Hvað myndir þú gera við peningana?

Eddda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi.
Eddda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

„Flestir kannast við leikinn sem kenndur er við frúna í Hamborg. Þrátt fyrir að hann gangi út á að láta ekki leiða sig í þá gildru að segja já, nei, svart eða hvítt, þá snýr grunnspurningin að peningum.

Ef til vill er stutt síðan þú lékst þennan leik en kannski hefurðu ekki leikið hann síðan í æsku. Hvort heldur sem er, langar mig að bjóða þér í stutt ferðalag. Mig langar að biðja þig um að staldra við og svara spurningunni góðu: Hvað gerðirðu við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Lygndu aftur augunum og taktu þér smá tíma. Gefðu ímyndunaraflinu lausan tauminn,“ segir Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching í sínum nýjasta pistli: 

Láttu þig dreyma

Hverju svaraðirðu? Keyptirðu þér hús? Hvernig var það? Var það draumahúsið þitt? Hvar í heiminum var það? Hvernig var veðrið? Hvernig var tilfinningin að eiga þetta hús?

Ef þú keyptir ekki hús, hvað keyptirðu þá? Léstu reisa skóla í Indlandi eða byggja brunn í Afríku? Keyptirðu flugmiða til að fara í heimsreisuna sem þig hefur alltaf dreymt um að fara í? Hvað sem það var, þá er mikilvægast að þú lést þig dreyma. Það er nokkuð sem fæstir leyfa sér. Að láta sig dreyma og leyfa sér að finna tilfinninguna sem fylgir draumunum. Sum okkar gera það endrum og sinnum en aðrir leyfa sér það sjaldan eða aldrei.

Walt Disney sagði svo eftirminnilega að ef þú getur látið þig dreyma, þá geturðu látið drauminn verða að veruleika. Það hefst allt þar. Þar liggur sköpunarkrafturinn. Þetta magnaða afl sem við búum öll yfir og er eins og orðin, til alls fyrst.

Draumórar eða hvað?

Það er gjarnan einn af ávöxtum þess að búa í litlu samfélagi að þeir sem láta sig dreyma stóra drauma og deila þeim með öðrum, eiga það á hættu að vera kallaðir draumóramenn eða þvíumlíkt.

Þessi lenska heldur sumum niðri þó hún sé sennilega helsta ástæða þess að aðrir hafa látið að sér kveða svo um munar. Þeir gera hlutina þrátt fyrir úrtöluraddirnar til að sanna hvað í þeim býr.

Hvort sem þú ert í hópi þeirra sem láta sig skoðanir annarra engu varða eða í hópi þeirra sem sýnir umheiminum aðeins brotabrot af því sem býr innra með þér, þá er eitt víst. Þetta er þitt líf og þú getur aðeins lifað því á eigin forsendum. Hvort sem þú velur að gera annarra forsendur að þínum eður ei, þá er valið þitt.

Lykillinn að fjárhagslegu frelsi

Fjárhagslegt frelsi er eitt af því sem flesta dreymir um og margir hafa að markmiði, leynt eða ljóst. Hvort sem það er markmið sem við ætlum okkur að ná á næstunni eða einhvern tíma á ævinni.

Einhver sagði að markmið væru draumar með dagsetningu. Það eru ýmsar kenningar að baki markmiðasetningu og sitt sýnist hverjum um hvað er rétt og ráðlegt í þeim efnum. Ég hef sjálf reynt ýmsar aðferðir og komist að mörgu áhugaverðu hvað markmiðasetningu varðar. En hver sem aðferðafræðin er sýna rannsóknir að það eru 95% líkur á að þú náir markmiði þínu innan settra tímamarka ef þú skrifar það niður. Þvínæst býrðu til áætlun og svo þarf að fylgja henni eftir. Það síðastnefnda reynist mörgum þó erfiðasti hjallinn.

Lestu pistla Eddu Jónsdóttur á Smartlandi mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál