Myndi aldrei reyna að bakka í stæði

Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi.
Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi. mbl.is/Rósa Braga

Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins myndi taka Alan Davies með sér í matarboð ef hún mætti koma með leynigest.

Hvernig Facebook-týpa ertu? Þessi sem elskar Facebook.

Hvað fær þig til að hlæja? Alan Davies. Og reyndar flestir fastagestirnir í QI. En Alan er uppáhalds.

Hvaðan færðu innblástur? Á andvökunóttum, í rauðvínsspjalli með vinum mínum,  með rok í andlitinu og Muse í eyrunum og líka smá West Wing.

Hefurðu hent einhverju sem þú sérð rosalega eftir? Ég hef hent í status sem ég hef séð eftir.

Ef þú mættir koma með leynigest í matarboð, hvern myndir þú taka með þér? Alan Davies.

Lætur þú drauma þína rætast? Já. En suma þeirra er gott að hafa ennþá þarna á kantinum til að vísa manni veginn.

Borðarðu morgunmat? Nii. Þó ég viti að það ku vera óhollt þá læt ég kaffibolla yfirleitt duga fyrstu klukkustundir dagsins.

Hvað myndir þú aldrei gera? Reyna að bakka í stæði.

Í hvern hringir þú oftast og af hverju? Um þessar mundir eru flest mín símtöl tengd borgarmálefnum. En svona að meðaltali í gegnum árin á mamma eflaust vinninginn.

Hvort hugsar þú meira með hægra eða vinstra heilahvelinu? Hef ekki hugmynd. Það kannski svarar spurningunni.

Hvað borðar þú á sunnudögum? Eitthvað sem ég á pottþétt alveg skilið.

Hvað er þitt „guilty pleasure“? Ég elska Ugly Betty.

Áttu líkamsræktarkort? Ég er styrktaraðili.

Ef þú mættir gera gamaldags símaat, í hvern myndir þú hringja og hvað myndir þú segja í símann? Luke. I am your mother.

Hvernig myndirðu lýsa fatastílnum? Ég myndi í alvöru ekki einu sinni reyna það. Held að hann sé mjög ósérstakur.

Tekurðu áhættu þegar útlitið er annars vegar? Þegar ég var átta ára fannst mér ég vera svo sæt þegar ég vafði handklæði utan um hausinn eftir bað og fannst mikil synd að það sæi mig enginn svona sæta. Ég stal því stóra græna treflinum hennar mömmu, vafði eins og handklæði um hausinn og labbaði roggin um allt hverfið. Síðan hefur þetta eiginlega verið down hill.

Ertu með eða á móti fegrunaraðgerðum? Ég er almennt bara hlynnt því að fólk geri það sem það vill.

Hvað er það fyndnasta sem þú hefur lent í? Margrét vinkona myndi segja frá því þegar ég fór í fyrsta skipti í pedicure. Ég vissi ekki að maður mætti ekki fara heim í lokuðum skóm til að eyðileggja ekki lökkunina. Ég labbaði því heim um götur London með nýja rauða naglakkið í neongrænum og alltof stórum einnota pappírssandölum, henni til mikillar kátínu.

Uppáhaldshlutur? iPhone-inn minn með Duolingo appinu. Það er nýjasta æðið mitt þar sem ég get lært ítölsku eins og í tölvuleik. Með áframhaldandi iðkun spái ég að ég verði altalandi innan skamms. Ég er reyndar enn bara á matar-level en ég get aldeilis sagt að Io cucino una cipolla.

Helsta fyrirmynd þín í lífinu? Hildur sem ég er alltaf að reyna að verða.

Hverju myndirðu breyta í lífi þínu ef þú gætir? Ég væri kærasta Alan Davies.

Hefurðu gert eitthvað sem þú sérð eftir? Yfirleitt eitthvað alla daga.

Það besta við Ísland? Hvað það er stórt; það er hægt að vera týndur á augnabliki í einhverri víðáttu og hefur endalausa möguleika til að gera vel.

Það versta við Ísland? Hvað það er lítið; það er stundum bara pláss fyrir eina skoðun og einn sannleika.

Lífsmottó? Why not!

mbl.is