Miðaldra kona talar út

Linda Baldvinsdóttir.
Linda Baldvinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

„Við lifum á skrýtnum tímum þar sem kærleikur og nánd hefur minnkað stórlega að mínu mati og kuldi, doði og „mér er sama“ hefur tekið við.

Mér finnst ég sjá þegar ég renni yfir tímalínuna á Facebook að flestir séu fullir af samkennd með erfiðleikum og sorgum þeirra sem þar opna hjörtu sín en velti því fyrir mér hvort það sé raunin, eða er þetta bara svona netsamhygð og kærleikur sem við þurfum ekkert að hafa fyrir nema að setja hjarta við stadusinn eða deila kannski sögunni sem verður svo gleymd innan sólarhrings á netinu, eða virkar þetta kannski með sama hætti í hinum raunverulega heimi, önnumst við þá sem þurfa þess með þar? Ég vona það svo innilega en eitthvað segir mér að þar vanti uppá,“ segir Linda Baldvinsdóttir markþjálfi í sínum nýjasta pistli: 

Tímarnir hafa líklega sjaldan eða aldrei verið betri hvað varðar efnahagslega velmegun þrátt fyrir hrun, og margir virðast geta fengið nánast allt sem þeir vilja a.m.k hér á vesturhveli jarðar. En á sama tíma hefur andleg vanlíðan sjaldan eða aldrei verið meiri og fátækt þeirra sem fátækir eru sjaldan verið meira áberandi.

Gamla fólkið okkar er fyrir í samfélaginu og ekkert pláss er fyrir þau hvorki á stofnunum né heimilum afkomendanna. Þau búa oft ein og afskipt og fá ekki inn á hjúkrunarheimilum eða viðeigandi stofnunum þó svo að þau séu fársjúk og ófær um að vera heima við. Og jafnvel þó að þau séu nú svo heppin að fá inni á einhverri stofnuninni og borgi með sér hundruð þúsunda á mánuði fá þau ekki að sturta sig daglega, nei nei einu sinni í viku er skammturinn. Veit satt að segja ekki hvort þetta stenst mannréttindalöggjöfina allt saman.

Í dag búa foreldrarnir heldur ekki hjá önnum köfnum börnum sínum á síðustu æviárum sínum þar sem börnin eiga nóg með sig og sína í lífsgæðakapphlaupinu og streitu dagsins í dag. Þau eiga nóg með að sinna sínum eign börnum eftir vinnu og hvað þá að sinna öldruðum foreldrum, og ekki gera kjarasamningar ráð fyrir því að veikindadagar séu greiddir vegna veikinda aldraðra foreldra.

Barnabörnin okkar fara á mis við kærleika, visku og umönnun ömmu og afa sem eru að halda sér ungum og flottum langt fram eftir aldri til þess eins að vera gjaldgeng á markaðnum, og þá er sama hvort ég er að tala um maka-markaðinn eða vinnu-markaðinn. Á þessum mörkuðum er reyndar ekki svo auðvelt að ná árangri á þegar þú ert kominn yfir miðjan aldur hefur mér sýnst. 

Gömlu góðu gildin eru á hröðu undanhaldi, upplausn fjölskyldunnar orðinn veruleiki og ungdómsdýrkunin í hæstu hæðum.

Einmannaleikinn er mikill meðal fullorðinna og barna líklega vegna þess að svo margir búa einir eða eru langtímunum saman einir, hjónaböndin eru einnota og skuldbindingin engin þrátt fyrir „uns dauðinn aðskilur okkur“ sé játaður frammi fyrir altarinu.

Einstæðar mæður og feður þræla sér út og hafa litla orku eða tíma fyrir börnin sem þau samt elska svo innilega. Þau eru uppfull af samviskubiti yfir því að geta ekki sinnt þeim betur og láta því kannski eftir þeim hluti sem eiga að bæta þeim skaðann en auka í raun bara á hann.

Börnin okkar eru uppfull af kvíða sem virðist aldrei hafa verið meiri en í dag samkvæmt nýlegum rannsóknum. Hegðunarvandi og athyglistengdir brestir allt um kring en engum dettur í hug að það gæti verið vegna þess að við lifum í firrtu þjóðfélagsmynstri sem heimtar fullkomnun  allra en lokar á samskipti og nánd.

