„Dagarnir mínir eru mjög óhefðbundnir og óreglulegir“

Gunnlaugur Arnar Ingason, eða Gulli bakari eins og hann er …
Gunnlaugur Arnar Ingason, eða Gulli bakari eins og hann er kallaður, rekur eigið bakarí í Hafnarfirði og verður brátt tveggja barna faðir. Samsett mynd

Það er nóg um að vera hjá Gunnlaugi Arnari Ingasyni, eða Gulla bakara eins og hann er gjarnan kallaður, þessa dagana. Hann rekur eigið bakarí, Gulli Arnar bakari, í Hafnarfirði og verður brátt tveggja barna faðir, en sambýliskona hans Kristel Þórðardóttir er ófrísk að öðru barni þeirra.

Gunnlaugur er fæddur og uppalinn í Hafnarfirði. Hann útskrifaðist sem bakari úr Menntaskólanum í Kópavogi árið 2017 og sem konditor frá Kaupmannahöfn árið 2019. „Mestur tími minn fer í að halda þessum tveimur boltum á lofti, að reka bakarí og vera til staðar sem fjölskyldufaðir,“ segir Gunnlaugur, en þau Kristel eignuðust sitt fyrsta barn saman, Arnar Inga, í apríl 2023. Í fjölskyldunni er einnig hundurinn Bósi, svo að það er mikið fjör á heimilinu.

Árið 2020 opnaði Gunnlaugur bakarí sem nýtur mikilla vinsælda. „Við erum með trygg­an hóp viðskipta­vina sem hef­ur staðið með baka­rí­inu al­veg frá upp­hafi, viðskipta­vin­ir sem ég heilsa í dag úti á götu og hef kynnst í gegn­um baka­ríið – mér þykir vænt um það,“ út­skýr­ir Gunn­laug­ur.

„Baka­ríið hef­ur vaxið og dafnað í gegn­um árin, frá því að ég var einn að baka og af­greiða yfir í það að vera orðið stórt og traust fyr­ir­tæki með marga starfs­menn og breiða vöru­línu. Þrátt fyr­ir smá vaxta­verki und­an­farið þá höld­um við ávallt í sömu gild­in sem eru fyrst og fremst framúrsk­ar­andi þjón­usta, hlýtt viðmót og gæða vör­ur. Ég vildi alltaf að hug­mynd­in um róm­an­tískt hverf­is­bakarí fengi að skína og tel ég okk­ur ná að kalla fram þá upp­lif­un hjá okk­ar viðskipta­vin­um,“ bæt­ir hann við. 

Sambýliskona Gunnlaugs, Kristel Þórðardóttir, er ófrísk af öðru barni þeirra.
Sambýliskona Gunnlaugs, Kristel Þórðardóttir, er ófrísk af öðru barni þeirra.

Hvernig var upplifunin að vera á hliðarlínunni við fæðingu?

„Það var æðisleg upplifun. Fæðingin gekk heilt yfir vel og Kristel útskrifast í mínum bókum með 10 í einkunn fyrir sína frammistöðu. Það var alveg magnað að sjá þennan litla gaur koma í heiminn og tilfinningin ólýsanleg. Starfsfólkið á fæðingardeildinni hugsaði vel um okkur og er greinilega algjört fagfólk fram í fingurgóma.“

Hvernig er hefðbundinn dagur í lífi þínu?

„Dagarnir mínir eru mjög óhefðbundnir og óreglulegir. Þeir fara auðvitað að mestu leyti fram í bakaríinu, þar sem maður er með annan fótinn mestallan sólarhringinn. Oftast reyni ég að vera mættur á milli klukkan þrjú og fjögur á morgnana í bakaríið. Núna er Arnar Ingi kominn á leikskóla svo að undanfarið hef ég verið að skjótast heim um klukkan 7:30 til þess að koma honum á leikskólann og svo er farið aftur í bakaríið. Ég er yfirleitt í bakaríinu fram eftir degi þó að ég skjótist á hina og þessa staði inni á milli.

Arnar Ingi er svo sóttur í leikskólann um klukkan 16:00 og þá hefst þessi hefðbundni pakki að leika, græja kvöldmat, baða og svæfa drenginn klukkan 19:00. Það fer svo algjörlega eftir árstíma og álagi í bakaríinu hvort það taki við tveggja til þriggja tíma vinnutörn eða hvort við Kristel kveikjum á bíómynd sem ég steinsofna yfir. Á mánudögum er bakaríið lokað, svo að það eru heilagir dagar til þess að sinna verkefnum sem hafa setið á hakanum allt of lengi, prófa nýja hluti fyrir bakaríið, taka fundi, afslöppun og annað slíkt. Eins og ég segi eru nánast engir tveir dagar eins.“

Dagarnir hjá Gunnlaugi byrja snemma, en hann er oftast mættur …
Dagarnir hjá Gunnlaugi byrja snemma, en hann er oftast mættur í bakaríið á milli klukkan þrjú og fjögur á morgnana.

Hvernig gengur að samtvinna bakarísrekstur og fjölskyldulífi?

„Það hefur gengið vel hingað til. Þar kemur Kristel auðvitað sterkust inn en hún hefur veitt mér fullt frelsi og stuðning til þess að sinna bakaríinu 150% og tekur því mestan þunga af heimilinu. Hún er fyrst og fremst frábær mamma sem hefur fært sínar fórnir fyrir bakaríið og sýnt því mikla þolinmæði þegar það koma tímabil þar sem við sjáumst ekki heilu og hálfu dagana. Þetta er 100% starf fyrir báða aðila að halda rekstrinum og heimilinu gangandi.

Á móti kemur að þegar það koma frítímar og vinnudagarnir eru styttri nýtum við þá vel og vandlega og gerum eitthvað saman fjölskyldan, það er dýrmætur tími. Svo er ég með alveg frábært samstarfsfólk með mér í bakaríinu, samviskusamir og heilsteyptir einstaklingar sem auðvelt er að treysta fyrir öllu þegar það koma dagar þar sem ég þarf að vera annars staðar. Við erum með mjög sterkt bakland í báðum fjölskyldum og eru bæði foreldrar mínir og foreldrar Kristelar dugleg að bjóða okkur í kvöldmat og hjálpa til í bakaríinu, sem léttir mikið á heimilishaldinu.“

Þessi mynd er ansi lýsandi fyrir líf Gunnlaugs, þar sem …
Þessi mynd er ansi lýsandi fyrir líf Gunnlaugs, þar sem meginfókus hans er á bakaríið og föðurhlutverkið.

Uppáhaldsmorgunmatur?

„Það fer eftir því hvort það er frídagur eða vinnudagur. Ef ég á frídag eins og t.d. á mánudögum eða í kringum aðra lokaða daga bakarísins finnst okkur gott að gera stóran og veglegan morgunverð heima. Súrdeigsbrauð með avókadó, eggjum, beikoni og öllu tilheyrandi.

Á vinnudögum er ég ekki enn kominn með leið á að fá mér gott croissant eða vínarbrauð í bakaríinu. Ég fel mig oft á bak við það að ég sé að sinna gæðaeftirliti þegar ég byrja flesta daga á því að fá mér ilmandi nýbakað bakkelsi í morgunmat. Það er erfitt að standast freistinguna þegar maður hefur unnið frá klukkan þrjú á morgnana og klukkan sex kemur nýbakað skinku-croissant úr ofninum. Ilmurinn af því talar sínu máli, það er ekki hægt að sleppa því.“

Það er fátt sem toppar nýbakað og ilmandi skinku-croissant.
Það er fátt sem toppar nýbakað og ilmandi skinku-croissant.

Hvað leggur þú áherslu á í uppeldinu?

„Fyrst og fremst skiptir okkur miklu máli að leyfa krökkum að vera krakkar, leyfa þeim að leika sér og prófa sig áfram. Í dag er auðvitað offramboð af misgáfulegum upplýsingum með tilkomu samfélags- og netmiðla. Við leggjum því áherslu á að finna út úr því hvað hentar okkur og börnunum okkar best og vera okkar eigin sérfræðingar ef svo má segja. Eftir því sem börnin verða eldri mun ég leggja áherslu á þau gildi að leggja hart að sér, vinna fyrir hlutunum og bera virðingu fyrir náunganum og umhverfinu.“

Kristel og Gunnlaugur eru með góðar áherslur í uppeldinu.
Kristel og Gunnlaugur eru með góðar áherslur í uppeldinu.

Hvað er efst á óskalistanum á heimilið í haust?

„Ég er svo heppinn að inn á þetta svæði stíg ég ekkert. Það er mikilvægt að það séu ekki of margar skoðanir eða of margir stjórar á heimilinu, svo að þarna sit ég hjá. Kristel hefur séð um það hingað til að innrétta heimilið og stendur sig vel í því, svo að ég hef ekki fundið tilgang í því að skipta mér af þeim málum.“

En í fataskápinn?

