Líf Birtu Lífar Ólafsdóttur tók stóra U-beygju fyrir þremur árum síðan þegar hún komst að því að hún væri ófrísk. Hún var þá nýútskrifuð úr meistaranámi í markaðsfræði í Bandaríkjunum og var með stóra drauma um frama erlendis, en í dag er hún afar þakklát fyrir þá braut sem lífið hefur leitt hana á.
Í apríl 2021 tóku Birta og kærasti hennar, Gunnar Patrik Sigurðsson fasteignasali, á móti dóttur sinni Emblu Líf Gunnarsdóttur. Birta starfar sem markaðsfræðingur og heldur úti vinsælu hlaðvarpi, Teboðinu, ásamt vinkonu sinni Sunnevu Einarsdóttir.
Birta og Gunnar kynntust í gegnum sameiginlega vini fyrir níu árum síðan. „Hann æfði fótbolta með Val á sínum tíma og ég kem úr Hlíðunum þannig að vinir mínir út grunnskóla voru að æfa með honum og kynntu okkur,“ segir Birta.
Það kom Birtu verulega á óvart þegar hún komst að því að því að hún væri ófrísk sumarið 2020. „Okkur brá báðum en það breyttist svo strax í mikla spennu fyrir nýja hlutverkinu. Ég var nýbúin að klára meistaranámið og var því nýflutt heim til Íslands frá Boston, en ég þurfti að flytja heim vegna kórónuveirunnar og kláraði meistaranámið því í gegnum Zoom. Planið var alltaf að fara aftur út og vinna við markaðssetningu í Bandaríkjunum,“ útskýrir hún.
„Nokkrum dögum eftir útskriftina mína, sem var einmitt haldin á Zoom, komst ég svo að því að ég væri ófrísk og þá breyttust framtíðarplönin. Ég hefði samt ekki viljað breyta neinu. Embla Líf kom á fullkomnum tíma og þó svo að barn hafi ekki verið í planinu þá var hún svo miklu meira en velkomin,“ bætir hún við.
Birta segir meðgönguna heilt yfir hafa gengið mjög vel en að hún hafi þó upplifað brjóstsviða og ógleði til að byrja með. „Ég fékk þessa algengu ógleði í byrjun sem leið svo hjá í kringum 16. viku. Svo þegar meðgangan var hálfnuð þá leið mér mjög vel og hef í raun aldrei verið eins orkumikil. Á lokasprettinum var maður þó orðinn svolítið þreyttur en aðallega óþolinmóður,“ rifjar hún upp.
„Það er mjög misjafnt hvernig fólk upplifir meðgöngu en mér leið eins og ég hafi verið ófrísk í nokkur ár en ekki í níu mánuði, því fannst mér tíminn alls ekki líða hratt,“ bætir hún við.
Að sögn Birtu gekk fæðingin þó brösulega þar sem Embla Líf hafi fests í grindinni og endaði með því að vera tekin með sogklukku eftir tvo tíma af rembing. „Ég var send í gangsetningu þar sem legvatnið var farið að leka hjá mér og því fékk ég ekki að upplifa þetta „Hollywood augnalik“ þegar maður missir vatnið. Það tók gríðarlegan tíma að koma fæðingunni af stað og ég var mikið ein uppi á fæðingardeild eftir gangsetninguna vegna takmarkana útaf kórónuveirunni. En þegar hlutirnir fóru að gerast kom Gunni og var með mér,“ segir hún.
„Eftir fæðinguna þurfti ég svo að fara inn á skurðdeild til að stoppa blæðinguna og var í smá tíma að ná mér aftur eftir það og mikinn blóðmissi. En við fengum að fara heim seinnipartinn næsta dag og ég var lukkulega mjög fljót að ná mér eftir fæðinguna,“ bætir hún við.