Dagurinn í dag heimtar fallegt háskólamenntað keppnisfullt ungt grannt fólk í viðeigandi merkjafatnaði. Fólk sem drekkur kampavínið sitt úr kristalsglösum og tyllir sér á leðurklædda sófann sinn í stóra einbýlishúsinu. Í bílskúrnum stendur líklega líka nýi flotti jeppinn ásamt golfsettinu og snjósleðanum.

En í þessu fullkomna fyrirmyndarhúsi finnum við líka allar greiðslutilkynningarnar af húsnæðislánunum, bílalánunum, golfvallargjaldinu, Visareikningnum og námslánunum sem tekin voru til að hafa möguleika á góðu starfi.

Og til þess að hafa möguleika á vinnumarkaðnum í dag dugar ekkert minna en masters og eða doktorsgráður, semsagt a.m.k 6 til 8 ára framhaldsnám á námslánum hjá flestum.

Líklega verða þessi lán ekki að fullu greidd þegar gráðurnar ásamt eigendum þeirra fara niður á sex fetin sem við förum víst öll að lokum niður á.

Fjölskyldumynstrið gamla sem hélt landanum saman er að niðurlotum komið og sunnudagssteikin og vöfflukaffið hjá mömmu og pabba er ekki lengur til staðar nema hjá þeim sem neituðu að gefast upp fyrir þessu nýja streituvaldandi lífsmynstri sem marga er að drepa.

Þessir uppreisnarseggir héldu bara í hjónaböndin sín, fóru varlega í fjármálum, voru trygg sínum og unnu samviskusamlega að því að halda lífinu í lagi fyrir heildina.

En einnig þessir aðilar verða því miður varir við að samskiptin eru nánast engin við matarborðið því að allir eru í símanum að spjalla við einhverja aðra en gestgjafana og varla er litið á vöfflurnar eða gúmmelaðið sem er á boðstólnum á meðan það er borðað.

Margir eru uppfullir af höfnunartilfinningu og skammartilfinningu og þrátt fyrir að talað sé upphátt um eitt og annað í dag sem ekki var talað um hér áður fyrr eru margir faldir inni í sjálfum sér og treysta ekki öðrum fyrir sér.

Sambönd dagsins í dag eru mörg hver einnota og margir einstaklingar á mínum aldri og jafnvel yngri eru verulega hræddir við að fara í sambönd og þora ekki, eða treysta ekki á það að byggja upp sambönd vegna svika og leikaraskapar þeirra sem þeir lenda á úti á „markaðnum“. 

Kynlífs/ástarfíkn og klámfíkn hefur aldrei verið meiri, ofdrykkja, dópneysla eða hverskonar fjarvera frá sjálfum sér líklega sjaldan verið meiri heldur.

Framhjáhöld og óheilindi á netinu eru algeng og aldrei verið auðveldara en nú að fela slóð þeirra. Þú getur farið inn á vafra þar sem ómögulegt er að finna netsöguna þína og gerviprófílar hér og þar auðveldir kostir þeirra sem vilja fela sig á samfélagsmiðlum.

Tveir símar eru líka í gangi hjá þeim sem færastir eru á þessum felumarkaði. Annar þeirra opinber en hinn falinn fyrir makanum sem situr sárasaklaus heima og trúir því að hann sé í fallegu traustu hjónabandi.

Þrátt fyrir þetta allt saman erum við þó alltaf í makaleit þó að við varla treystum okkur í langtímasambönd. Ég held að það sé einfaldlega vegna þess að manninum var bara alls ekki ætlað að vera einum þrátt fyrir allt. 

Sem leiðir mig að því að tala aðeins meira um „markaðinn“.

Til þess að vera nú gjaldgeng á „markaðnum“ fram eftir öllum aldri rembumst við við að halda línunum í lagi með öllum mögulegum og ómögulegum ráðum og okkur er nokk sama hvort við myndum með okkur átraskanir á leiðinni eða gleypum í okkur stórhættulega stera, allt gert fyrir kjörþyngdina og sixpakkinn.

Og þegar fólk á mínum aldri er svo agalega heppið að finna eintak sem er ekki með skuldbindingar-fóbíu eða aðrar höfnunarraskanir byrjar fyrst ballið. Í þessum nýju samsettu fjölskyldum eru nokkrar mömmur og pabbar ásamt óteljandi ömmum og öfum sem safnast saman á tyllidögum ef ekki er ósamkomulag í gangi á milli þessara aðila það er að segja.

Börnin vita varla lengur hverjir eru þarna í kringum þau, hverjir eru blóðskyldir þeim og hverjir ekki. 

Erfitt er einnig fyrir nýju makana að samlagast þessu öllu saman þannig að skilnaðartíðnin er jafnvel hærri hjá þeim sem eru að fara af stað í sambúð í annað eða þriðja sinn en hjá þeim sem eru í sínu fyrsta sambandi.

En ég spyr mig...

Hvar er hamingjan og gleðin sem leita átti að? Gleðin yfir öllum nýju samböndunum, fínu kjörþyngdinni, dýru bílunum, sérhannaða golfsettinu, kristalnum og öllum fermetrunum?

Og ekki síður spyr ég mig að því hvað verður um þessa kynslóð sem þekkir ekki gömlu góðu gildin sem hafa haldið landanum og fjölskyldunni saman en í dag er reynt að fella þau sem flest?

Ég er að tala um kynslóðina (mína kynslóð og þá sem yngri eru) sem nú er á besta aldri og í fínu formi með nokkur hjónabönd að baki, nokkur einbýlishús, nokkrar barnsmæður/feður og fimm háskólagráður.

Hvað verður um það fólk þegar Newtonslögmálið tekur yfir og óhjákvæmilegi virðulegi efri aldurinn færist yfir (fyrir þá sem eru svo „heppnir“ að fá að eldast, ef það er þá heppni í dag)?

Þegar þau komast á aldurinn þar sem fáir eða enginn nennir að heimsækja þau og eða annast um þau, þar sem starfskraftar þeirra eru ekki lengur nothæfir, þar sem reynsla þeirra þekking og viska er lítils metin og rándýrir merkimiðar geta engu bjargað?

Tek það fram að ég get tekið helling af þessu öllu saman beint til mín.  Og þessar línur eiga heldur ekki að vera dómur á einstaklinga heldur frekar íhugun um þjóðfélagsgerðina sem við búum við í dag eins og ég sé hana, en kannski er ég bara pirruð heldri kona sem sé bara það sem glatast hefur á leiðinni en ekki það sem áunnist hefur og er gott. það er bara alls ekki útilokað. 

Líklega skrifaði ég þennan pistil vegna þess að hann á að vera hálfgert ákall til okkar allra um að við vöknum upp af værðarsvefni okkar og séum bara góð við hvert annað á meðan við erum hér og séum í samskiptum. Að við skoðum forgangsröð okkar og eins að skoða hvað það er sem gefur hina raunverulegu hamingju.

Og kannski á hann að vera ákall til okkar allra um að meta hvert annað meira en dauða hluti, og líklega er ég að biðja okkur um að virða reynslu og visku þeirra sem eldri eru og í raun að virða alla óháð stétt og stöðu.

Ákall um að við gefum af okkur andlega og veraldlega til þeirra sem þess þurfa með, og beiðni um að við hættum að meiða hvert annað, hunsa og hæða.

Mín einlæga trú er sú að með því að vera góð við hvert annað og að vera í nánum samskiptum  hvert við annað mætti minnka vanlíðan og sjálfsskaðandi hegðun verulega og því hvet ég okkur öll til þess að leggja okkur fram við að gefa samfélagi okkar, fjölskyldu og vinum kærleika okkar,viðveru og athygli.

„Í Bók bókanna má finna þetta vers um kærleikann:

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp. Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn. Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum. Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt. Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi.

Allt það besta og fallegasta sem lífið hefur uppá að bjóða finnum við ekki í dauðum hlutum, stórum húsum eða flottum bílum.

Við finnum það fallega í gefandi hjörtum sem full eru af löngun til að bæta heiminn. Við finnum það í gleðinni og hlátrinum, samskiptunum og andlegum snertingum manna á milli. Við finnum það besta í hjörtum sem hafa kærleika og visku til að gefa inn í aðstæður og til huggunar er erfiðleikar lífsins banka uppá hjá samferðafólkinu. Segjum eins og Sævar Karl sagði hér um árið, "ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta" 

En núna skal sú gamla hætta þessu neikvæðnistuði og fara sjálf að gera það sem hún getur gert til að bæta heiminn og ég lofa ykkur því að sjá heiminn bjartari augum í næsta pistli(og hætta að tuða). 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál