„Það vissulega breytir öllu að eignast barn og áherslur í lífinu verða allt aðrar. Sjálf upplifði ég mikla þörf fyrir skipulag, sérstaklega þar sem ég eignaðist mitt fyrsta barn á meðan ég var í námi. Foreldrahlutverkið hefur kennt mér að vera meira í núinu og kunna að meta einfaldleikann. Það er ótrúlega gefandi og algjör forréttindi að fá að upplifa lífið í gegnum augu barnanna,“ segir Sara Messíana Sveinsdóttir lögfræðingur sem býr í Vesturbænum með unnusta sínum Bjarna Geir Gunnarssyni sjúkraþjálfara, fimm ára dóttur þeirra Andreu Kristínu og nýfæddum syni sem fæddist 1. ágúst síðastliðinn.
„Í vor keyptum við íbúð sem Bjarni var að gera upp í allt sumar með góðri aðstoð og fluttum inn rétt fyrir settan dag. Nú erum við að koma okkur fyrir á nýju heimili ásamt því að njóta þess að vera í fæðingarorlofi.“
Voru meðgöngurnar svipaðar?
„Meðgöngurnar voru mjög svipaðar. Ég var heilsuhraust og fannst gott að geta viðhaldið hreyfingu allan tímann. Sú fyrri var þó á sama tíma og kórónuveiran skall á árið 2020 og setti svip sinn á upplifunina. Fæðingarnar hafa einnig gengið vel en voru mjög ólíkar. Í seinna skiptið var ég svo lánsöm að fá að upplifa algjöra draumafæðingu,“ segir Sara.
Aðspurð hvað hafi komið henni mest á óvart með að eignast barn segir hún magnað hvað hægt sé að fara í gegnum lífið á litlum svefni.
„Eins er áhugavert að fylgjast með því hvað tíminn líður hratt núna. Dagarnir geta verið mjög langir á meðan mánuðirnir eru stuttir.“
Hvað hefðir þú viljað vita fyrir barneignir sem enginn talaði um?
„Það er mikil áhersla á meðgöngu og fæðingu en að mínu mati fá fyrstu dagarnir eftir fæðingu og brjóstagjöfin minna vægi í umræðunni. Það kom mér á óvart hversu krefjandi og stórt verkefni brjóstagjöf er í raun. Með annað barn var ég hins vegar reynslunni ríkari. Ég undirbjó þessa „postpartum“-daga mjög vel og las mér mikið til um brjóstagjöf og hlustaði á alls konar hlaðvörp.“
Hvaða bækur, einstaklingur eða fræði tala mest til þín þegar kemur að foreldrahlutverkinu?
„Bókin How to Talk So Kids Will Listen & Listen So Kids Will Talk. Bókin sýnir hvernig hægt er að viðurkenna og spegla tilfinningar barna og skapa traust samband,“ segir Sara.
Aðspurð hvað sé fallegt að kaupa fyrir barnið segir hún margt heilla.
„Ýmis merki eru með fallegar vörur líkt og Wheat, Konges Sløjd, Huttelihut og Donsje en sjálf kaupi ég alls konar, bæði nýtt og notað. Dóttir mín elskar að klæða sig upp á og gengur til að mynda í 25 ára gömlum fötum af mér og systur minni sem mamma hefur geymt.“
Sara segir mikilvægt að gefa sér tíma að leika með börnum.
„Þó að það sé nóg að gera þá legg ég áherslu á að taka 15 mínútur í leik með börnunum og einfaldlega hlusta. Enginn skjár og engin truflun. Það geta átt sér stað mjög skemmtilegar samræður og mikil tenging.“
Hver er menning þinnar kynslóðar þegar kemur að foreldrahlutverkinu?
„Ég held að menning okkar kynslóðar sé sú að við reynum að mæta börnunum þar sem þau eru og við leggjum áherslu á að viðurkenna tilfinningar barna og gefa þeim tól til þess að skilja og tjá eigin tilfinningarnar. Það er lögð meiri áhersla á að hlusta á barnið og með því að hlusta opnum við dyr að trausti.“
Sara segir ýmislegt breytast með tilkomu barna. „Ferðalögin verða sem dæmi öðruvísi en þau verða ekki síður skemmtileg. Við höfum bæði farið til Tenerife og tvisvar til Stokkhólms í heimsókn til systur minnar en þau búa nálægt miðbænum í Stokkhólmi. Eins og margir vita er Stokkhólmur mjög barnvæn borg með leikvelli á nánast hverju horni og afþreyingu í boði fyrir börn úti um allt. Á Tenerife vorum við á GF Victoria-hótelinu á Adeje-ströndinni sem er með allt til alls fyrir börn. Mér finnst mjög mikilvægt að vera ekki með fulla dagskrá alla daga því bestu og fallegustu augnablikin verða oft til á rólegum dögum.“
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
„Við erum bæði mjög heimakær en við höfum bæði rætt þann möguleika að fara út í viðbótarnám á einhverjum tímapunkti ef það hentar fjölskyldunni. Það gæti verið lífsreynsla að gefa börnunum færi á að kynnast öðru samfélagi og prófa eitthvað nýtt. Það er aldrei að vita,“ segir Sara.