Saga Ýrr Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður er með mörg gullkorn þegar kemur að barnauppeldi. Í gegnum störf sín hefur hún komist að því að foreldrar ættu eftir fremsta megni að setja hamingju barna sinna í forgang.
„Ég er númer eitt, tvö og þrjú mamma, eiginkona og temmilega lélegur skemmtikraftur en starfa sem hæstaréttarlögmaður og kenni lögfræði við Háskólann á Akureyri. Auk þess er ég virkur meðlimur í línudansklúbbi þar sem ég stunda það að klessa á vinkonur mínar í danstímum, ég er í bókaklúbbi þar sem ég hringi iðulega í einhverja af vinkonunum og fæ samantekt á bókunum fyrir hitting, saumaklúbbum þar sem enginn kann að sauma og svo margt fleira. Þessir skemmtilegu hópar eru til af því að ég tók ákvörðun fyrir nokkru að segja alltaf já við nýjum áskorunum,“ segir Saga Ýrr.
„Ég er gift Sturlu B. Johnsen lækni og á tvö börn, Patrek sem er 15 ára, og Úlfhildi, sem er 9 ára, úr fyrra hjónabandi og svo fylgdu Stulla mínum tvö yndisleg bónusbörn, Tómas sem er 24 ára og Benedikt sem er 21 árs. Þá má alls ekki gleyma kisanum Mjása og hundinum Loppu sem tengja þetta allt vel saman. Tvö yngstu börnin búa hjá okkur og það er því stanslaust líf og fjör í kringum mig og ég man ekki hvenær mér leiddist síðast.“
Saga segir að það sé áskorun að blanda saman fjölskyldum.
„Ég er einstaklega heppin með hvað öllum börnunum kemur vel saman og að eiginmaður minn tók börnunum mínum sem sínum eigin. Skilnaður foreldra og breytingar sem því fylgja eru alltaf erfiðar fyrir óharðnaðar sálir, bæði hvað varðar fjarveru frá foreldrum, búferlaflutninga og í raun nýtt líf. Ég er því óendanlega þakklát fyrir það hversu mikil gleði ríkir á heimili mínu í dag.“
Saga Ýrr segir að uppeldi sé verkefni þar sem fólk verður að reyna að verða betri í dag en í gær.
„Við þurfum að muna að við erum með börnin að láni og eigum ekki að mála þau í okkar eigin litum. Ég reyni eftir fremsta megni að vera jafningi barnanna minna, forðast að vera þroskaþjófur og hlusta frekar en að segja til, því oftar en ekki þá þurfa þau frekar á stuðningi að halda en að ég vísi þeim veginn.
Úr þessu verður flæði þar sem þau kenna mér hvernig ég verð betri uppalandi dag frá degi. Við kvöldverðarborðið spyr ég þau alltaf hvenær þeim hafi liðið best yfir daginn og hvenær verst. Af þessu skapast umræður sem gefa mér oftar en ekki innsýn inn í líf þeirra sem ég annars ekki fengi. Þá spyr ég þau reglulega óhikað að því hvað þeim finnist að ég eigi að gera betur í uppeldinu. Með þessu skapast ákveðið jafningjasamband þar sem allar skoðanir fá jafnt vægi og ég fæ tækifæri til þess að bæta mig,“ segir Saga Ýrr sem sjálf er mjög náin foreldrum sínum.
„Ég bý nánast við hliðina á þeim í dag. Þau hafa alltaf lagt upp úr því að kenna mér sjálfstæði, sérstaklega mamma sem var stöðugt að hvetja mig til að prófa hluti sem ég hélt að ég gæti ekki. Þau hafa líka alltaf verið bjargvættirnir mínir, tilbúin með opna arma, heitt súkkulaði og stundum of slakar reglur. Ég er meiri reglupési en þau en foreldrar mínir og eiginmaður minna mig sem betur fer reglulega á að taka lífinu ekki of alvarlega.“
Saga Ýrr finnur fyrir algeru frelsi þegar börnin hennar eru annars vegar.