„Ég held að það væru bara föt á ófædda strákinn okkar eða Arnar Inga, eða jafnvel á Kristel. Ég er mjög minimalískur þegar kemur að fatnaði. Alltaf í stuttbuxum, Gulli Arnar stuttermabol og hálfrenndri flíspeysu, sama hvert tilefnið er! Ég verð líklega síðasti maðurinn til að sitja fyrir í tískutímariti.“

Feðgarnir á uppáhaldsstaðnum, í bakaríinu í Hafnarfirði.
Feðgarnir á uppáhaldsstaðnum, í bakaríinu í Hafnarfirði.

Hvaða hlaðvarp er í mestu upp­á­haldi hjá þér?

„Ég hlusta alltaf á Dr. Foot­ball og Blök­astið. Í þeirri vinnu sem ég er í, þar sem maður er vak­andi stærst­an tíma sól­ar­hrings­ins, þá þarf maður mikla afþrey­ingu svo ég hlusta mikið á hlaðvörp. Ég hlusta mikið á spjall og viðtalsþætti eins og Chess Af­ter Dark og Þjóðmál. Í raun skipt­ir ekki máli hvert hlaðvarpið er, ef viðmæl­and­inn vek­ur áhuga minn þá hlusta ég.“

Hvað finnst þér skemmti­leg­ast að baka?

„Flagg­skipið í baka­rí­inu eru osta­slauf­urn­ar okk­ar en við ger­um hátt í 100.000 stykki af osta­slauf­um á ári. Það verður því að standa upp úr að það er skemmti­leg­ast að baka osta­slauf­urn­ar. Ég held að flest­ir í baka­rí­inu séu sam­mála því en til þess að gera þær jafn góðar og þær eru krefjast þær ná­kvæmni, skipu­lags og góðrar sam­vinnu. Þær tikka því í öll box.“

Ostaslaufurnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá Gunnlaugi.
Ostaslaufurnar eru í sérstöku uppáhaldi hjá Gunnlaugi.

Hvaða bók last þú síðast?

„Ég hlusta mikið á hlaðvörp en ekki á hljóðbækur. Ég hef svo alla tíð átt erfitt með að lesa bækur, hef lesið eina setningu og svo er áhuginn horfinn. Ég vil frekar hafa efnið sem ég hlusta á stutt og hnitmiðað, sem heldur athygli minni.“

Hvaða þætti ertu að horfa á núna?

„Ég horfi mjög lítið á sjónvarp og hef til dæmis ekki séð þessar frægustu þáttaraðir sem flestir hafa séð eins og Game of Thrones, Breaking Bad, Stranger Things eða annað slíkt. Ég horfi á fótbolta og aðrar íþróttir, annars dett ég bara inn í það sem Kristel er að horfa á.“

Áttu þér upp­á­haldsveit­inga­hús?

„Þau eru nokk­ur en ég myndi segja að Apó­tekið eigi sér­stak­an stað í hjarta okk­ar Kristel­ar en við höf­um verið dug­leg í gegn­um tíðina að fara þangað. Eft­ir að við eignuðumst barn er al­geng­ast hjá okk­ur að fara á mat­hall­ir og stend­ur Póst­hús mat­höll­in niður í bæ upp úr, hún er í upp­á­haldi hjá okk­ur. Það er þægi­legt, auðvelt, fljót­legt og gott að fara þangað, sér­stak­lega þegar Arn­ar Ingi er með, en hann get­ur verið óþol­in­móður og er ekki kom­inn með alla borðsiði á hreint.“

Feðgarnir í góðum gír.
Feðgarnir í góðum gír.

Hvaða manneskja hefur haft mest áhrif á líf þitt?

„Þegar stórt er spurt ... ég verð að nefna hér bara allt mitt nánasta fólk. Ég er heppinn með bæði samheldna fjölskyldu og tengdafjölskyldu sem maður getur alltaf reitt sig á. Mamma og pabbi hafa verið góðar fyrirmyndir og kennt manni góð gildi til þess að ná markmiðum sínum. Svo segir það sig að sjálfsögðu sjálft að Kristel og Arnar Ingi, og rétt ókomni strákurinn okkar, hafa mestu áhrifin á líf mitt.“

Hvernig núllstillir þú þig?

„Eftir langa vinnudaga fram eftir kvöldi finnst mér oft best að kveikja á svokölluðu heilaleysi, eins og einhverjum þætti úr Draumaseríunum með Audda og Sveppa. Göngutúr með hundinn, að hjóla með Arnar Inga eða spila golfhring eru allt góðar leiðir til að kúpla sig út eftir amstur dagsins.“

Bakkelsið hjá Gunnlaugi gleður ekki einungis bragðlaukana heldur líka augað.
Bakkelsið hjá Gunnlaugi gleður ekki einungis bragðlaukana heldur líka augað.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda