Vilhjálmur krónprins Bretlands og Katrín prinsessa af Wales eru gagnrýnd fyrir að hafa verið full lengi í sumarfríi.
Þau hafa varið öllu sumrinu í að vera í fríi með börnunum sínum sem eru 10, 8 og 5 ára gömul. Vilhjálmur og Katrín eru sögð hafa verið mestmegnis í fríi á heimaslóðum í Norfolk, Sandringham og í Balmoral höllinni á Skotlandi. Svo eru þau sögð hafa farið til karabísku eyjunnar Mustique en sú eyja á sérstakan stað í hjörtu bresku konungsfjölskyldunnar en Margrét prinsessa átti þar fasteign á sínum tíma og naut þess mjög að vera þar. Áður en hún lést gaf hún syni sínum landareignina sem síðar seldi hana bandarískum viðskiptamanni.
„Vilhjálmur og Katrín leggja alltaf mikla áherslu á að verja sem mestum tíma með börnunum. Þau tóku frá allt sumarið til þess,“ segir heimildarmaður innan hallarinnar. „Tími þeirra með börnunum er þeim mjög mikilvægur sérstaklega í ljósi þess sem Vilhjálmi finnst hann hafa farið á mis við slíkt í eigin æsku. Þau vilja gera allt til þess að börnin upplifi eðlilega æsku og ástríki foreldra sinna.“
Þessi mikli tími sem þau gefa sér í sumarfrí gæti hins vegar farið öfugt ofan í marga segja sérfræðingar.
„Þau eru að fá miklu meira sumarfrí en venjulegar fjölskyldur í Bretlandi geta leyft sér,“ segir Richard Palmer, konunglegur álitsgjafi.
„Það eru mjög fáar fjölskyldur sem geta leyft sér að hafa báða foreldrana heima í fríi í öllum skólafríum í samtals tólf til þrettán vikur á ári. Allir vilja þeim vel en þau þurfa samt að passa sig á þessu.“
„Þetta gæti stuðað fólk. Þau eru vinsæl og mikill fengur fyrir Bretland en meðlimir konungsfjölskyldunnar hafa sett spurningamerki við það hversu lítið þau vinna miðað við aðra. Þau eru undir vissum þrýstingi að auka afköst sín.“
Vilhjálmur er í fimmta sæti yfir afkastasömustu konungsmeðlimi árið 2022 og Katrín í því níunda. Anna prinsessa er á toppinum með 214 vinnutengda viðburði en Vilhjálmur aðeins með 126 viðburði.