„Þeim er alveg sama hvort ég vinn mál eða tapa máli, hvað ég starfa við eða annað. Með þeim hverfa allar dagsdaglegar áhyggjur og lífið verður léttara og litríkara. Ég tek vinnuna ekki með mér heim, þannig að þegar ég stíg inn um dyrnar heima þá er ég komin í mitt öryggi. Úlfhildur er auðvitað yngst og sú sem sækir án efa langmest í félagsskap minn. Það er ekkert skemmtilegra en að vakna með henni á morgnana, setja tónlist á, syngja hástöfum á meðan við klæðum okkur, öllum öðrum fjölskyldumeðlimum til ómældrar skemmtunar. Þegar við erum öll saman komin við kvöldverðarboðið, og þá fylgja foreldrar mínir oft með, eru mikil læti, sterkar skoðanir, hlátur og gleði.“
Saga Ýrr áttar sig á að hvert aldursskeið krefst mismikillar athygli.
„Ég er svo heppin að eiga eina litla prinsessu sem finnst ekkert skemmtilegra en að eyða tíma með mömmu sinni. Hún er enn á þeim aldri að hún ætlar að verða alveg eins og mamma hennar þegar hún verður stór en ég geri mér grein fyrir því að það er stutt í að það breytist. Flestir myndu eflaust segja að við mæðgurnar hefðum alltaf verið óeðlilega nánar enda var hún fyrirburi með tilheyrandi áskorunum. Í byrjun sumars kom hún til mín og bað mig um að við færum tvær einar eitthvað saman. Hún var svo einlæg þegar hún lýsti því fyrir mér að hún vildi fá að sofna í fanginu á mér, vakna í fanginu á mér og spjalla við mig allan daginn án þess að nokkuð annað myndi trufla. Þá var Stulli auðvitað hennar helsti stuðningsaðili í þessari beiðni og því ekki annað hægt en að verða við þessu.
Áður en við fórum í ferðina tók ég ákvörðun að ég myndi láta hana stjórna ferðinni. Þetta er án efa ein besta ákvörðun sem ég hef tekið. Þetta leiddi til þess að ég hljóp borgina New York fram og til baka á hverjum degi, fór á íssafn, slímsafn, renndi mér í barnarennibraut, fór í leikhús, dansaði í M&M búðinni, borðaði poppkorn í morgunmat og ís í kvöldmat og lá svo tímunum saman uppi í rúmi að ræða við hana um lífið og tilveruna. Það er nefnilega ótrúlegt hvað börn sækja miklu meira í að eyða tíma með manni en veraldlega hluti. Bara það að rifja upp þessa ferð, öll knúsin og kossana sem ég fékk, verður til þess að mér verður hlýtt í hjartanu. Í ferðinni var það ég sem elti Úlfhildi en ekki hún mig og ég get svo svarið það, það var svo miklu skemmtilegra en ef það hefði verið öfugt.
Á sama tíma fengu Patti og Stulli smáfrí frá okkur stelpunum og þau nutu þess að láta ýmist bjóða sér í mat eða fara saman út að borða. Þessi tími var því ekki síður dýrmætur fyrir þá,“ segir Saga og bætir við: „Patti, þrátt fyrir að vera einungis 15 ára, er orðinn minn helsti spegill í daglegu lífi. Hann er svo mikið með allt sitt á hreinu að stundum finnst mér hann vera sá fullorðni í sambandinu okkar. Ég hef lært að treysta honum og hlusta á hann því hann hefur oft ótrúlega skýra sýn á hluti sem ég sjálf væri kannski enn að flækja. Hann er rólegur og yfirvegaður, og þegar allt er í stuði heima hjá okkur er hann sá sem heldur jafnvæginu. Stundum dregur hann mig niður á jörðina með einu hnyttnu orði, og það minnir mig á að jafnvel þótt hann sé sonur minn þá er hann líka einstaklingur með sína eigin rödd. Það er dýrmætt að sjá hann þroskast í sjálfstæðan mann og ég er ótrúlega stolt af því hvernig hann er að móta sitt eigið líf.“
Hvað varðar jafnvægi milli vinnu og fjölskyldulífs þá lærði Saga mest á reynslunni.
