finnst áberandi að á síðustu áratugum hafa málefni fjölskyldunnar verið afgangsstærð í borginni, mögulega vegna þess að meirihluti kjörinna fulltrúa hefur almennt verið á öðrum æviskeiðum og því með takmarkaða innsýn í líf fjölskyldufólks. Það er svo ótal margt sem þarf að gera betur í þágu barnafólks í Reykjavík, hvort sem snýr að gæðum skólastarfs eða aðgangi að leikskólaþjónustu, svo eitthvað sé nefnt.“
Að lokum, hvernig páskaegg langar þig í og áttu uppáhaldsmálshátt?
„Það er frekar langt síðan ég fékk mitt eigið páskaegg en ég er ansi dugleg að stelast í egg barnanna. Ef ég myndi velja mitt eigið egg þá yrði það vafalaust eitthvað með lakkrísívafi. Ég passa þó alltaf að fá eitt pínulítið egg svo ég fái nú örugglega málshátt. Ég get ekki sagt ég eigi uppáhaldsmálshátt en frasann „allt er eins og það á að vera“ nota ég reglulega þegar lífið reynist óþarflega flókið eða óskiljanlegt – hann ætti kannski að bætast í málsháttaflóruna,“ segir Hildur.