Birta segir móðurhlutverkið hafa breytt lífi sínu á svo ótal marga vegu og að í dag sé hún með allt önnur gildi og áherslur í lífinu. „Maður veit hvað virkilega skiptir máli og hvað ekki, og hvað maður vill eyða tímanum sínum og orku í. Forgangsröðunin er líka allt öðruvísi í dag en hún var áður en ég eignaðist barn, en nú á Embla Líf alltaf fyrsta sætið,“ segir hún.
„Ég hugsa mín persónulegu markmið líka öðruvísi með það að leiðarljósi að hugsa: „Hvað myndi gera Emblu Líf stolta af mér og hvers konar fyrirmynd vil ég vera fyrir hana?“ Ég fann líka að þegar ég varð mamma þá virkilega vildi ég vera hin allra besta útgáfa af sjálfri mér sem hefur falið í sér mikla sjálfsvinnu sem hefur verið krefjandi en skemmtileg vegferð. En mér fannst strax mikilvægt að halda í mig sjálfa og hef vandað mig við það að gefa sjálfri mér líka tíma,“ bætir hún við.
„Mér finnst líka litlu hlutirnir í lífinu orðnir mikið skemmtilegri, þó svo að það séu erfiðir dagar inn á milli eins og gengur og gerist. Ég varð sjálf líka meira hátíðarbarn og sé jólin til dæmis í allt annarri mynd núna eftir að ég eignaðist barn. Ég var ekki mikið jólabarn fyrir en núna finnst mér svo yndislegt að vera einn stærsti parturinn í því að skapa minningar fyrir Emblu Líf og gera hennar minningar góðar og skemmtilegar,“ segir Birta.
Spurð hvað hafi komið henni mest á óvart í móðurhlutverkinu nefnir Birta þetta sterka innsæi, hvað móðurhlutverkið hafi kennt henni mikið á sjálfa sig og hve stór partur af því hafi verið að lækna hennar eigið innra barn. „En svo hefur líka komið mér virkilega mikið á óvart hvað ég get gert marga hluti bara með annarri hendi á meðan hin er upptekin að halda á Emblu Líf. Ég fékk helling af ofurkröftum eftir að ég eignaðist barn,“ segir hún.
Þegar kemur að uppeldinu segist Birta leggja mikla áherslu á þátttöku og að leyfa dóttur sinni að vera með og taka þátt í hversdaglegum hlutum. „Mér hefur einnig fundist mikilvægt að leggja áherslu á allskonar dundur eins og að lita, púsla, leira og allt sem ýtir undir sköpunargáfu. Og svo auðvitað er aðal áherslan alltaf bara að kenna ást og kærleik,“ segir hún.
Embla Líf hefur slegið rækilega í gegn á TikTok undanfarna mánuði þar sem Birta hefur verið dugleg að birta bráðskemmtileg myndskeið af dóttur sinni sem hafa fallið vel í kramið hjá fylgjendum hennar.
En hvernig skyldu myndskeiðin hafa komið til?
„Ég held að flestir foreldrar tengi við það að finnast börnin sín fyndin og skemmtieg og það var nákvæmlega þannig sem þetta byrjaði. Ég hlæ af henni alla daga og ákvað síðan að festa skemmtileg augnablik á myndbönd. Ég setti svo saman lengra myndband sem mér fannst skemmtilegt, en það sem kom mér á óvart var hversu mörgum öðrum fannst það líka skemmtilegt sem hefur verið hvatning fyrir mig að gera meira efni með henni,“ segir Birta.
Ég hef líka verið að sýna frá sumum prakkarastrikum hjá henni sem mér hefur fundist alveg hrikalega fyndin og ákvað að setja þau inn því mér þykir líka mikilvægt að taka glansmyndina í burtu og sýna að dagarnir eru allskonar með eina tveggja ára.“
Það er margt spennandi framundan hjá fjölskyldunni sem er um þessar mundir að koma sér aftur í rútínu eftir sumarfríið. „Embla Líf er að byrja aftur í íþróttaskóla, við ætlum að fara í skemmtilegt fjölskylduferðalag í vetur og bara halda áfram að skapa skemmtilegar minningar saman,“ segir Birta að lokum.