Birta Rós Davíðsdóttir tók fyrir fimm mánuðum að sér stærsta og mikilvægasta hlutverk sitt – móðurhlutverkið. Óléttan kom henni í opna skjöldu. Hún var einhleyp og stödd í afmælisferð vinkonu sinnar í Chicago þegar hún varð óvænt ólétt og hafði því leynigest með sér í fluginu heim.
Birta Rós er 26 ára einstæð móðir, fædd og uppalin í rokkbænum Keflavík. Áður en hún fór í fæðingarorlof starfaði hún sem flugfreyja hjá Icelandair. Hún kemur úr stórri og samheldinni fjölskyldu, á sjö yngri systkini, fjóra foreldra og nú fimm mánaða gamlan son, Aron Orra, sem hún segir vera ljósið í lífi sínu.
„Hann er allra besti vinur minn og við elskum lífið okkar saman,“ segir hún og bætir við: „Ég vil meina að ég eigi eitt besta og öflugasta bakland í heimi. Ég veit ekki hvar ég væri án þeirra allra.“
Hvernig leið þér þegar þú komst að því að þú værir ófrísk?
„Vá, ég fór í gegnum allan tilfinningaskalann – upp og niður, aftur og aftur. Ég var einhleyp og ekki í miklu sambandi við barnsföður minn sem býr í Bandaríkjunum. Tilhugsunin um að gera þetta ein hrædd mig mjög.
Eins og þú nefnir varstu ekki að hugsa um móðurhlutverkið þegar þú varðst ófrísk. Hvernig var það fyrir þig?
„Óléttan kom mér algjörlega á óvart. Þetta var ekki það sem ég hafði ímyndað mér á þessum tímapunkti í lífinu. Ég fór út til Chicago í afmælisferð með vinkonu minni, dvaldi þar í eina viku og flaug svo heim, algjörlega ómeðvituð um að með mér í vélinni var lítill leynigestur.“
Hvernig var að deila gleðitíðindunum?
„Það var bæði spennandi og skemmtilegt, en um leið dálítið skrýtið að þurfa að útskýra þessar óhefðbundnu aðstæður. Viðbrögðin voru misjöfn – hjá sumum tók smá tíma að átta sig á því að ég ætlaði að ganga í gegnum þetta ein, en í heildina voru þó viðbrögðin mjög jákvæð og fólkið í kringum mig tók þessu vel.“
Hvernig gekk meðgangan?
„Heilt yfir gekk meðgangan mjög vel. Ég glímdi þó við mikla ógleði alveg fram til tuttugustu viku, sem var krefjandi, en eftir það átti ég frekar ljúfa meðgöngu. Engir alvarlegir kvillar gerðu vart við sig, bara þetta klassíska, eins og brjóstsviði og þreyta.“
Hvernig leið þér þegar þú fannst barnið hreyfa sig og sparka?
„Fylgjan var að framanverðu, svo ég fann fyrir hreyfingum heldur seint á meðgöngunni. Þegar það gerðist var það hins vegar ótrúleg tilfinning – sérstaklega þegar hann byrjaði að pota linnulaust á milli rifbeina. Að finna fyrir litlu lífi sem maður er að skapa með eigin líkama er eitthvað sem erfitt er að lýsa – það er í rauninni alveg galið.“
Hvað var erfiðast yfir þessa níu mánuði?
„Á heildina litið átti ég mjög góða meðgöngu, en það erfiðasta var ógleðin – að geta ekki haldið neinu niðri í fimmtán vikur var virkilega krefjandi. Ég átti líka stundum erfitt með að finna föt sem voru bæði þægileg og mér fannst ég líta vel út í. Oft endaði það með því að ég var annaðhvort í jogginggalla með bumbuna út eða sama Skims-kjólnum dag eftir dag.“
Fannst þér meðgangan líða hratt?
„Já og nei. Nú þegar ég lít til baka finnst mér tíminn hafa flogið áfram – og hann gerir það enn. Ég horfi á son minn vaxa og dafna á ógnarhraða. En ég komst mjög snemma að því að ég væri ófrísk, sem gerði tímabilið að sumu leyti lengra. Ég var líka mjög slæm af ógleði á meðgöngunni, sem gerði hverja mínútu enn lengri. Ég hélt í vonina um að mér færi að líða betur eftir tólftu viku, en því miður gerðist það ekki. Þegar kom að tuttugustu viku var ég farin að telja niður dagana – jafnvel klukkustundirnar – og mér fannst tíminn standa í stað. Síðustu vikurnar liðu heldur ekki hratt, líklega vegna eftirvæntingarinnar.“
Varstu hrædd við að fæða?
„Nei, ég var alls ekki hrædd. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það var, en yfir mér var einhvern veginn alger ró alla meðgönguna þegar kom að fæðingunni. Ég horfði á þetta sem risastórt verkefni sem myndi fara fram á einn eða annan hátt – og þá var alveg eins gott að stressa ekki líkamann fyrir fram.“
Hvað gerðirðu til að undirbúa þig undir fæðinguna?
„Ég gerði í raun lítið annað en að hughreysta sjálfa mig. Ég var dugleg að hvetja mig í gegnum alla meðgönguna og segja við sjálfa mig að þetta myndi einfaldlega gerast og að það væri ekkert sem ég gæti gert til að komast hjá því, svo best væri að vera bara róleg. Ég var líka dálítið hrædd við að kynna mér þetta of mikið og held að það hafi hjálpað mér að vita bara nóg, en ekki of mikið. Í lok meðgöngunnar fór ég svo í undirbúningsnálastungu nokkrum sinnum, sem á að hjálpa til við útvíkkunartímann.“
Hvernig gekk fæðingin?
„Fæðingin gekk mjög vel. Ég fór af stað um eittleytið aðfaranótt 21. apríl. Mamma kom með mér og við fórum saman niður á HSS til að láta athuga hvort allt væri í lagi með litla manninn minn og fá staðfestingu á því að ég væri farin af stað. Allt leit vel út og ég var komin með þrjá í útvíkkun. Ég fór heim og reyndi að hvíla mig, en það gekk lítið sem ekkert þar sem verkirnir og hríðarnar stigmögnuðust frekar hratt. Klukkan sex mætti ég aftur upp á HSS og þremur klukkutímum síðar, klukkan 9:11, fæddist hann.“
Var einhver sem studdi þig í fæðingunni?
„Já, mamma mín var með mér allan tímann, frá upphafi til enda. Ég hefði ekki getað gert þetta án hennar.“
Hvernig var að fá barnið í fangið?
„Það er erfitt að lýsa því með orðum. Allt breyttist á augabragði – heimurinn minn varð stærri og fallegri um leið og ég heyrði son minn gráta.“
Hvernig voru fyrstu vikurnar?
„Fyrstu vikurnar voru krefjandi. Það var skrítið að allt í einu vera komin heim með lítið barn og þurfa að redda sér sjálf. Nokkrum sinnum hugsaði ég með mér hvað ég væri eiginlega búin að koma mér út í – og var næstum því búin að gefast upp. En þegar Aron var orðinn rúmlega eins mánaðar gamall vorum við farin að kynnast betur og læra hvort á annað. Síðan þá hefur þetta gengið eins og í sögu. Honum líður vel og hann er svo vær – heimsins bestur.“
Hvað kom þér einna helst á óvart við móðurhlutverkið?
„Þegar ég varð mamma vissi ég að lífið myndi breytast, en ég áttaði mig ekki á hversu mikið eða á hvaða hátt. Ást mín til hans var strax svo ótrúlega sterk og hún veitir mér styrk á dögum þar sem þreytan vill taka yfir.
Móðurhlutverkið getur verið gríðarlega krefjandi á mismunandi vegu, en þrátt fyrir allt væri ég ekki til í að breyta neinu. Ég elska lífið okkar saman meira en allt og trúi því að hlutirnir gerist af ástæðu – hvort sem við skiljum það eða ekki.“
Ertu með einhver ráð fyrir verðandi mæður?
„Treystið innsæinu ykkar, það er engin ein rétt leið til að ala upp barn. Ekki gleyma sjálfum ykkur og hugið að eigin heilsu, bæði andlega og líkamlega. Og það er algjörlega í lagi að biðja um aðstoð þegar þörf krefur.“