Rómantíkin heldur áfram að blómstra hjá stórstjörnum tíunda áratugarins, Nelly og Ashanti, en nýgiftu hjónin hafa nú tilkynnt að þau eigi von á öðru barni, aðeins þremur mánuðum eftir að fyrsta barn þeirra hjóna kom í heiminn.
Nelly og Ashanti gengu í það heilaga með leynilegri athöfn í St. Louis í desember í fyrra. Ashanti, 44 ára, og Nelly, 50 ára, hittust fyrst á blaðamannafundi Grammy-verðlaunanna árið 2003 og úr varð áratugalangt samband sem upp úr slitnaði árið 2013.
Í apríl á síðasta ári urðu heldur betur óvæntir endurfundir þegar þau rákust hvort á annað á hnefaleikabardaga í Las Vegas. Ashanti hefur sagt í viðtali að Nelly sé sálufélagi hennar og segir hann að það að fólk sé í sundur verði til þess að það skilji hvort annað betur.
Hjónin hafa einnig gefið út tvö lög saman, Body on Me sem kom út árið 2008 og This Lil’ Game We Play sem kom út á þessu ári. En þau segja samstarfið í tónlist einnig færa þau nær hvort öðru.
Nelly á tvö börn úr fyrri samböndum, Cornell III (Tre) og Chanelle (Nana), en hann hefur einnig gengið frænku sinni og frænda, Sidney og Shawn, í föðurstað eftir að hann missti systur sína Jackie Donahue árið 2005.