Gaupi, sem fagnar 71 árs afmæli sínu um miðjan júlí, lét af störfum sem íþróttafréttamaður árið 2023 eftir rúmlega 30 ára feril en ástríða hans fyrir íþróttum, þá sérstaklega boltaíþróttum, hefur ekkert dvínað og fylgist hann gaumgæfilega með öllu sem gerist innan vallar og utan.
Gaupi er giftur Karen Christensen og á með henni tvö börn, þau Snorra Stein Guðjónsson, landsliðsþjálfara íslenska karlalandsliðsins í handbolta, og Dórótheu Guðjónsdóttur, ráðgjafa hjá TVG-Zimsen. Hann varð afi 53 ára gamall þegar Snorri Steinn og eiginkona hans, Marín Sörens Madsen, eignuðust son árið 2008. Þau bættu svo tveimur afadætrum í hópinn 2012 og 2017.
„Það er yndislegt að vera afi. Ég og Karen búum í næsta húsi við Snorra Stein, Marín og börn sem auðveldar ýmislegt. Það er stutt fyrir börnin að fara til að fá afaknús.“
Hvernig leið þér þegar þú varðst afi?
„Bara ótrúlega vel. Barnabörnin fæddust öll erlendis, drengurinn kom í heiminn í Danmörku og stúlkurnar fæddust í Frakklandi. Ég og Karen vorum ekki lengi að pakka í töskur og fljúga út þegar þau fæddust. Að vera afi er mikil ábyrgðarstaða, að fylgja barnabörnunum eftir og vera í góðum samskiptum við þau. Það er gefandi og skemmtilegt að vera afi.“
Hver er helsti munurinn á afahlutverkinu og föðurhlutverkinu?
„Ábyrgðin! Maður ber ekki ábyrgð á barnabörnunum alla daga, maður nýtur þeirra forréttinda að þau kíkja í heimsókn, taka létt spjall og eyða tíma með manni, en um leið og þau fara þá eru þau á ábyrgð foreldranna,“ segir Gaupi léttur í bragði.
Ertu afi sem skiptir sér mikið af uppeldinu?
„Nei, alls ekki. Ég skipti mér ekki af því. Barnabörnin mín vita að þau geta leitað til mín hvenær sem er, þau vita að afi er ávallt til staðar, en ég fylgi þeim eftir í leik og starfi, styð þau og hvet þau áfram. Ég segi þeim ekki til, það er hlutverk foreldranna.“
Eins og áður kom fram þá á Gaupi þrjú barnabörn sem eru íþróttasinnuð.
Þú ert mikill íþróttaáhugamaður, er ekki gaman að fylgjast með börnunum í íþróttum?
„Jú, það er skemmtilegt. Handboltinn hefur bæði verið vinnan mín og aðaláhugamál alla tíð, það gefur mér því mikið að horfa á barnabörnin á vellinum.“
Hvað finnst þér skemmtilegast að gera með barnabörnunum?
„Mér finnst gaman að fylgjast með þeim þroskast, taka þessi skref sem allir taka. Þetta eru yndislegir krakkar og það er gaman að vera í kringum þau. Ég segi stundum: „Þetta er afskaplega skemmtilegt og gáfað fólk.““
Sérðu þig í börnum þínum eða barnabörnum?
„Ég veit það ekki, kannski smá í nördaskapnum,“ segir hann og hlær. „En það er líklega eljan og viljinn til að gera vel í námi og íþróttum, en ég var nú samt ekkert sérstaklega sterkur á bókina, þokkalegur svona.“