„Við tökum öll feilspor af og til“

Margrét segir það krefjandi en um leið afar gefandi að …
Margrét segir það krefjandi en um leið afar gefandi að samræma móðurhlutverkið og dansinn. Samsett mynd

Margrét Hörn Jóhannsdóttir er ung, glæsileg og hæfileikaríkur dansari sem hefur vakið verðskuldaða athygli bæði á dansgólfinu og á sviðinu. Hún hóf feril sinn snemma og hefur tekið þátt í vinsælum uppfærslum á borð við Skoppu og Skrítlu, Galdrakarlinn í Oz og Mamma Mia. Nú má sjá hana á Stóra sviði Borgarleikhússins þar sem hún er einn af dönsurum stórsýningarinnar Moulin Rouge!

Margrét varð móðir aðeins tvítug þegar hún og eiginmaður hennar, Hans Kragh Pálsson, eignuðust son sinn Jóhann Pál á aðfangadag árið 2019. Í dag er hann sex ára, en áður en hann fæddist hafði Margrét þegar fengið innsýn í móðurhlutverkið þar sem Hans á son úr fyrra sambandi.

Í þessu viðtali leiðir hún okkur inn fyrir tjöld Moulin Rouge!, segir frá reynslu sinni sem móðir og deilir fimm af sínum bestu uppeldisráðum.

Margrét ásamt eiginmanni sínum, Hans Kragh Pálssyni.
Margrét ásamt eiginmanni sínum, Hans Kragh Pálssyni. Ljósmynd/Aðsend

„Grét úr gleði þegar símtalið barst“

Þegar fregnir bárust um að Moulin Rouge! yrði sett á svið í Borgarleikhúsinu fylltist Margrét spennu og ákafa. Þetta var draumaverkefni fyrir unga dansarann – og hún var staðráðin í að vera með.

„Ég trylltist úr spenningi þegar ég frétti að Borgarleikhúsið væri að fara að setja upp Moulin Rouge! – og það í leikstjórn hinnar dásamlegu Brynhildar Guðjónsdóttur. Ég varð að vera með, enda er sýningin algjör draumur fyrir dansara. Ég mætti í krefjandi prufur, ásamt yfir 300 hæfileikaríkum dönsurum, og grét úr gleði þegar símtalið barst um að ég væri komin inn!

Það eru nefnilega oft ansi mörg „nei“ á móti hverju „já“ sem maður fær. Þess vegna verða þessi „já“ enn þá stærri – og þau vinda oftar en ekki upp á sig og opna enn fleiri dyr,“ segir hún.

Margrét ásamt dönsurum Moulin Rouge!
Margrét ásamt dönsurum Moulin Rouge! Ljósmynd/Heimir Sverrisson

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þú tekur þátt í söngleik, hvenær steigstu fyrst á svið?

„Ég tók þátt í minni fyrstu sýningu rétt tæplega ellefu ára gömul þegar Skoppa og Skrítla á Tímaflakki var sett upp á Litla sviði Borgarleikhússins. Þá greip leikhúsbakterían mig fyrir alvöru. Því næst kom Galdrakarlinn í Oz á Stóra sviðinu.

Eftir það hélt ég áfram að mæta í prufur en komst ekki inn, þannig að athyglin beindist meira að samkvæmisdansi og keppnisferlinum þar. Nokkrum árum síðar fékk ég hins vegar boð um að koma í prufur fyrir Mamma Mia! og ákvað þá að leggja keppnisskóna á hilluna og flytja heim til að einbeita mér að leikhúsinu og ljúka menntaskóla.

Fljótlega eftir útskrift kynntist ég Hansa mínum og við eignuðumst son okkar, Jóhann Pál, undir lok árs 2019. Svo skall Covid á og lítið var um vinnu að fá í listabransanum. Ég ákvað því að vera „praktísk“ og fara í háskólanám. Næringarfræði varð fyrir valinu og lauk ég BSc-gráðu í því.

Leikhúsið hefur þó alltaf togað í mig – og ég er ótrúlega glöð og þakklát að vera komin þangað aftur.“

Á Stóra sviði Borgarleikhússins skín Margrét í hópi dansara og …
Á Stóra sviði Borgarleikhússins skín Margrét í hópi dansara og leikarar Moulin Rouge! Ljósmynd/íris Dögg Einarsdóttir

Hvað finnst þér skemmtilegast við að taka þátt í svona stórri uppfærslu?