„Ég eyddi alltof löngum tíma í að reyna að vera fullkomin sem varð til þess að ég hreinlega týndi sjálfri mér. Það eru nefnilega bara 24 klukkustundir í sólarhringnum og ef þú eyðir of miklum tíma í einn hluta þá áttu minni tíma eftir fyrir aðra þætti. Einn daginn settist ég niður og hugsaði um það hvað það væri sem ég vildi í raun og veru, hvernig lífi ég vildi lifa og hvað þyrfti til þess að ég yrði hamingjusöm. Til þess að vera til staðar fyrir börnin mín þá þurfti ég að finna hamingjuna og taka erfiðar ákvarðanir í kjölfarið.
Það má segja að ég hafi kastað öllum spilunum upp á nýtt með tilheyrandi sársauka, raski og óreiðu. Þarna kom mamma, besta vinkona mín og mínir nánustu sterkir inn og studdu mig skilyrðislaust í mínum ákvörðunum og héldu í höndina á mér þegar hlutirnir urðu yfirþyrmandi. Þarna reyndi á öryggisnetið og verð ég þeim alltaf óendanlega þakklát fyrir að hafa verið minn styrkur þegar mig skorti hann. Eftir að hafa gengið í gegnum skilnað sjálf hef ég lært mikilvægi þess að vera til staðar í slíkum kringumstæðum, ekki aðeins fyrir báða aðila heldur líka fyrir börnin sem standa oft í miðjunni.
Í dag er líf mitt komið í gott jafnvægi og ég er sátt við að vera ófullkomin. Ég forgangsraða öðruvísi en áður, frekar að setja bananabrauð í ofninn en setja stór mál á dagskrá. Ég stefni á að vera meira heima, ilmandi af kanil og hlátri, frekar en stressi og skjölum. Því þegar upp er staðið eru það einföldu augnablikin – samtölin við börnin og eiginmanninn, hláturinn við kvöldverðaborðið og ilmurinn af nýbökuðu brauði – það sem skiptir mestu máli,“ segir Saga.
Sem lögmaður býr Saga við þau forréttindi að geta verið til staðar fyrir fólk á þeirra bestu og verstu tímum að hennar sögn. Þetta kennir manni auðvitað margt. „Ég hef til að mynda komið að mörgum málum er varða börn og allar tegundir af deilum um þau. Í fullkomnum heimi þá ættu foreldrar alltaf að setja hamingju barna í forgang og elska þau meira en þeim kann að líka illa við þann sem þau eiga börnin með. Að mínu mati er mikilvægt, með tilliti til hagsmuna barna, að allt kerfið sem snýr að skilnaði og forsjá barna verði einfaldað. Það á til að mynda enginn einstaklingur að geta neitað öðrum einstaklingi um lögskilnað og það er fornaldarlegt að mínu mati að ef einstaklingi er neitað um skilnað að hann þurfi fyrst að fara með málið í gegnum sýslumann og síðan fyrir dóm með tilheyrandi kostnaði. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga í okkar réttarkerfi.
Sömu sögu er að segja um forsjá barna. Að mínu mati ætti það ferli að vera mun einfaldara en það er og skjótvirkara. Biðtími hjá sýslumanni er langur og það er þyngra en tárum taki þegar slík mál enda fyrir dómstólum. Þegar svo fer verður biðtíminn enn lengri, kostnaðurinn meiri og sársaukinn eftir því.
Á bak við öll þessi mál má ekki gleyma að það eru saklausar sálir, börnin, sem lenda verst í þessu. Þetta er eitthvað sem við sem samfélag ættum að laga.
Ég held að við ættum að reyna að taka börnin okkar til fyrirmyndar. Ef ekki börnin þá hundinn minn, hana Loppu. Það að lifa í augnablikinu, taka öllum fagnandi, elska skilyrðislaust, samgleðjast öðrum, dæma engan, sjá það góða í fólki og borða endalaust af ís myndi gera lífið svo miklu skemmtilegra,“ segir Saga Ýrr.