10 hlutir sem frábærir yfirmenn gera daglega

Góðir yfirmenn geta gert vinnuna skemmtilega og gefandi.
Góðir yfirmenn geta gert vinnuna skemmtilega og gefandi. Ljósmynd / Getty Images

Flest höfum við heyrt hryllingssögur af slæmum yfirmönnum sem gert hafa starfsfólki sínu lífið leitt. En hvað um frábæra yfirmenn – hvað eiga þeir sameiginlegt? Huffington Post hefur tekið saman lista yfir 10 hluti sem góðir yfirmenn eiga sameiginleg, og er hann hverjum stjórnanda holl lesning.

Frábærir yfirmenn deila upplýsingum
Sumir yfirmenn virðast halda að það grafi undan völdum þeirra að deila upplýsingum með undirmönnum sínum, en í rauninni hefur það þveröfug áhrif. Frábærir yfirmenn vita að það er valdeflandi fyrir undirmenn þeirra að fá að vita hvað klukkan slær, og átta sig á því að það dregur hreint ekki úr áhrifamætti þeirra.

Frábær yfirmaður vandar valið
Slæmir yfirmenn eiga það til að ráða leiðindaskarfa með fín meðmæli vegna þess að þeir hafa einungis áhuga á því hverju einstaklingurinn getur áorkað. Góður yfirmaður hugsar um heildina og gerir sér grein fyrir því að núverandi starfsmenn munu þurfa að vera í daglegum samskiptum við nýja liðsmanninn. Þeir reyna því að finna einhvern sem hentar teyminu.

Góður yfirmaður gleðst yfir sigrum
Góður yfirmaður hugsa ekki með sér, hvers vegna ætti ég að verðlauna þig fyrir að vinna vinnuna þína. Þess í stað leitar hann leiða til að hrósa starfsfólki sínu fyrir vel unnin störf, og leyfir sér að fagna áfangasigrum.

Hann ber virðingu fyrir tíma samstarfsfólksins
Góður yfirmaður gefur ekki í skyn að tími hans sé dýrmætari en tími undirmanna hans. Hann lætur starfsfólk sitt ekki bíða eftir skipulögðum fundum, heldur mætir vel undirbúinn og kemur sér beint að efninu.

Góður yfirmaður sýnir hluttekningu
Frábær yfirmaður á auðvelt með að setja sig í spor undirmanna sinna. Það þýðir ekki að hann láti vaða yfir sig, heldur þýðir það einfaldlega að hann sér undirmenn sína sem einstaklinga og kemur fram við þá sem fólk.

Hann tekur ábyrgð
Slæmir yfirmenn eru fljótir að finna sökudólg þegar eitthvað fer úrskeiðis og eiga ekki í vandræðum með að henda undirmönnum sínum fyrir ljónin til að bjarga eigin skinni. Frábærir yfirmenn átta sig á því að stór partur af starfi þeirra felst í því að axla ábyrgð á störfum teymisins í heild. Þetta þýðir þó ekki að þeir gefi starfsfólki sínu ekki ábendingar um það sem betur má fara.

Frábær yfirmaður er þakklátur
Slæmir yfirmenn telja að undirmenn þeirra standi í skuld við þá, enda fái þeir greitt fyrir vinnu sína. Þetta er auðvitað satt og rétt, en góðir yfirmenn átta sig á því að starfsfólk þeirra gefur mikið af sér í vinnunni, og þakka því fyrir vel unnin störf.

Góður yfirmaður veit að starfsmenn eiga sér líf
Slæmir yfirmenn eiga það til að gleyma því að starfsfólk þeirra á sér líf utan vinnunnar. Góðir yfirmenn gera sér hinsvegar grein fyrir því að undirmenn þeirra eiga fjölskyldu, vini og áhugamál. Þeir reyna því að komast hjá því að biðja starfsfólk sitt um að vinna lengur, nema að reglulega góð ástæða liggi þar að baki.

Hann á auðvelt með að tjá sig
Slæmir yfirmenn eiga það til að reyna að forðast að svara fyrir hluti, af ótta við að hægt sé að nota það gegn þeim síðar meir. Frábærir yfirmenn segja hug sinn, og standa við það sem þeir segja. Þeir segja hlutina einnig hreint út, svo ekki er nauðsynlegt að geta í eyðurnar.

Frábærir yfirmenn skapa leiðtoga
Góðir yfirmenn draga fram það besta í fari starfsfólks síns, hvetja það og finna styrkleika þess. Þegar þeir sjá að undirmenn þeirra eru tilbúnir að takast á við nýjar áskoranir sleppa þeir glaðir af þeim takinu og senda á ný mið.

Ljósmynd / Getty Images
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál