Sæunn Kjartansdóttir er sjálfstætt starfandi sálgreinir með langa reynslu af einstaklingsmeðferð og handleiðslu fagfólks í heilbrigðisþjónustu. Nýjasta bókin hennar Gáfaða dýrið kom út á síðasta ári en hún skrifaði bókina til þess að hjálpa fólki að þekkja dýrið innra með sér.
„Bókin varð þannig til að mig langaði að miðla einhverju af því sem ég hef lært á langri starfsævi. Ég ákvað að leggja áherslu á hversu hjálplegt það er að þekkja dýrið í okkur, en þar á ég við frumstæðar hugsanir og tilfinningar sem við höldum að geri okkur síðri en aðra, sérstaklega ef við erum félagslega einangruð og háð samfélagsmiðlum. Ef við kynnumst dýrinu og reynum að skilja það getum við betur skilið okkur sjálf og líka annað fólk, ekki síst börnin okkar.“
Rauði þráðurinn í bókinni er mikilvægi sjálfsþekkingar, en hún felur meðal annars í sér að gangast við þeim eiginleikum í okkur sem við erum hvorki stolt af né ánægð með.
„Í stað þess að afneita þeim eða breiða yfir þá viðurkennum við þá og reynum að skilja þá. Ef við köllum hlutina réttum nöfnum, sérstaklega tilfinningar okkar, verður lífið töluvert einfaldara.
Eitt af því sem vinnur gegn þekkingu á dýrinu er hvað við leggjum mikla áherslu á yfirborðið, til dæmis hvernig við lítum út. Við erum líka upptekin af gáfum, hraða og tækni en staðreyndin er sú að líðan okkar stjórnast bara að litlu leyti af gáfum og rökhugsun. Dýrið í okkur er miklu fyrirferðarmeira en vitsmunirnir og það verður mjög auðveldlega hrætt. Þegar dýrið er hrætt getum við ekki hugsað skýrt og alls ekki tekið góðar ákvarðanir. Þess vegna er grundvallaratriði að skilja dýrið og læra að róa það. Fyrr getum við ekki nýtt gáfurnar og rökhugsunina. Þetta sést mjög skýrt hjá börnum, þú nærð engu vitmunasambandi við barn í uppnámi, og það sama á við um fullorðna. Þeir geta heldur ekki hugsað skýrt þegar þeir eru hræddir, þeir eru bara þjálfaðri í að fela ótta sinn, bæði fyrir sjálfum sér og öðrum, því þeim finnst hann oft svo bjánalegur,“ segir hún.
Hentar bókin fyrir foreldra í leit að sjálfsþekkingu?
„Það er grundvallaratriði í öllum samskiptum að við reynum að skilja hvert annað og það á sérstaklega við um samskipti við börn. Við, fullorðna fólkið, þurfum að reyna að skilja hvers þau þarfnast, hvernig þeim líður, hvað þau eru að reyna að segja okkur og svo framvegis. Í öllum samskiptum, bæði við börn og fullorðna, notum við ekki bara hugann heldur líka tilfinningar og líkamlega skynjun til að miðla og meðtaka óorðaða tjáningu. Þetta er hluti af tjáskiptamáta dýrsins: Við vekjum tilfinningar í þeim sem við umgöngumst og við tökum við tilfinningum þeirra. Þess vegna er svo mikilvægt að auka þol sitt fyrir erfiðum tilfinningum og búa rými innra með sér til hugsa um þær áður en við bregðumst við,“ segir Sæunn.
Sjálfsþekking hjálpar okkur að þekkja þarfir okkar og aðgreina ólíkar tilfinningar að hennar mati.
„Því betur sem okkur tekst það því færari verðum við í að annast okkur sjálf. Sjálfsþekking bætir líka samskipti því hún hjálpar okkur að skilja aðra.
Ef við höfum verið alin upp við að tjáning tilfinninga hafi ekki verið leyfð höfum við ekki lært að þekkja þær og ekki fengið hjálp við að takast á við þær. Hvort tveggja er nauðsynlegt til geta brugðist við líðan á viðeigandi hátt, reiði kallar til dæmis á önnur viðbrögð en svengd eða þreyta. Og ef við þekkjum ekki okkar eigin tilfinningar eða höfum tilhneigingu til að gagnrýna þær er meiri hætta á að við gerum það sama við börnin okkar.“
Þú leggur einnig áherslu á samskipti í bókinni. Geturðu sagt okkur aðeins um það?
„Ég legg áherslu á samskipti í raunheimum sem ég held að eigi í vök að verjast fyrir netsamskiptum. Samskipti í gegnum tölvu og síma eru frábær viðbót og opna oft leiðir þar sem engar voru áður, til dæmis myndsamtöl á milli landa, en þau koma aldrei í staðinn fyrir líkamlega nánd því þar miðlum við svo mörgu sem tæknin fangar ekki. Í milliliðalausum samskiptum er líka er mesti möguleiki á að upplifa nánd og öryggi.“
Sæunn segir frumstæðar tilfinningar vera þær tilfinningar sem hafa fylgt manninum alla þróunarsöguna og haft það hlutverk að halda honum á lífi, sérstaklega reiði og ótti.
„Þær eru líka ráðandi fyrstu árin því þá höfum við óþroskaðan vitsmunaheila og getum ekki temprað þær. Umhverfi mannsins er auðvitað gjörbreytt en frumstæðu tilfinningarnar eru óbreyttar. Þetta þýðir að við bregðumst stundum við lítilfjörlegri ógn eins og hrætt dýr í lífshættu en það er vegna þess að dýrið kann ekki að lesa í aðstæður. Við þurfum að róa það og til þess þurfum við að viðurkenna ótta þess.
En það var ekki bara ótti sem hjálpaði við að halda okkur á lífi því það gerðu líka tengsl mannsins við aðra menn. Það sem skilur manninn frá öðrum dýrum er einmitt hæfni hans til að hjálpast að, setja sig í spor annarra og nota tungumál. Þessa hæfni þarf að kenna börnum og það er bara hægt að gera í samskiptum við fullorðna sem kunna að hlusta, róa dýrið í sér og setja líðan í orð,“ segir hún.
Ef foreldrar eiga að geta tekið frumstæðum tilfinningum barna sinna þurfa þeir að þekkja þær og þola í sjálfum sér að mati Sæunnar.
„Ung börn gera miklar kröfur, því þau eru svo ósjálfbjarga, og það getur vakið sterkar og oft erfiðar tilfinningar í foreldrum þeirra. Ef foreldrar skilja sín eigin tilfinningalegu viðbrögð eiga þeir auðveldara með að þola álagið sem fylgir foreldrahlutverkinu, dæma sig síður of hart og þá er minni hætta á að þeir láti líðan sína bitna á barninu.“
Sálgreining grundvallast á þeim atriðum sem Sæunn hefur nefnt í viðtalinu: Mótunaráhrifum barnæskunnar og mikilvægi sjálfsþekkingar, ekki síst því sem er ómeðvitað.
„Ég lít aldrei á hegðun eða einkenni sem vandamálið, þó að hvort tveggja geti verið truflandi, við þurfum alltaf að leita sögunnar á bak við söguna. Þá er gott að spyrja hvað gerðist og gefa sér tíma til að hlusta, bæði á það sem sagt er og eigin tilfinningalegu viðbrögð,“ segir Sæunn.