Gott er að hugleiða hvernig hægt sé að nota skjáinn til að styrkja önnur áhugamál eins og íþróttir, útivist, list og aðra skapandi vinnu. Þetta segir taugasálfræðingurinn Randy Kulman í grein á Psychology Today. Hann bendir á að of margir foreldrar segi skjátíma helsta þrætuefnið á heimilinu.
Í grein sinni vísar Kulman á bók eftir sálfræðinginn Adam Alter, Irresistible (2018), sem gerir aðdráttarafli tækninnar góð skil. Í bókinni bendir Alter á hve erfitt er að slíta sig frá skjánum vegna breytilegrar endurgjafar, samsvörunar, skorts á því að efnið taki enda, gervimarkmiða og óleystra verkefna (e. cliffhangers) og virðist tæknin sérsniðin að heila barna (og fullorðinna), sem gerir að verkum að enn erfiðara verður að takmarka skjátímann.
Til að takmarka skjátíma barna þurfa foreldrar fyrst að takmarka eigin skjátíma, samkvæmt Kulman.
Á tækniöld og í hringiðu skjánotkunar þurfa foreldrar að gera aðrar samverustundir spennandi valkost fyrir börnin, t.d. að fara á söfn, stunda útvist og auðvitað að fara saman á einn besti staðinn þegar kemur að því að sleppa skjánotkun; sundlaugina.
Það er mikilvægur hluti af daglegu lífi barna að þau geri eitthvað sem krefjist félags- og líkamlegrar örvunar, efli ímyndunaraflið og sköpunargáfuna. Þau þurfa að geta verið í óskipulögðum leikjum.
1. Skjátími næri annars konar afþreyingu
Skjátíma þarf að hugsa sem hluta af heildarmynd í degi barnsins með því t.d. að nota skjáinn til að efla annars konar afþreyingu. Rannsóknir hafa sýnt t.d. að börn sem spila rafræna íþróttaleiki eru líklegri til að stunda íþróttir heldur en þau börn sem gera það ekki.
2. Heilbrigð afþreying
Í stað þess að einblína of mikið á að minnka skjátímann er hægt að leggja áherslu á ánægjuna sem fæst af þeim tíma sem ekki er varið fyrir framan skjáinn. Kulman bendir einnig á að þakka megi fyrir skjátímann sem hafi átt þátt í að þriggja ára börn kunni að lesa, sjö ára börn hafi yfirgripsmikla þekkingu á dýraríkinu, níu ára börn geti átt í fjarsamskiptum við ömmu sína og afa og tólf ára börn hafi þekkingu í forritun.
3. Ekki láta áhyggjur af skjátíma ná yfirhöndinni
Ef foreldrar verða of strangir varðandi skjátíma getur það leitt til þrálátra deilna heima fyrir. Það er allt í lagi að veita auka skjátíma á tímum sem foreldrar þurfa að sinna öðrum mikilvægum verkefnum, t.d. að elda kvöldmatinn. Þá getur skjárinn reynst bjargráð á dauðum stundum eins og í löngum bílferðum og á biðstofunni hjá lækninum.
4. Að stuðla að betri ákvarðanatöku varðandi skjátíma
Samkvæmt Kulman getur verið gott að eiga reglulegar samræður við barnið um hvernig hægt sé að finna jafnvægi á milli skjátíma og annarrar afþreyingar. Hægt er að kenna börnum að meta þetta jafnvægi sjálf, en þó er mikilvægt að stíga inn ef þau eru ófær um það.
5. Skjátími þarf að vera einstaklingsbundinn
Ef foreldri líkar illa við ofbeldisfulla tölvuleiki sem barnið þeirra spilar er um að gera að banna þá, þótt vinirnir fái að spila slíka leiki. Ef barn á í námserfiðleikum er kjörið að tryggja að barnið noti skjáinn í t.d. leiki sem hafa vitsmunalegan ávinning.
Hallelúja!