„Það er svo margt! Fyrst og fremst er það þessi magnaði og metnaðarfulli hópur sem ég fæ að vinna með á hverjum degi. Og auðvitað það að fá að dansa, leika og syngja á hverjum einasta degi – það er draumur.

Svo er algjör bónus að sjá gleðina skína úr andlitum gesta eftir alla vinnuna. Þá veit maður að markmiðinu er náð.“

Sýningin er sannkallað sjónarspil.
Sýningin er sannkallað sjónarspil. Ljósmynd/Íris Dögg Einarsdóttir

„Við erum ótrúlega heppin“

Hvernig hefur þér tekist að samræma móðurhlutverkið við krefjandi sýningarálag?

„Það hefur í raun gengið mjög vel, þó að það hafi vissulega tekið aðeins á mömmuhjartað að vera ekki alltaf jafn mikið heima. Við erum ótrúlega heppin að hafa gott fólk í kringum okkur sem hjálpar okkur að láta þetta allt ganga upp.

Mér finnst ótrúlega fallegt og mikilvægt að strákarnir sjái mig elta drauminn minn – að halda áfram að reyna og gefast ekki upp. Ég trúi því líka að ég verði skemmtilegri og betri mamma þegar ég er í vinnu sem ég nýt mín svo mikið í og fæ að blómstra.“

Margrét ásamt syni sínum, Jóhanni Páli.
Margrét ásamt syni sínum, Jóhanni Páli. Ljósmynd/Aðsend

Fimm uppeldisráð Margrétar

Ást, umhyggja og athygli!

  • Númer eitt, tvö og þrjú er alltaf ást, umhyggja og athygli. Nóg af knúsum, hrósum og samverustundum. Að skapa öruggt umhverfi þar sem barnið getur blómstrað.

Börnin læra það sem fyrir þeim er haft!

  • Gömul tugga en svo ótrúlega sönn. Það skiptir máli hvernig við komum fram við okkur sjálf og aðra, hvernig við tölum við/um okkur sjálf og aðra, hvernig við hreyfum okkur, nærum okkur og hvernig við eyðum tímanum okkar, því börn eru eins og svampar, þau sjá og heyra og taka eftir öllu. Við erum helstu fyrirmyndir barnanna okkar og það er svo mikilvægt að fara vel með það.

Virða samverustundir!

  • Samverustundir fjölskyldunnar virðast oft týnast í amstri dagsins, allir í vinnu, skóla, tómstundum, nóg að gera og allir að flýta sér, en mér finnst ótrúlega mikilvægt að skapa pláss fyrir þessar samverustundir og veita þeim fulla athygli. Þetta getur verið eins einfalt og að leggja frá sér símann og sýna því áhuga sem barnið er að gera, setjast með því í leik, spjalla, leyfa barninu að hjálpa t.d. við eldamennsku (þó að það taki lengri tíma og sé kannski ekki alveg eins og þú sást það fyrir þér..) lesa saman, spila, taka göngutúr, sundferð, skjálausar stundir við matarborðið o.s.frv.

Leiðbeina, ekki stjórna!

  • Það er mjög stór punktur fyrir mér. Hvernig við lítum á uppeldi per se, ég vil líta á það þannig að við séum að leiðbeina börnunum eins vel og við getum, frekar en að við séum að stjórna þeim og þau eigi að gera allt sem við predikum bara “af því að við segjum það”.
  • Setjum skýr mörk og reglur en útskýrum hvers vegna svo þau geti lært af hverju hlutirnir eru eins og þeir eru, af hverju er æskilegra að gera þetta frekar en hitt o.s.frv.
  • Verum óhrædd að ræða við börnin og höfum þolinmæði til að hlusta, gefum þeim rými til að segja frá svo að þau finni að þeirra skoðanir og tilfinningar skipta líka máli, eins og við viljum öll finna.

Við erum öll að gera okkar besta!

  • Við erum öll að gera okkar besta, og okkar besta getur verið mismunandi frá degi til dags og það er allt í lagi! Það er enginn fullkominn.
  • Við tökum öll feilspor af og til, þá er mikilvægt að taka ábyrgð, geta beðist afsökunar ef við á, lært af því og reynt að gera betur á morgun.

„Þetta er allt eitthvað sem ég reyni að hafa að leiðarljósi í uppeldi minna barna. Tekst það alltaf? Nei – en ég er enn að læra og held áfram að reyna mitt besta,“ segir Margrét að lokum.

Bræðurnar Alexander Páll og Jóhann Páll.
Bræðurnar Alexander Páll og Jóhann Páll. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

tannlæknir svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda