Vinna að vellíðan og fjárhagslegu sjálfstæði kvenna

Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Feel Iceland.
Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Feel Iceland. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hrönn Margrét Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Feel Iceland fór til Indlands síðasta sumar ásamt samstarfskonu sinni, Kristínu Ýr Pétursdóttur. Í þeirri ferð kynntist hún Dr. Harbeen Arora, stofnanda All Ladies League sem stendur fyrir Women Economic Forum. Samtökin ganga út á að stuðla að velferð, vellíðan og fjárhagslegu sjálfstæði kvenna og styrkja þær konur í leiðtogahlutverkum um allan heim. Nú er verið að vinna að því að halda Women Economic Forum á Íslandi. 

Þegar ég spyr Hrönn út í kynni þeirra Harbeen segir að þær hafi strax náð vel saman. 

„Ég fór til Indlands ásamt henni Kristínu Ýr þegar okkur bauðst að koma og kynna Feel Iceland vörurnar okkar fyrir áhugasömum Indverjum sem höfðu séð vörurnar hér á landi. Sendiherra Íslands í Indlandi hann Þórir Ibsen hélt utan um ferðina og bauð til sín áhrifafólki á Indlandi þar sem ég hitti hana Harbeen í fyrsta skipti. Við náðum mjög vel saman og hún var mjög áhugasöm um Ísland og þá kvenréttindabaráttu sem hefur átt sér stað hér á síðustu áratugum,“ segir Hrönn. 

Hér er Dr. Harbeen Arora, stofnanda All Ladies League sem …
Hér er Dr. Harbeen Arora, stofnanda All Ladies League sem stendur fyrir Women Economic Forum ásamt Elizu Reid forsetafrú Íslands. Myndin er tekin heima hjá Rajiv Kumar Nagpal sendiherra Indlands á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurð að því hvað hafi tengt þær tvær saman segir hún að jafnréttishjörtu þeirra hafi slegið í takt.

„Við fundum það strax að jafnréttindahjörtu okkar slógu í takt og okkur er báðum mikið í mun um að konur hafi sömu tækifæri og karlar. En það er himinn og haf á milli Indlands og Íslands þegar kemur að þessu málefni og það er mikið sem hægt er að læra af okkur Íslendingum þótt við séum ekki enn komin á leiðarenda. Það leið ekki á löngu að sú hugmynd kviknaði að halda Women Economic Forum hér á Íslandi. Hún bað mig um að aðstoða sig við að kanna hvort áhugi væri fyrir því og áður en ég vissi af var allt komið á fullt,“ segir hún. 

Dr. Harbeen Arora er stofnandi All Ladies League sem stendur fyrir Women Economic Forum. Hrönn segir að samtökin vilji stuðla að velferð, vellíðan og fjárhagslegu sjálfstæði kvenna með því að styrkja konur í mismunandi leiðtogahlutverkum út um allan heim. Einnig veita samtökin konum hvaðan af úr heiminum frítt háskólanám í völdum háskólum í Indlandi sem ekki hafa efni á því.

„Hún Harbeen lýsir þessu mjög vel þegar hún talar um að öll fræ geta blómstrað og orðið að þeirri plöntu eða blómi sem því var ætlað að verða með réttri umönnun. En þegar fræið fær ekki þann jarðveg, næringu og aðstæður sem gerir því kleift að blómstra vitum við ekki hvað hefði getað orðið að þessu fræi og það sama á við um okkur. Til þess að ná að verða besta útgáfan af okkur sjálfum þurfum við rétt umhverfi og stuðning. ALL samtökin stuðla að því að tengja konur sem geta aðstoðað hvor aðra í því sem þær vilja taka sér fyrir hendur hvort svo sem það eru góðgerðastörf eða að ná viðskiptalegum markmiðum með því að miðla reynslu sinni og tengslaneti. Til þess að tengja allar þessar konur saman eru svo haldnar ráðstefnur víðsvegar um heiminn sem kallast Women Economic Forum þar sem ýmiss málefni eru rædd og miklar tengingar myndast. Í dag eru tæplega 60 þúsund konur í 135 löndum partur af ALL og til þess að verða meðlimur þarf meðmælanda sem getur staðfest að þarna sé kona á ferð sem er tilbúin að hjálpa öðrum konum,“ segir hún. 

Hrönn og Harbeen eru nú að skipuleggja ráðstefnuna Womens Economic Forum á Íslandi. 

„Það sem mér hefur fundist vanta hér heima eru tengingar við erlendar konur sem eru að gera það gott. Ef ég tek mitt fyrirtæki sem dæmi að þá er Feel Iceland vörurnar að fara inn á nýja markaði erlendis og það að geta leitað til kvenna í þeim löndum sem eru boðnar og búnar að ráðleggja og tengja okkur við rétta fólkið er alveg ómetanlegt. Ég er sannfærð um að þessi samtök og ráðstefnan geti hjálpað fjölmörgum íslenskum konum að gera það gott erlendis, hvort svo sem þær ætli að fara í sjálfboðastarf, háskólanám, vinna erlendis eða gera eitthvað annað spennandi. Það er mjög fjölbreytt flóra af konum í þessum samtökum, allt frá því að vera konur í fátækum þorpum sem vilja bæta hag fjölskyldu sinnar í konur sem eru á Fortune 500 listanum,“ segir Hrönn. 

Þegar ég spyr Hrönn að því hvað það hafi gefið henni að kynnast Harbeen segir hún að það hafi hvatt hana áfram og gefið henni fjölmörg tækifæri. 

„Hún hefur svo sannarlega hvatt mig áfram í því sem ég er að gera og gefið mér tækifæri til að geta hjálpað öðrum konum að ná lengra. Maður þarf nefnilega ekki að vita allt eða kunna allt til þess að geta hjálpað. Það er mjög gaman að sjá hversu vel þessi tengslanet eru að virka erlendis og ég er spennt að sjá hvort íslenskar konur geti ekki nýtt sér þessi samtök til þess að komast nær markmiðum sínum,“ segir hún. 

Hrönn Margrét Magnúsdóttir og Vigdís Finnbogadóttir. Myndin var tekin heima …
Hrönn Margrét Magnúsdóttir og Vigdís Finnbogadóttir. Myndin var tekin heima hjá Indverska sendiherranum á Íslandi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál